Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Hestamennska

Áætlað er að 30.000 ein­stak­ling­ar stundi hesta­mennsku á einn eða ann­an hátt á land­inu. Skráðir fé­lag­ar hjá Land­ssam­bandi hesta­manna­fé­laga eru um 12.500 í 39 fé­lög­um og ætlaður fjöldi hesta á land­inu er um 92.000. Í bæk­lingi VÍS, Öryggi í hesta­mennsku, er að finna fróðlegt efni sem snýr að ör­ugg­um út­reiðum fyr­ir knapa, öku­menn og aðra.  

Hest­ar og um­ferð

Örugg­asta um­hverfi til út­reiða er aflokað rými eða sér­stak­ir reiðstíg­ar þar sem ekki er önn­ur um­ferð. Sér­stak­ir reiðstíg­ar eru ekki marg­ir á Íslandi og oft­ar en ekki liggja þeir meðfram veg­um þar sem um­ferð ým­issa far­ar­tækja og/​eða gang­andi fólks er.

Stærstu hest­húsa­hverf­in liggja mörg hver ná­lægt þétt­býli þar sem ekki er hægt að ganga að til­lits­semi við hesta­menn og hross vísri. Af­leiðing­ar árekst­urs milli bíls og hests geta verið mjög al­var­leg­ar enda veg­ur meðal­hest­ur um 370 kg og knapi illa var­inn ef hann lend­ir í slysi.

Hvað ger­ir hesta­menn ör­ugg­ari í um­ferðinni?

Hest­ur telst til „far­ar­tækja“ og hef­ur sama rétt á að fara um vegi og bíl­ar.

 • Knapar þurfa að tryggja sýnileika sinn s.s. með endurskinsmerkjum og sýnileikafatnaði.
 • Knapar þurfa að þekkja almennar umferðarreglur. Í blandaðri umferð er góð regla að nota sömu bendingar og hjólreiðamenn til að sýna hvert maður stefnir.
 • Hægri reglan gildir þegar riðið er hest þannig að ríða skal hægra megin á vegi, eins nálægt kanti og hægt er. Þegar hestur er teymdur á vegi skal teyma hann hægra megin á veginum og skal maðurinn vera næst umferðinni, þ.e.a.s. vinstra megin við hestinn.
 • Nota skal reiðvegi þar sem þeir eru fyrir hendi.
 • Hestamenn mega ekki ríða eftir gangstéttum eða merktum göngustígum. 
 • Ef hópur af reiðmönnum þverar veg telst hópurinn ein heild og ökumenn mega ekki keyra í gegnum hópinn heldur eiga þeir að bíða þangað til síðasti hestur er kominn yfir. Vegna hópeðlis hesta getur verið mjög hættulegt að skipta hópnum. Hestarnir sem eftir verða geta orðið órólegir og tekið upp á því að hlaupa á eftir hinum sem undan hafa farið. Það er góð regla þegar farið er yfir veg að fremsti knapi gefi merki og allir þveri veginn samtímis. 
 • Forðist að ríða úti á bílvegum. 
 • Þakkið bílstjórum sem hægja ferðina og taka tillit. Bílstjóri sem hefur fengið vinalegt „takk“ frá reiðmanni sýnir frekar tillitssemi næst þegar hann mætir hesti.
 • Reynið að gera ykkur sýnileg fyrir bílstjórum. 
 • Ef hestur verður órólegur, reynið þá að ná sambandi við bílstjórann og gefa honum merki um að hægja ferðina eða stoppa. 
 • Reynið að vera eins langt til hægri á vegkantinum og kostur er. 
 • Gott er að fara af baki ef mætt er vélhjólum eða sleðum.

Mótor­hjól og hest­ar

Til að auka skiln­ing og sam­vinnu á milli hesta­manna og mótor­hjóla­manna var farið í sam­vinnu á milli hesta­manna­fé­laga, mótor­hjóla­klúbba og trygg­ing­ar­fé­laga. Vegg­spjald og mynd­band var búið til og eiga Hesta­manna­fé­lagið Fák­ur og Vél­hjólaíþrótta­klúbbur­inn veg og vanda af því.

Hest­húsið

Hest­húsið og allt um­hverfi þess þarf að miða að því að óvan­ir kom­ist slysa­laust frá því.

Um­gengni um hest­húsið

 • Forðist að gefa hestum brauð/nammi beint úr hendinni. Setjið það frekar í stallinn.
 • Stíuhurðir eiga að vera lokaðar. Lausir hestar utan stíu í hesthúsi skapa hættu.
 • Hafið ró og næði í hesthúsinu. Samtöl skulu fara fram í venjulegri tónhæð. Taka ber tillit til þess að hestar heyra mun betur en manneskjur. Rifrildi, öskur og óvænt hljóð geta hrætt þá.
 • Ef nálgast á hest aftan frá má ekki koma honum að óvörum, gott er að undirbúa hann með því að tala við hann.
 • Ekki hlaupa í hesthúsinu nema í neyð. Passið vel að börn hlaupi ekki eða klifri í milligerðum og í stöllum.
 • Hver hlutur á að vera á sínum stað. Reiðtygi eiga ekki að liggja á hesthúsganginum. Ef hestur stígur í ístað eða ól getur hann dregið viðkomandi hlut með sér og fælst.
 • Aldrei reykja í eða við hesthúsið.
 • Skartgripir og opnir skór eiga ekki heima í hesthúsi.
 • Teyma skal hest í taumi, ekki halda bara í múl. Aldrei skal vefja taum utan um hönd. Ef hestur reynir að slíta sig burt frá knapa þarf taumurinn að geta runnið úr hendinni, annars geta komið alvarlegir áverkar á höndina og knapinn jafnvel dregist með.

Aðbúnaður hest­húsa

 • Athugið að dyr séu nógu breiðar þannig að ekki sé hætta á því að hnakkur á baki hestsins geti fests á leið út eða að maður sem teymir hest um dyrnar geti kramist milli hests og stafs. Tvískiptar hurðir geta verið slysagildra þar sem fólk opnar oft bara aðra hurðina.
 • Hesthúsagangar þurfa að vera það breiðir að öruggt sé að fara um þá.
 • Útihurðir á að vera auðvelt að opna og hægt að tylla þeim svo þær skelli t.d. ekki á hest í roki.
 • Stíuhurðir þarf að vera auðvelt að opna að innan.
 • Hafið grindur fyrir þeim gluggum sem hestar komast að
 • Ekki er gott að setja hesta saman í stíu sem ekki eru sáttir við hvorn annan. Það eykur hættu á slagsmálum. 
 • Setjið sand til að forðast hálku utanhúss og sjáið einnig til þess að gólfið í hesthúsinu sé ekki hált.

Hest­ur­inn

Öryggi í um­gengni við hesta snýst að stór­um hluta um að gera sér grein fyr­ir því hvernig hest­ar bregðast við ólík­um aðstæðum. Það er meg­in­mun­ur á viðbrögðum manna og hesta. Um leið og maður ger­ir sér grein fyr­ir því hvernig hest­ur bregst við eru meiri lík­ur á því að koma megi í veg fyr­ir slys. Hestar eru stór dýr sem geta auðveldlega skaðað knapa sinn og skapað hættu í umhverfi sem þeir eiga ekkert erindi í. Í bæk­lingi VÍS, Öryggi í hesta­mennsku, er að finna fróðlegt efni sem snýr að mörgum öryggisatriðum sem og fræðslu um flótta- og hjarðeðli hesta, skynfæri þeirra og minni, hvaða áhrif umhverfið hefur á þá, líkamsástand, ábyrgð knapa og kaup á hestum.

Reiðskólar og hestaleigur

 • Eru til reyndir og vel tamdir hestar fyrir óvana knapa?
 • Eru til passlegir hnakkar, hjálmar og öryggisístöð fyrir stóra sem smáa?
 • Er ástand reiðtygja gott?
 • Eru menntaðir og reynslumiklir reiðkennarar/starfsmenn?
 • Hvernig eru reiðleiðir? Aflokaðir stígar eða stígar þar sem búast má við umferð annarra hesta og/eða farartækja?
 • Fá gestir leiðbeiningar áður en hestur er afhentur og lagt er af stað í reiðtúr?
 • Eru börnum/óvönum kennd undirstöðuatriði reiðmennsku í gerði áður en lagt er af stað?
 • Athugar starfsmaður ístöð og gjarðir eftir að komið er á bak?
 • Er fararstjórinn með síma og skyndihjálpartösku?
 • Ávallt skal hlusta og fara eftir leiðbeiningum starfsmanns/fararstjóra og ekki fara fram úr honum. Taka þarf tillit til þess óvanasta í hópnum og miða hraðann við hann.

Örygg­is­búnaður

Grund­vall­ar­atriði ör­ygg­is í um­gengni við hesta er kunn­átta og skiln­ing­ur á eðli þeirra og hegðun. Um­gang­ast þarf hross af þol­in­mæði og með þarf­ir þeirra í fyr­ir­rúmi. Þó svo að rétt sé staðið að öll­um atriðum í sam­skipt­um við hesta geta slys orðið. Afar mik­il­vægt er því að nota ör­ygg­is­búnað sem hannaður er til að koma í veg fyr­ir slys og til þess að verja knap­ann gegn meiðslum. Þetta á við um alla sem stunda hesta­mennsku, áhuga­menn sem og reynslu­mikið fag­fólk.

Örygg­is­búnaður

Lág­marks­ör­ygg­is­búnaður hvers hesta­manns er reiðhjálm­ur, ör­ygg­is­vesti, reiðskór, end­ur­skins­merki, hansk­ar og ör­yggis­ístöð. Þess ber að geta að list­inn er eng­an veg­inn tæm­andi yfir ör­ygg­is­búnað.

Lög um per­sónu­leg­an ör­ygg­is­búnað - CE merk­ing

Til að mega selja per­sónu­leg­an ör­ygg­is­búnað í EES lönd­um verður hann að upp­fylla ör­ygg­is­staðla. CE merkið er staðfest­ing á því að vara upp­fylli ör­ygg­is­staðal og þar með grunn­kröf­ur varðandi heilsu og ör­ygg­is­mál fyr­ir viðkom­andi vöru­flokk. Merkið skal vera sýni­legt, auðlesið og var­an­legt.

Hjálm­ur

Reiðhjálm­ur er staðal­búnaður hesta­manns í reið, en það get­ur einnig verið ástæða til að nota hjálm við aðrar aðstæður. Hverj­um hjálmi eiga að fylgja leiðbein­ing­ar um still­ing­ar og um­hirðu. Í kulda er hægt að nota sér­stak­ar húf­ur sem passa und­ir hjálm­inn. Hjálm­ur veit­ir vörn við höfuðáverk­um, en jafn­vel létt högg á höfuð geta valdið heila­hrist­ingi. Al­var­leg­ir höfuðáverk­ar geta haft var­an­leg áhrif á heilsu og líf fólks.

Still­ing­ar hjálma

Lesið not­enda­leiðbein­ing­ar. Hjálm­ur verður að passa not­anda til þess að veita vörn. Hjálm­ur sem ekki pass­ar (í flest­um til­fell­um of stór) veit­ir falskt ör­yggi. Hökuól hjálms­ins þarf að vera still­an­leg og læs­ing hans auðveld í notk­un. Hjálm­ur­inn verður að sitja vel og rétt til að veita full­komna vörn. Mis­mun­andi gerðir hjálma geta hentað mis­mun­andi höfuðlagi, hjálm­ur­inn á að vera þægi­leg­ur fyr­ir not­and­ann.

Börn og hjálmar

Það er afar mik­il­vægt að barn fái hjálm sem pass­ar því full­kom­lega á hverj­um tíma. Ekki kaupa of stór­an hjálm sem barnið vex upp í. Still­an­leg­ir barna­hjálm­ar eru vin­sæl­ir og góðir því hjálm­ur­inn þarf að sitja rétt til að veita nauðsyn­lega vörn.

Merk­ing­ar sem eiga að vera sýni­leg­ar inni í hjálmi:

 • EN 1384 er staðall fyrir reiðhjálma og á þetta merki líka að vera inni í „hattahjálmum“. Ef hjálmurinn ber merkið EN 812 þá er hann ekki hjálmur heldur eins konar „höggdeyfihúfa“ sem veitir alls ekki sömu vörn og reiðhjálmur.
 • CE merkið.
 • Texti eða mynd sem merkir að hjálmurinn sé reiðhjálmur.
 • Stærð í sentímetrum.
 • Nafn, vörumerki og annað sem einkennir framleiðandann.
 • Ár og ársfjórðungur/mánuður framleiðslu.
 • ATH! Hjálmur sem hefur orðið fyrir höggi er ekki lengur öruggur og ber að taka úr notkun umsvifalaust.

Reiðskór og reiðstíg­vél

Í um­gengni við hesta og í reið, er mik­il­vægt að nota skó sem henta um­hverf­inu jafnt sem verk­efn­inu. Sterk­ir skór með gróf­um sóla sem síður renna á hálum hest­hús­gólf­um eða í vetr­ar­hálku stuðla að auknu ör­yggi, t.d. þegar verið er að teyma hest. Á hest­baki á hins veg­ar að nota skó sem ekki hafa of gróf­an sóla. Gróf­ur sóli get­ur valdið því að knapi fest­ist í ístaðinu detti hann af baki. Mik­il­vægt er að skór hafi hæl. Hæll­inn varn­ar því að fót­ur renni fram í ístaðið og fest­ist.

Örygg­is­vesti

Í mörg­um öðrum lönd­um telj­ast ör­ygg­is­vesti til skyldu­búnaðar ungra hesta­manna (yngri en 14 ára). Örygg­is­vesti veit­ir vörn gegn áverka á baki og brjóst­kassa sem geta orðið ef knapi dett­ur af baki eða ef hest­ur hnýt­ur og knapi lend­ir und­ir hon­um. Vestið dreg­ur úr áhrif­um höggs með því að dreifa þrýst­ingn­um. Það vernd­ar til að mynda gegn áverk­um af völd­um steins sem knapi lend­ir á. Örygg­is­vesti dreg­ur úr hættu á að rif, viðbein, hryggj­arliðir, herðablöð o.s.frv. brotni við fall, og notk­un þess minnk­ar lík­ur á mænuskaða vegna falls af hest­baki.

End­ur­skins­merki

Það er nauðsyn­legt að bera end­ur­skins­merki, bæði fyr­ir knapa og hross, í ljósa­skipt­um eða myrkri, hvort sem knapi er gang­andi eða á hest­baki. Notk­un end­ur­skins­merkja trygg­ir að ak­andi veg­far­end­ur sjái um­ferð manna og hesta í myrki.

Ef knapi dett­ur af baki get­ur hann misst hest­inn frá sér og hann stefnt út í um­ferðina með ófyr­ir­sjá­an­leg­um af­leiðing­um. Þess vegna þarf hest­ur­inn líka að bera end­ur­skins­merki. Þau end­ur­skins­merki sem tal­in eru henta best fyr­ir hrossið eru end­ur­skin sem höfð eru neðarlega á fót­um þess. End­ur­skin fyr­ir knap­ann eru t.a.m. end­ur­skinsvesti og þar til gerðir lamp­ar sem fest­ir eru á vinstri kálfa. Hvítt ljós vís­ar fram og rautt ljós aft­ur. Aðrar út­færsl­ur end­ur­skins­merkja eru t.d. end­ur­skins­merki sem fest eru á ístöð, í tagl hesta, á stíg­vél og á hjálma.

Hansk­ar

Notk­un hanska til að auka gripið um taum­inn, hvort sem er þegar hest­ur er teymd­ur/​hring­teymd­ur eða þegar knapi er á hest­baki, get­ur komið í veg fyr­ir meiðsl, t.d. ef hest­ur reyn­ir að rífa sig laus­an. Í mikl­um kulda geta hend­ur kólnað og þar með minnk­ar gripið. Því er áríðandi að nota hlýja vett­linga sem henta vel til reiðmennsku.

Öryggis­ístöð

Öryggis­ístöð eru hönnuð með það í huga að koma í veg fyr­ir að knapi fest­ist í ístaði við fall af hest­baki og drag­ist á eft­ir hesti sín­um. Gætið þess að ístöðin snúi ætíð rétt.

Al­geng­ustu ör­yggis­ístöð eru eft­ir­far­andi:

 • Önnur hlið ístaðsins opnast og fóturinn losnar úr því. 
 • Ístöð með S-bogum eru algengust hér á landi. S-boginn gefur pláss fyrir fótinn til að snúast úr ístaðinu við fall af baki. Boginn sem vísar fram skal vera utanfótar.
 • Ístöð með grind að framan eru oft notuð fyrir börn til að fóturinn renni ekki fram í ístaðið.Sérstaklega er mælt með notkun slíkra ístaða fyrir börn undir 12 ára aldri.