Ferðamennska
Ferðamönnum hefur fjölgað mjög undanfarin ár, bæði innlendum og erlendum og ferðamennska þeirra breyst. Gönguferðir hafa aukist mikið, ásamt því að fellihýsi, tjaldvagnar, hjólhýsi og húsbílar eru vinsælir ferðamátar yfir sumartímann.
Allir vilja komast heilir heim. Til að svo megi verða er góður undirbúningur ferðalags mikilvægur. Hann getur hins vegar verið mjög mismunandi eftir því hvert förinni er heitið, hvernig er ferðast og hvernig viðrar.
Ferðalög erlendis
Mikilvægt er að undirbúa ferðalög erlendis vel og vandlega þar sem mun flóknara getur verið að takast á við hlutina í umhverfi sem þú þekkir ekki til.
Áður en lagt er af stað er mikilvægt að muna eftir og/eða kynna sér:
- Ferðaáætlun sem aðstandendur eru upplýstir um.
- Ferðapassa og flugupplýsingum.
- Bólusetningar en upplýsingar um þær má finna á vef Landlæknisembættisins.
- Tryggingar en lækniskostnaður erlendis er mjög dýr.
- Sjúkrabúnaði eins og plástri, mýflugnafælandi efni, sólarvörn, verkjalyf, persónuleg lyf ef eru og upplýsingar um þau og burn free eða annað til að bera á sig ef brunnið er.
- Svæðið sem ferðast á til og hvort einhverjar sérstakar hættur séu á viðkomandi stað.
- Að hafa persónuleg lyf með í handfarangri ef annar farangur týnist.
- Afþreyingu í fluginu ef börn eru með og að tryggja að þau noti öryggisbúnað flugvélarinnar.
- Setja SOS númerið +45 70 10 50 50 í símann og kynna sér Staðfestingu ferðatryggingar.
Þegar út er komið:
- Nota næga sólarvörn og verja líkamann og höfuð með fatnaði.
- Huga vel að vökvatapi og vega upp á móti því með því að drekka mikið vatn. Einkenni vökvataps geta verið höfuðverkur, ógleði, svimi og máttleysi.
- Velja matvæli sem eru vel elduð. Ís, klakar og kranavatn getur verið varasamt m.t.t. hættu á matareitrun.
- Taka persónuleg lyf á réttum tíma og borða reglulega.
- Hafa börn ávallt í sjónmáli.
- Sýna ábyrga hegðun m.a. hvað varðar áfengi, kynlíf, umferð, strandferðir og vatnasporti.
- Huga að eigum sínum og þá sérstaklega síma, peningum, myndavél og kortum. Mikilvægt er að nota öryggisskáp inni á hótelherbergi fyrir verðmæti en skilja þau ekki eftir á glámbekk.
- Kynna sér eldvarnir gististaðarins.
Hvernig á að bregðast við tjóni?
Slys eða veikindi
- Ef um minni slys eða veikindi er að ræða skal kostnaður við aðhlynningu greiddur og reikningar síðan lagðir fram hjá VÍS við heimkomu.
- Í neyðartilvikum er haft samband við SOS. Sími: +4570105050 eða email: sos@sos.dk. Þjónustan er sótt í gegnum Danmörku og þjónustufulltrúar tala fjölmörg tungumál þar á meðal íslensku.
- Sýnið Evrópska sjúkratryggingakortið ef leitað er aðstoðar læknis innan EES.
- Nauðsynlegt er að geyma alla reikninga og framvísa hjá VÍS við heimkomu.
Farangur
- Nauðsynlegt er að taka myndir af því sem hefur skemmst og skila með tjónstilkynningu.
- Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist á flugi skal strax láta vita í afgreiðslu á flugvelli. Fyllið út PIR eyðublað (Property Irregularity Report) og geymið afritið, þar sem því þarf að skila inn með tjónstilkynningu.
Rán/Þjófnaður
- Tilkynna skal þjófnað strax til lögreglu í viðkomandi landi og/eða fararstjóra eins fljótt og auðið er. Nauðsynlegt er að skila afriti af öllum skýrslum með tjónstilkynningu.
- ATH. Aðeins eru greiddar bætur vegna þjófnaðar úr híbýlum, bifreiðum, húsvögnum og bátum.
Gönguferðir
Mikil vakning hefur orðið í útivist síðustu ár og eru gönguferðir hluti þess. Mikilvægt er að undirbúa sig vel áður en farið er af stað. Ekki hvað síst fyrir lengri ferðir. Gildir þá einu hvort undirbúningurinn snýr að líkamsástandi eða búnaði. Góður fatnaður, skór, göngustafir, vökvi, nesti og teygjur eru nauðsynleg ásamt þekkingu á staðháttum, fjarskiptum og veðurspá.
Veðurkæling
Mikilvægt er að taka ávallt tillit til veðurkælingar. Talað er um að ef 10 m/sek vindhraði er þá sé vindkæling eftirfarandi:
- 0°C þá er hitastigið í raun -7°C
- -5°C þá er hitastigið í raun -14°C
- -10°C þá er hitastigið í raun -20°C
Útbúnaðarlistar
Lista yfir búnað í gönguferðum má m.a. sjá á Safetravel.is og á heimasíðum Ferðafélags Íslands og Útivistar.
Áhættumat gönguleiða
Ferðafélag Íslands og VÍS hafa í sameiningu unnið að áhættumati nokkurra gönguleiða. Mjög gott er að kynna sér áhættumatið áður en lagt er af stað til að sjá hvaða hættur eru til staðar á viðkomandi gönguleið og hvar þær eru.
Gönguleiðir
Á vefnum gonguleidir.is er að finna margar skemmtilegar gönguleiðir á Íslandi. Þar eru upplýsingar um miserfiðar gönguleiðir, allt frá því að taka stutta stund upp í ferðir sem taka meira en einn dag.
Teygjur mikilvægar
Teygjur eru mikilvægar til að fyrirbyggja slys og minnka líkur á að vöðvar styttist en við það minnkar kraftur þeirra. Mikilvægt er að teygja strax eftir göngu á meðan vöðvarnir eru heitir því þeir stífna þegar þeir kólna. Gott er að byrja á að teygja stóru vöðvana og enda á þeim minni. Gott er að teygja með bakið beint og leggja áherslu á öndun. Anda djúpt og fara svo inn í teygjuna á fráöndun. Fara enn lengra inn í teygjuna á næstu fráöndun og halda þannig áfram í a.m.k. 20-30 sek við hverja teygju.
Endurskin
Ef gengið er nærri umferð er mikilvægt að huga að sýnileika sínum. Ef ekið er með lágu ljósin sér ökumaður gangandi vegfarenda sem er dökkklæddur ekki fyrr en í 25 metra fjarlægð. Ef viðkomandi er með endurskinsmerki sést hann aftur á móti fimm sinnum fyrr eða í 125 metra fjarlægð.
Endurskinsmerki er örugg og ódýr forvörn en þau þurfa að vera rétt staðsett. Best er að hafa þau eins neðarlega og hægt er.
- Hangandi merki er best að hafa beggja vegna á hliðum neðst á yfirhöfn.
- Límd merki er best að hafa bæði að framan og aftan neðst á yfirhöfn og fyrir miðju. Þau þola þvott við 40°C.
- Ef endurskinsmerki eru orðin máð og rispuð getur endurskin þeirra minnkað og þörf á að skipta þeim út.
Best er að velja utanyfirfatnað, skó og töskur sem hafa endurskinsmerki á sér. Þá er minnsta hættan á að þau gleymist eða týnist. Ef það er ekki til staðar er hægt að koma við í næsta útibúi VÍS eða fara í VÍS appið og fá endurskinsmerki fyrir alla fjölskylduna.
Hálendisferðir
Á síðustu árum hefur ferðamönnum sem fara um hálendi Íslands fjölgað mikið. Segja má að á árum áður hafi frekar afmarkaður hópur ferðast um hálendið, en nú orðið fer aftur á móti fjöldinn allur af íslenskum og erlendum ferðamönnum þar um gangandi, hjólandi, akandi og ríðandi svo nokkuð sé nefnt. Aðstæður uppi á hálendinu eru aðrar en á láglendi og hættur geta leynst víða. Með góðum undirbúningi má koma í veg fyrir mörg slys og óhöpp.
- Kynntu þér svæðið sem á að fara um og talaðu við staðkunnuga.
- Kynntu þér vatnsmagn í ám og hvar og hvernig best er að fara yfir.
- Skoðaðu veðurspá.
- Veður á hálendinu getur verið allt annað en á láglendi og jafnvel getur snjóað þar um hásumar.
- Gerðu ferðaáætlun og skildu hana eftir hjá aðstandendum.
- Ferðastu ekki einn/einsömul.
- Vertu vel fjarskiptatækjum búin(n), ásamt korti og áttavita og með þekkingu til að nota búnaðinn.
- Vandaðu persónulegan búnað sérstaklega m.t.t. fatnaðar og matar.
- Mundu að þjónusta á hálendinu er lítil sem engin.
- Ritaðu nafn þitt í gestabækur í þeim skálum sem farið er í.
- Ef ferðast er á bíl og hann bilar skal halda kyrru fyrir. Mun auðveldara er að finna bíl en einstakling á göngu.
- Ef þú tapar áttum eða sérð ekki handa þinna skil vegna veðurs skal halda kyrru fyrir. Halda á þér hita og gera allt til að sofna ekki.
Áhugaverðar heimasíður og fróðleikur
Á netinu er að finna ýmsar heimasíður með áhugaverðum upplýsingum um hálendið og aðra staði. Má þar nefna www.nat.is, www.fi.is, www.utivist.is, www.lmi.is og www.safetravel.is en þar eru m.a. upplýsingar um athyglisverða staði, skála, gönguleiðir, vegnúmer og þjónustustaði.
Upplýsingar um hálendisakstur er að finna á síðunni akstur undir kaflanum umferð.
Hellaferðir
Hellar eru mjög mismunandi að stærð og gerð en flestir eiga það sammerkt að vera viðkvæmir fyrir ágangi. Því er mikilvægt að allir sem um þá fara beri virðingu fyrir umhverfinu og skilji við hella eins og komið er að þeim.
Hellar geta verið hættulegir yfirferðar; mikið um lausa steina, ósléttur botn, mishátt til lofts og mjög kalt inni. Engin fjarskipti eru möguleg í hellum og því þarf að huga sérstaklega öryggi hellaskoðara.
- Láta vita af ferðum sínum.
- Hafa traustan ferðafélaga.
- Nota hjálm.
- Vera í góðum gönguskóm.
- Hafa vasaljós og aukaljós og ljós á hjálmi.
- Klæða sig vel. Hitastig er oftast 1-4°C sama á hvaða árstíma .
- Vera í hönskum til að verja hendur fyrir hvössu grjóti.
Útilega
Á sumrin ferðast stór hluti íslenskra og erlendra ferðamanna um landið og eru útilegur stór partur af þeim ferðamáta. Með góðum undirbúningi ferðar aukast líkurnar til munar að ferðin gangi vel og ekkert óvænt komi uppá.
Hugaðu að:
- Ferðaáætlun
- Akstri þar á meðal færð, veður og búnaði bílsins
- Gististað
- Gönguleiðum og öryggi þeirra
- Bensínafgreiðslustöðum
- Hlýjum og skjólgóðum utanyfirfatnaði
- Góðum skó
- Korti og fjarskiptum
- Sjúkrakassa
- Öryggi við notkun gas- og kolagrilla
Gististaðir
Leyfilegt er að tjalda við aðalveg og á óræktuðu landi yfir nótt svo fremri sem ekki er gist lengur en í þrjár nætur.
Leyfi landeigenda þarf að fá ef:
- Tjalda á nærri húsi
- Ef tjalda á fleiri en þremur tjöldum saman
- Ef tjalda á á ræktuðu landi
Á tjalda.is og ferdalag.is er að finna upplýsingar um tjaldstæði vítt og breytt um landið. Kynnið ykkur reglur hvers og eins staðar og farið eftir þeim. Skiljið jafnframt við svæðið eins og þið komið að því.
Vetrarferðir
Bæði innlendum og erlendum ferðamönnum fjölgar stöðugt sem ferðast um landið og hálendið að vetri til. Búnaður, bæði persónulegur og tæki, er ekki sá sami að vetri til og að sumri enda aðstæður gjörólíkar.
Undirbúa þarf vetrarferðir af mun meiri kostgæfni en ferðir að sumri.
- Kynntu þér svæðið sem á að fara um og talaðu við staðkunnuga.
- Skoðaðu veðurspá ásamt veðurspá síðustu daga þar sem hún getur sagt mikið til um aðstæður.
- Gerðu ferðaáætlun og skildu hana eftir hjá aðstandendum.
- Ferðastu ekki einn/einsömul og verið ávallt á fleiru en einu farartæki.
- Vertu vel fjarskiptatækjum búin(n), ásamt korti og áttavita og með þekkingu til að nota búnaðinn.
- Settu 112 appið í farsímann.
- Vandaðu persónulegan búnað sérstaklega m.t.t. fatnaðar og nestis og hafðu ávallt neyðarnesti.
- Kynntu þér snjóflóðahættu á svæðinu og ekki ferðast um svæði þar sem snjóflóð hafa fallið nýlega. Hafðu meðferðis snjóflóðaýli, snjóflóðastöng og skóflu.
- Ef fara á upp á jökul er mikilvægt að setja sprungukortið í gps tækið og fara eftir þeim upplýsingum sem þar eru og gæta þess að ganga í línu.
- Ef farið er um á tæki skal gera ráð fyrir að það geti bilað og því skal hafa með grunnviðgerðarbúnað.
- Ritaðu nafn þitt í gestabækur.
- Ef ferðast er á farartæki og það bilar eða ratað er í villu skal halda kyrru fyrir. Mun auðveldara er að finna farartækið en einstakling á göngu.
- Ef þú tapar áttum eða ekki sést handa sinna skil vegna veðurs skal halda kyrru fyrri. Haltu á þér hita og gerðu allt til að sofna ekki.