Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Vélsleðar

Akstur vélsleða er ekki hættu­laus frekar en akstur annarra far­ar­tækja. Þess vegna er mik­il­vægt að huga að ör­ygg­inu, sama hversu stutt á að fara. Slys­in sýna að þau verða ekki bara hjá þeim sem hafa litla reynslu og verða alls ekki ein­göngu þegar veður er vont. Mikilvægt er að draga ekki úr varkárni þó þú hafir góða reynslu af sleðaferðum eða aukir hraðann í takt við gott veður.

Al­mennt er bannað að aka vélsleðum í þétt­býli og ber að virða það. Vélsleðum má aka ef snjór er yfir jörðu svo framar­lega sem nátt­úru­spjöll verði ekki. Gil, hengj­ur, harðfenni, krapi,​ vatn, sprung­ur og snjóflóð eru aðstæður sem vélsleðamenn þurfa að var­ast. Öku­menn þurfa því stöðugt að meta aðstæður, vera árvökulir og passa uppá að gleyma hvorki sér né samferðarmönnum sínum.

Réttur undirbúningur skiptir máli
 • Réttindi til að aka vélsleða fylgir ökuprófi.
 • Skoða þarf veðurspá og snjóalög fyrir brottför.
 • Fara yfir sleðann og athuga hvort hann sé í góðu standi.
 • Tryggja að nægt eldsneyti sé á til staðar.
 • Vera með ferðaáætlun sem segir til um fyrirhugaða leið, búnað, brottfarar- og komutíma og ferðafélaga.
 • Negld belti eru mun öruggari en ónegld, sérstaklega í miklum halla.
 • Vélsleðar þurfa að vera skráðir og tryggðir. Ábyrgðartrygging er skyldutrygging ásamt slysatryggingu ökumanns og eigenda. Þær tryggingar bæta eigna- og líkamstjón sem notkun sleðans veldur öðrum og greiðir bætur fyrir meiðsl til ökumanns og farþega þess sleða sem veldur tjóni.
Góður búnaður gulls í gildi
 • Hjálmur.
 • Brynja sem verndar bak og brjóstkassa.
 • GPS tæki og kunnátta á það.
 • Áttaviti og kort og kunnátta á það.
 • Fjarskiptabúnaður eins og farsími, talstöð og/eða gervihnattarsími (full hlaðið og með auka hleðslu).
 • Snjóflóðaýlir innanklæða og kunnátta til að leita að einstaklingi með ýli.
 • Skófla og snjóflóðaleitarstöng sem geymd eru í bakpoka á baki þess sem er á vélsleðanum.
 • Hlýjan og skjólgóðan fatnað, helst í nokkrum lögum.
 • Sjúkrakassi og skyndihjálparþekking.
 • Auka eldsneyti.
 • Auka kerti, reim og verkfæri.
Ferðahegðun
 • Mikilvægt er að a.m.k. einn í hverri ferð hafi reynslu af vélsleðaferðum.
 • Haldið hópinn, akið samt ekki svo þétt að ekki sé hægt að stoppa ef eitthvað hendir þann sem fyrir framan er.
 • Ekki ofmeta eigin getu eða annarra og ekki treysta 100% á leiðsögutækin.
 • Ekki treysta í blindni á GPS punkta sem fengnir eru frá öðrum.
 • Í vondu veðri hefur reynst vel að aka í tvöfaldri röð, svo nærri næsta manni að hann sjáist. Við þær aðstæður er mikilvægt að stilla hraðanum í hóf.
 • Farið ekki um svæði þar sem snjóflóð hafa fallið.
 • Í myndbandi Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar er farið yfir öryggi vélsleðafólks.