Tjónagrunnur
Tjónagrunnur er sameiginlegur gagnagrunnur skaðatrygginga á Íslandi. Grunnurinn er rekinn af Creditinfo í þeim tilgangi að stemma stigu við vátryggingasvikum og ofgreiðslu vátryggingabóta.
Hver er ábyrgðaraðili og vinnsluaðili?
Vátryggingafélögin eru hvert um sig ábyrgðaraðili þeirra tjónaupplýsinga sem þau skrá í grunninn. Creditinfo er vinnsluaðili.
Hvaða upplýsingar eru skráðar í tjónagrunninn?
Öll tilkynnt tjón eru skráð í tjónagrunninn fyrir utan líf-og sjúkdómatilkynningar og tjón sem börn yngri en 15 ára verða fyrir. Eingöngu má skrá eftirfarandi upplýsingar í tjónagrunninn:
- Nafn vátryggingafélags.
- Kennitala tjónþola.
- Númer máls hjá félagi.
- Tegund vátryggingar.
- Tegund tjóns.
- Dagsetning tjóns.
- Dagsetning skráningar í tjónagrunn.
- Staðsetning tjóns.
- Einkvæmt númer hins tryggða s.s. skráningarnúmer ökutækis, fastanúmer fasteignar o.fl.
- Óheimilt er að skrá í tjónagrunn upplýsingar um einstök heilsufarsleg atriði í tengslum við líkamstjón.
Hvernig má nota tjónagrunninn?
Tilgangur tjónagrunnsins er að stemma stigi við vátryggingasvikum og ofgreiðslu vátryggingabóta. Óheimilt er að nota upplýsingar úr tjónagrunninum í markaðs-og/eða viðskiptalegum tilgangi.
Hverjir hafa aðgang að tjónagrunninum?
Eingöngu þeir starfsmenn vátryggingafélaga sem skrá tjón og vinna við tjónauppgjör hafa aðgang að upplýsingum í tjónagrunninum.
Varðveislutími
Upplýsingum úr grunninum er eytt út þegar ekki gerist lengur þörf á þeim, en í síðasta lagi 10 árum frá skráningu upplýsinga í tjónagrunninn. Hægt er að nálgast upplýsingar um uppflettingar í tjónagrunninum á „Mínum síðum“ hjá Creditinfo. Fyrirspurnum og athugasemdum vegna uppflettinga og rangra upplýsinga skal beina til Creditinfo.