Eldgos
Mikilvægt er að við tökum fullt mark á viðvörunum sem settar eru fram í tengslum við eldgos þegar þau eru í gangi. Förum ekki inn á svæði sem eru lokuð og látum lögreglu vita ef við vitum um mannaferðir þar.

Þegar gos er í gangi er nauðsynlegt að við fylgjumst vel með fréttum og tökum mark á þeim ráðleggingum sem þar koma fram. Kynnum okkur hvort lokanir séu á vegum, hvort Almannavarnir hafi sent frá sér viðvaranir, hvort mengun sé til staðar og hver staða loftgæða sé.
Hvaða tryggingar taka á tjóni ef verður?
Tjón af völdum eldgosa eru bætt af Náttúruhamfaratryggingu Íslands það er á þeim eignum sem eru brunatryggðar og falla undir eignatryggingar. Náttúruhamfaratrygging Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 55/1992 með áorðnum breytingum og reglugerð nr. 83/1993.
Er mikil hætta af gasstreymi?
Í og við eldstöð getur gasstreymi verið til staðar. Mikilvægt er að afla sér upplýsinga um hvort svo sé þar sem bráð lífshætta getur stafað af gasinu og ekki óhætt að nálgast svæðið án gasmæla og gasgríma.
Fer askan illa með bílinn?
Mikilvægt er að koma bílum og öðrum vélum í skjól frá öskufalli t.d. með því að færa undir þak eða breiða yfir með þykku plasti eða dúk.
Hvað ef aska er nú þegar komin á bílinn?
- Mikilvægt er að skola öskuna af með köldu vatni.
- Alls ekki nudda öskuna af, þá er hætta á rispa lakkið.
- Askan getur brennt sig inn í lakkið ef hún fær að liggja á því sér í lagi í sólskini.
- Ekki nota rúðuþurrkur ef aska er á rúðum. Askan virkar eins og sandpappír og getur rispað rúðuna ef þurrkunar eru settar í gang.
- Ef farartæki lendir í öskufalli eða er ekið í gosösku eða ryki af henni er hætta á að lofthreinsarar og annar loftflæðibúnaður stíflist eða óhreinkist svo að það hamli eðlilegu loftflæði með tilheyrandi hættu á gangtruflunum eða öðrum bilunum.
Hvernig fer askan í dýrin?
Aska sem berst frá stórum eldstöðvum inniheldur oft mikið af flúor sem getur bæði haft bráð og langvinn eituráhrif á grasbíta. En flúormengunin er ekki það eina sem ber að varast heldur getur askan sært öndunar- og meltingarfæri dýra.
- Að hýsa búfé sé það mögulegt.
- Sjá dýrum sem eru úti fyrir hreinu vatni og koma í veg fyrir að þau drekki vatn úr pollum, skurðum þar sem ekki er sírennsli.
- Gefa dýrum sem eru úti vel af heyi svo þau séu síður á beit.
- Hafa saltstein úti fyrir dýrin sem eru þar.
- Fylgist með veður- og öskuspá.
Nálgast má frekari upplýsingar um dýrin í eftirfarandi greinum á heimasíðu Matvælastofnunar.
Hefur askan áhrif á heilsu fólks?
Aska er samsett úr misstórum ögnum og efnasamsetning hennar getur verið mjög mismunandi. Vindátt og aðrar aðstæður ráða því hvar askan fellur og því mikilvægt að fylgjast vel með veður- og öskuspá. Á vef Umhverfisstofnunar er að finna upplýsingar um mælingar á loftgæðum. Ef svifryk er undir 50 µg/m3 er talað um góð loftgæði. Ef skyggni er 4 km þá er styrkur svifryks kominn upp í 150-400 µg/m3 og þá eru loftgæðin orðin slæm og mjög slæm ef skyggni er 1,5 km eða minna.
Ítarlegar upplýsingar um hættu á heilsutjóni vegna gosösku má sjá í leiðbeiningum sem hafa verið teknar saman. Algengast er þó að helstu einkenni komi fram í öndunarfærum og augum.
Hver eru algengustu öndunarfæraeinkennin?
- Nefrennsli og erting í nefi.
- Særindi í hálsi og hósti.
- Fólk sem þjáist af lungnasjúkdómum, t.d. astma, getur fengið berkjubólgur sem vara í marga daga og lýsa sér í hósta, uppgangi og öndunarerfiðleikum.
Hver eru helstu einkenni frá augum?
- Gosaska getur ert augu einkum ef augnlinsur eru notaðar.
- Tilfinning eins og aðskotahlutur sé til staðar í augunum.
- Særindi, kláði og blóðhlaupin augu.
- Útferð og tárarennsli.
- Skrámur á sjónhimnu.
- Bráð augnbólga og ljósfælni.
Hverjar eru helstu ráðleggingar til fólks í öskufalli?
- Nota öndunarfæragrímur utanhúss.
- Ef öndunarfæragrímur eru ekki tiltækar má nota vasaklút, buff eða annan klæðnað sem heldur stærri ögnum frá.
- Ráðlagt er að nota hlífðargleraugu.
- Börn og fullorðnir með öndunarfærasjúkdóma ættu að halda sig innanhúss.
- Hita húsin vel þannig að yfirþrýstingur myndist. Þá minnka líkur á að askan berist inn í húsin.
- Almannavarnir telja ekki þörf á að fólk noti rykgrímur annarsstaðar en þar sem gosmökkur er sýnilegur.
- Vera í hlífðarfatnaði.
Upplýsingar m.a. fengnar af heimasíðu Landlæknis.
Hverjar eru helstu ráðleggingar með hús, heimili og lausamuni?
- Loka vel gluggum og útidyrum.
- Ef þörf krefur þétta í kringum glugga og útidyr t.d. með límbandi og rökum handklæðum.
- Breiða yfir viðkvæm tæki eins og tölvur, sjónvörp og hljómflutningstæki.
- Hækka hitastig ofna það minnkar líkur á að ryk smjúgi inn.
- Koma sigtum fyrir í niðurföllum utandyra, þar með talið þakrennum.
- Komið öllum lausamunum og ökutækjum í hús eftir því sem kostur er.
- Hýsið dýr.
- Gætið að orkunotkun í húsinu, hvort óeðlileg hitamyndun er frá rafmagni.
- Gangið úr skugga um að reykskynjarar og handslökkvitæki séu til staðar og virki.
- Hafið tiltæk verkfæri, svo sem hamar, töng, rörtöng, skrúfjárn, skóflu og kúbein.
- Hafið tiltækan síma og útvarp.
- Gætið þess að læsa vel og loka öllum hurðum ef yfirgefa þarf hús.
- Kynnið ykkur upplýsingar Almannavarna um viðbrögð við eldgosum.
Hvaða hagsmunir eru tryggðir og hverjir ekki?
- Viðlagatrygging fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging.
- Sé lausafé tryggt gegn bruna undir eignatryggingum fylgir viðlagatrygging.
- Sé búfé tryggt undir landbúnaðartryggingu VÍS fylgir viðlagatrygging.
- Slysatjón vegna eldgosa eru undanskilin í slysatryggingum, en eru þó innifalin i launþegatryggingu.
- Tjón vegna eldgosa eru undanskilin í dýratryggingum VÍS.
- Tjón af völdum eldgoss er undanskilið í kaskótryggingum.
- Forföll og ferðatafir sem rekja má til eldgoss eru ekki bótaskyld tjón, hvorki úr ferða- né kortatryggingum.