Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Ferðamennska

Ferðamönn­um hef­ur fjölgað mjög und­an­far­in ár, bæði inn­lend­um og er­lend­um og ferðamennska þeirra breyst. Göngu­ferðir hafa auk­ist mikið, ásamt því að felli­hýsi, tjald­vagn­ar, hjól­hýsi og hús­bíl­ar eru vin­sæl­ir ferðamát­ar yfir sum­ar­tím­ann.

All­ir vilja kom­ast heil­ir heim. Til að svo megi verða er góður und­ir­bún­ing­ur ferðalags mik­il­væg­ur. Hann get­ur hins veg­ar verið mjög mis­mun­andi eft­ir því hvert för­inni er heitið, hvernig er ferðast og hvernig viðrar. 

All­ir vilja kom­ast heil­ir heim.

Ferðalög er­lend­is

Mik­il­vægt er að und­ir­búa ferðalög er­lend­is vel og vand­lega þar sem mun flókn­ara get­ur verið að tak­ast á við hlut­ina í um­hverfi sem þú þekk­ir ekki til.

Áður en lagt er af stað er mik­il­vægt að muna eft­ir og/​eða kynna sér:

 • Ferðaáætlun sem aðstandendur eru upplýstir um.
 • Ferðapassa og flugupplýsingum.
 • Bólusetningar en upplýsingar um þær má finna á vef Land­læknisembætt­is­ins
 • Tryggingar en lækniskostnaður erlendis er mjög dýr.
 • Sjúkrabúnaði eins og plástri, mýflugnafælandi efni, sólarvörn, verkjalyf, persónuleg lyf ef eru og upplýsingar um þau og burn free eða annað til að bera á sig ef brunnið er. 
 • Svæðið sem ferðast á til og hvort einhverjar sérstakar hættur séu á viðkomandi stað.
 • Að hafa persónuleg lyf með í handfarangri ef annar farangur týnist.
 • Afþreyingu í fluginu ef börn eru með og að tryggja að þau noti öryggisbúnað flugvélarinnar.
 • Setja SOS númerið +45 38 49 80 80 í símann og kynna sér Staðfestingu ferðatryggingar.

Þegar út er komið:

 • Nota næga sólarvörn og verja líkamann og höfuð með fatnaði.
 • Huga vel að vökvatapi og vega upp á móti því með því að drekka mikið vatn. Einkenni vökvataps geta verið höfuðverkur, ógleði, svimi og máttleysi.
 • Velja matvæli sem eru vel elduð. Ís, klakar og kranavatn getur verið varasamt m.t.t. hættu á matareitrun.
 • Taka persónuleg lyf á réttum tíma og borða reglulega.
 • Hafa börn ávallt í sjónmáli.
 • Sýna ábyrga hegðun m.a. hvað varðar áfengi, kynlíf, umferð, strandferðir og vatnasporti. 
 • Huga að eigum sínum og þá sérstaklega síma, peningum, myndavél og kortum. Mikilvægt er að nota öryggisskáp inni á hótelherbergi fyrir verðmæti en skilja þau ekki eftir á glámbekk.
 • Kynna sér eldvarnir gististaðarins.

Viðbrögð við ferðatjóni

 • Ef alvarlegt slys eða veikindi hafðu samband við SOS International í síma +45 3848 8080.
 • Ef ekki er um neyðartilvik að ræða snúa fyrstu viðbrögð þín yfirleitt að því að forða frekara tjóni.
 • Hafðu velferð þína og viðstaddra ávallt í huga.
 • Þegar þú hefur brugðist við á vettvangi er næsta skref að tilkynna tjónið til okkar.
 • Spurt og svarað um viðbrögð við ferðatjóni.
 • Algengar spurningar um ferðatryggingar.

Far­ang­ur

 • Nauðsynlegt er að taka myndir af því sem hefur skemmst og skila með tjónstilkynningu.
 • Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist á flugi skal strax láta vita í afgreiðslu á flugvelli. Fyllið út PIR eyðublað (Property Irregularity Report) og geymið afritið, þar sem því þarf að skila inn með tjónstilkynningu.

Rán/Þ​jófnaður

 • Tilkynna skal þjófnað strax til lögreglu í viðkomandi landi eins fljótt og auðið er. Nauðsynlegt er að skila afriti af öllum skýrslum með tjónstilkynningu.

Göngu­ferðir 

Mik­il vakn­ing hef­ur orðið í úti­vist síðustu ár og eru göngu­ferðir hluti þess. Mik­il­vægt er að und­ir­búa sig vel áður en farið er af stað. Ekki hvað síst fyr­ir lengri ferðir. Gild­ir þá einu hvort und­ir­bún­ing­ur­inn snýr að lík­ams­ástandi eða búnaði. Góður fatnaður, skór, göngustaf­ir, vökvi, nesti og teygj­ur eru nauðsyn­leg ásamt þekk­ingu á staðhátt­um, fjar­skipt­um og veður­spá.

Veðurkæl­ing
Mik­il­vægt er að taka ávallt til­lit til veðurkæl­ing­ar. Talað er um að ef 10 m/​​sek vind­hraði er þá sé vind­kæl­ing eft­ir­far­andi:

 • 0°C þá er hitastigið í raun -7°C
 • -5°C þá er hitastigið í raun -14°C
 • -10°C þá er hitastigið í raun -20°C

Útbúnaðarlist­ar

Lista yfir búnað í göngu­ferðum má m.a. sjá á heimasíðum Ferðafé­lags Íslands og Útivist­ar.

Áhættumat göngu­leiða

Ferðafé­lag Íslands og VÍS hafa í sam­ein­ingu unnið að áhættumati nokk­urra göngu­leiða. Mjög gott er að kynna sér áhættumatið áður en lagt er af stað til að sjá hvaða hætt­ur eru til staðar á viðkom­andi göngu­leið og hvar þær eru. Gott er að leitast við að fara leiðir sem eru stikaðar.

Teygj­ur mik­il­væg­ar

Teygj­ur eru mik­il­væg­ar til að fyr­ir­byggja slys og minnka lík­ur á að vöðvar stytt­ist en við það minnk­ar kraft­ur þeirra. Mik­il­vægt er að teygja strax eft­ir göngu á meðan vöðvarn­ir eru heit­ir því þeir stífna þegar þeir kólna. Gott er að byrja á að teygja stóru vöðvana og enda á þeim minni. Gott er að teygja með bakið beint og leggja áherslu á önd­un. Anda djúpt og fara svo inn í teygj­una á frá­önd­un. Fara enn lengra inn í teygj­una á næstu frá­önd­un og halda þannig áfram í a.m.k. 20-30 sek við hverja teygju.

End­ur­skin

Ef gengið er nærri um­ferð er mik­il­vægt að huga að sýni­leika sín­um. Ef ekið er með lágu ljós­in sér ökumaður gang­andi veg­far­enda sem er dökkklædd­ur ekki fyrr en í 25 metra fjar­lægð. Ef viðkom­andi er með end­ur­skins­merki sést hann aft­ur á móti fimm sinn­um fyrr eða í 125 metra fjar­lægð.

End­ur­skins­merki er ör­ugg og ódýr for­vörn en þau þurfa að vera rétt staðsett. Best er að hafa þau eins neðarlega og hægt er.

 • Hangandi merki er best að hafa beggja vegna á hliðum neðst á yfirhöfn.
 • Límd merki er best að hafa bæði að framan og aftan neðst á yfirhöfn og fyrir miðju. Þau þola þvott við 40°C.
 • Ef endurskinsmerki eru orðin máð og rispuð getur endurskin þeirra minnkað og þörf á að skipta þeim út.

Best er að velja ut­an­yf­irfatnað, skó og tösk­ur sem hafa end­ur­skins­merki á sér. Þá er minnsta hætt­an á að þau gleym­ist eða týn­ist. Ef það er ekki til staðar er hægt að koma við í næsta úti­búi VÍS eða fara í VÍS appið og fá end­ur­skins­merki fyr­ir alla fjöl­skyld­una.

Há­lend­is­ferðir

Á síðustu árum hef­ur ferðamönn­um sem fara um há­lendi Íslands fjölgað mikið. Segja má að á árum áður hafi frek­ar af­markaður hóp­ur ferðast um há­lendið, en nú orðið fer aft­ur á móti fjöld­inn all­ur af ís­lensk­um og er­lend­um ferðamönn­um þar um gang­andi, hjólandi, ak­andi og ríðandi svo nokkuð sé nefnt. Aðstæður uppi á há­lend­inu eru aðrar en á lág­lendi og hætt­ur geta leynst víða. Með góðum und­ir­bún­ingi má koma í veg fyr­ir mörg slys og óhöpp.

 • Kynntu þér svæðið sem á að fara um og talaðu við staðkunnuga.
 • Kynntu þér vatnsmagn í ám og hvar og hvernig best er að fara yfir.
 • Skoðaðu veðurspá.
 • Veður á hálendinu getur verið allt annað en á láglendi og jafnvel getur snjóað þar um hásumar.
 • Gerðu ferðaáætlun og skildu hana eftir hjá aðstandendum.
 • Ferðastu ekki einn/einsömul.
 • Vertu vel fjarskiptatækjum búin(n), ásamt korti og áttavita og með þekkingu til að nota búnaðinn.
 • Vandaðu persónulegan búnað sérstaklega m.t.t. fatnaðar og matar.
 • Mundu að þjónusta á hálendinu er lítil sem engin.
 • Ritaðu nafn þitt í gestabækur í þeim skálum sem farið er í.
 • Ef ferðast er á bíl og hann bilar skal halda kyrru fyrir. Mun auðveldara er að finna bíl en einstakling á göngu.
 • Ef þú tapar áttum eða sérð ekki handa þinna skil vegna veðurs skal halda kyrru fyrir. Halda á þér hita og gera allt til að sofna ekki.

Áhuga­verðar heimasíður og fróðleik­ur

Á net­inu er að finna ýms­ar heimasíður með áhuga­verðum upp­lýs­ing­um um há­lendið og aðra staði. Má þar nefna www.nat.iswww.fi.iswww.uti­vist.iswww.lmi.is og www.sa­fetra­vel.is en þar eru m.a. upp­lýs­ing­ar um at­hygl­is­verða staði, skála, göngu­leiðir, veg­núm­er og þjón­ust­ustaði.

Hella­ferðir

Hell­ar eru mjög mis­mun­andi að stærð og gerð en flest­ir eiga það sam­merkt að vera viðkvæm­ir fyr­ir ágangi. Því er mik­il­vægt að all­ir sem um þá fara beri virðingu fyr­ir um­hverf­inu og skilji við hella eins og komið er að þeim.

Hell­ar geta verið hættu­leg­ir yf­ir­ferðar; mikið um lausa steina, óslétt­ur botn, mis­hátt til lofts og mjög kalt inni. Eng­in fjar­skipti eru mögu­leg í hell­um og því þarf að huga sér­stak­lega ör­yggi hella­skoðara.

 • Láta vita af ferðum sínum.
 • Hafa traustan ferðafélaga.
 • Nota hjálm.
 • Vera í góðum gönguskóm.
 • Hafa vasaljós og aukaljós og ljós á hjálmi.
 • Klæða sig vel. Hitastig er oftast 1-4°C sama á hvaða árstíma .
 • Vera í hönskum til að verja hendur fyrir hvössu grjóti.

Útil­ega

Á sumr­in ferðast stór hluti ís­lenskra og er­lendra ferðamanna um landið og eru úti­leg­ur stór part­ur af þeim ferðamáta. Með góðum und­ir­bún­ingi ferðar aukast lík­urn­ar til mun­ar að ferðin gangi vel og ekk­ert óvænt komi uppá.

Hugaðu að:

 • Ferðaáætlun
 • Akstri þar á meðal færð, veður og búnaði bílsins
 • Gististað
 • Gönguleiðum og öryggi þeirra
 • Bensínafgreiðslustöðum
 • Hlýjum og skjólgóðum utanyfirfatnaði
 • Góðum skó
 • Korti og fjarskiptum
 • Sjúkrakassa
 • Öryggi við notkun gas- og kolagrilla

Gisti­staðir
Leyfi­legt er að tjalda við aðal­veg og á óræktuðu landi yfir nótt svo fremri sem ekki er gist leng­ur en í þrjár næt­ur.

Leyfi land­eig­enda þarf að fá ef:

 • Tjalda á nærri húsi
 • Ef tjalda á fleiri en þremur tjöldum saman
 • Ef tjalda á á ræktuðu landi

Á tjalda.is og fer­da­lag.is er að finna upp­lýs­ing­ar um tjald­stæði vítt og breytt um landið. Kynnið ykk­ur regl­ur hvers og eins staðar og farið eft­ir þeim og skiljið við svæðið eins og þið komið að því.

Vetr­ar­ferðir

Bæði inn­lend­um og er­lend­um ferðamönn­um fjölg­ar stöðugt sem ferðast um landið og há­lendið að vetri til. Búnaður, bæði per­sónu­leg­ur og tæki, er ekki sá sami að vetri til og að sumri enda aðstæður gjör­ólík­ar.

Und­ir­búa þarf vetr­ar­ferðir af mun meiri kost­gæfni en ferðir að sumri.

 • Kynntu þér svæðið sem á að fara um og talaðu við staðkunnuga.
 • Skoðaðu veðurspá ásamt veðurspá síðustu daga þar sem hún getur sagt mikið til um aðstæður.
 • Gerðu ferðaáætlun og skildu hana eftir hjá aðstandendum.
 • Ferðastu ekki einn/einsömul og verið ávallt á fleiru en einu farartæki.
 • Vertu vel fjarskiptatækjum búin(n), ásamt korti og áttavita og með þekkingu til að nota búnaðinn.
 • Settu 112 appið í farsímann.
 • Vandaðu persónulegan búnað sérstaklega m.t.t. fatnaðar og nestis og hafðu ávallt neyðarnesti.
 • Kynntu þér snjóflóðahættu á svæðinu og ekki ferðast um svæði þar sem snjóflóð hafa fallið nýlega. Hafðu meðferðis snjóflóðaýli, snjóflóðastöng og skóflu.
 • Ef fara á upp á jökul er mikilvægt að setja sprungu­kortið í gps tækið og fara eftir þeim upplýsingum sem þar eru og gæta þess að ganga í línu.
 • Ef farið er um á tæki skal gera ráð fyrir að það geti bilað og því skal hafa með grunnviðgerðarbúnað.
 • Ritaðu nafn þitt í gestabækur.
 • Ef ferðast er á farartæki og það bilar eða ratað er í villu skal halda kyrru fyrir. Mun auðveldara er að finna farartækið en einstakling á göngu.
 • Ef þú tapar áttum eða ekki sést handa sinna skil vegna veðurs skal halda kyrru fyrri. Haltu á þér hita og gerðu allt til að sofna ekki.