Æfingaakstur
Við hvetjum þig til að nýta æfingaaksturstímann vel með barninu þínu. Sá tími er frábær viðbót við ökunámið og skilar án efa betri ökumönnum út í umferðina. Með vel nýttum æfingaaksturstíma hefur barn þitt meiri reynslu og færni þegar það fer að aka eitt og óstutt.
Áður en æfingaakstur hefst þarf barnið þitt að taka Ökuskóla 1 og ákveðinn fjölda tíma hjá ökukennara. Fyrsta skrefið er því að finna góðan ökukennara. Ekki þarf að tilkynna til VÍS um að æfingaakstur sé að fara fram.

Eru einhverjar kröfur á leiðbeinanda?
Leiðbeinandi þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og sækja um leyfi til leiðbeinendaþjálfunar til sýslumanns í heimabyggð þinni. Áður en lagt er af stað þarf ökukennari að votta að nemandinn hafi öðlast nægilega þekkingu á umferðarreglum og þjálfun í stjórnun ökutækis til að æfa akstur með leiðbeinanda.
Leiðbeinandi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Vera a.m.k. 24 ára.
- Hafa gild ökuréttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja sem æfa á akstur með.
- Hafa a.m.k. fimm ára reynslu af akstri ökutækja í viðkomandi flokki.
- Má ekki hafa verið án ökuskírteinis eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti á undangengnum 12 mánuðum.
- Þarf að hafa leyfisbréf fyrir þjálfunarakstri meðferðis og sýna ef lögregla krefst þess.
- Tryggja að bifreiðin sé merkt "Æfingaakstur".
- Vera viss um að bifreiðin sé í lagi, skoðuð og ábyrgðartryggð.
Við aksturinn þá er ábyrgðin leiðbeinandans
Þú sem leiðbeinandi telst lögum samkvæmt vera stjórnandi bifreiðarinnar í æfingaakstrinum. Til marks um það má geta þess að ef þú sem leiðbeinandi sinnir leiðsögn undir áhrifum áfengis sætir þú sömu viðurlögum og ef þú sætir undir stýri á bifreiðinni.
Það borgar sig að rifja upp
Leiðbeinandi þarf að kunna skil á námsefni ökunemans. Margt kann t.d. að hafa breyst í umferðarreglum og merkingum frá því ökupróf þitt var tekið. Auðveldasta leiðin til að afla sér þekkingar er að fara yfir námsefni ökunemans og kynna sér umferðarmerkingar eða fara á stutt upprifjunarnámskeið sem sumir ökuskólar halda.
En hver eru helstu atriðin í æfingaakstri?
Í fyrstu ferðum er gott að muna að ökuneminn getur verið að fara keyra bíl sem frábrugðinn bíl ökukennarans. Í upphafi ferða er nauðsynlegt að stilla spegla, sæti og höfuðpúða áður en lagt er af stað. Mörgum leiðbeinendum finnst þægilegt að hafa viðbótarspegil svo þeir geti betur fylgst með umferðinni í kring.
Eftirfarandi atriði er æskilegt að fara yfir og æfa með ökunemanum:
- Ekið af stað og numið staðar.
- Skipting og hemlun.
- Tekið af stað í brekku.
- Akstur aftur á bak.
- Lagning í stæði.
- Vinstri beygja af tvístefnuakstursgötu.
- Vinstri beygja af einstefnuakstursgötu.
- Akstur í hringtorgum.
- Akreinaskipti.
- Akstur á að- og fráreinum.
- Framúrakstur.
- Akstur í myrkri.
- Akstur í hálku.
- Akstur á malarvegi.
- Staðsetning á akbraut og breidd ökutækis.
- Hægri reglan.
- Umferðarljós.
- Umferðarmerkin.
- Hjólandi og gangandi vegfarendur.
- Forgangur strætisvagna.
- Viðhorf og forvarnir.
- Bakka með eftirvagn.
Afar mikilvægt er að þú sem leiðbeinandi sért góð fyrirmynd enda læra nýir ökumenn það sem fyrir þeim er haft. Brýna þarf fyrir ökunemanum að nota alltaf bílbeltið. Aka á löglegum hraða og sýna öðrum vegfarendum tillitssemi og virðingu í umferðinni. Ræða þarf ölvun við akstur og hættuna sem skapast af slíku athæfi.
Gefa þarf einfaldar og skýrar fyrirskipanir á rólegan og yfirvegaðan hátt. Æsingur og skammir bera ekki árangur en gera ökunemann þess í stað óöruggan sem getur haft áhrif á aksturshæfni. Eins geta farþegar verið truflandi fyrir ökunemann.
Höfum gaman
Varasamt og óæskilegt er að viðra neikvæðar skoðanir á umferðarmálum, umferðarmannvirkjum eða aksturslagi einstakra ökumanna. Ef ágreiningur er með leiðbeinanda og ökunema um einstök atriði er lúta að fræðslunni er rétt að hafa samband við ökukennarann til fá skorið úr deilumálinu. Góð þekking á umferðinni, umferðarreglum og umferðarmerkingum er forsenda þess að þjálfunin gangi vel. Illa upplýstur leiðbeinandi sem gefur rangar upplýsingar eða misvísandi er verri en enginn. Eins er gott að ræða málin eftir hvern æfingaaksturstíma þ.e. hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis og hvort eitthvað hefði betur mátt fara.