Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Æfingaakstur

Við hvetjum þig til að nýta æfingaaksturstímann vel með barninu þínu. Sá tími er frábær viðbót við öku­námið og skilar án efa betri ökumönnum út í umferðina. Með vel nýttum æfingaaksturstíma hefur barn þitt meiri reynslu og færni þegar það fer að aka eitt og óstutt.

Áður en æf­inga­akst­ur hefst þarf barnið þitt að taka Öku­skóla 1 og ákveðinn fjölda tíma hjá öku­kenn­ara. Fyrsta skrefið er því að finna góðan öku­kenn­ara. Ekki þarf að tilkynna til VÍS um að æfingaakstur sé að fara fram.

Eru einhverjar kröfur á leiðbeinanda?

Leiðbeinandi þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og sækja um leyfi til leiðbein­endaþjálf­un­ar til sýslu­manns í heima­byggð þinni. Áður en lagt er af stað þarf öku­kenn­ari að votta að nem­andinn hafi öðlast nægi­lega þekk­ingu á um­ferðarregl­um og þjálf­un í stjórn­un öku­tæk­is til að æfa akst­ur með leiðbein­anda.

Leiðbeinandi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Vera a.m.k. 24 ára.
  • Hafa gild öku­rétt­indi til að stjórna þeim flokki öku­tækja sem æfa á akst­ur með.
  • Hafa a.m.k. fimm ára reynslu af akstri ökutækja í viðkomandi flokki.
  • Má ekki hafa verið án öku­skír­tein­is eða verið refsað fyr­ir víta­verða akst­urs­hætti á und­an­gengn­um 12 mánuðum.
  • Þarf að geta sýnt fram á leyfi fyr­ir þjálf­unar­akstri ef lög­regla krefst þess.
  • Tryggja að bif­reiðin sé merkt "Æfinga­akst­ur".
  • Vera viss um að bif­reiðin sé í lagi, skoðuð og ábyrgðartryggð.

Við aksturinn þá er ábyrgðin leiðbein­and­ans

Þú sem leiðbein­andi telst lög­um sam­kvæmt vera stjórn­andi bif­reiðar­inn­ar í æfingaakstrinum. Til marks um það má geta þess að ef þú sem leiðbein­andi sinn­ir leiðsögn und­ir áhrif­um áfeng­is sæt­ir þú sömu viður­lög­um og ef þú sætir und­ir stýri á bif­reiðinni.

Það borgar sig að rifja upp

Leiðbein­andi þarf að kunna skil á náms­efni öku­nem­ans. Margt kann t.d. að hafa breyst í um­ferðarregl­um og merk­ing­um frá því ökupróf þitt var tekið. Auðveld­asta leiðin til að afla sér þekk­ing­ar er að fara yfir náms­efni öku­nem­ans og kynna sér um­ferðarmerk­ing­ar eða fara á stutt upp­rifj­un­ar­nám­skeið sem sum­ir öku­skól­ar halda. 

En hver eru helstu atriðin í æfingaakstri?

Í fyrstu ferðum er gott að muna að öku­nem­inn getur verið að fara keyra bíl sem frá­brugðinn bíl öku­kenn­ar­ans. Í upphafi ferða er nauðsynlegt að stilla spegla, sæti og höfuðpúða áður en lagt er af stað. Mörg­um leiðbein­end­um finnst þægi­legt að hafa viðbót­ar­speg­il svo þeir geti bet­ur fylgst með um­ferðinni í kring.

Eft­ir­far­andi atriði er æski­legt að fara yfir og æfa með öku­nem­an­um:

  • Ekið af stað og numið staðar.
  • Skipting og hemlun.
  • Tekið af stað í brekku.
  • Akstur aftur á bak.
  • Lagning í stæði.
  • Vinstri beygja af tvístefnuakstursgötu.
  • Vinstri beygja af einstefnuakstursgötu.
  • Akstur í hringtorgum.
  • Akreinaskipti.
  • Akstur á að- og fráreinum.
  • Framúrakstur.
  • Akstur í myrkri.
  • Akstur í hálku.
  • Akstur á malarvegi.
  • Staðsetning á akbraut og breidd ökutækis.
  • Hægri reglan.
  • Umferðarljós.
  • Umferðarmerkin.
  • Hjólandi og gangandi vegfarendur.
  • Forgangur strætisvagna.
  • Viðhorf og forvarnir.
  • Bakka með eftirvagn.

Afar mik­il­vægt er að þú sem leiðbein­andi sért góð fyr­ir­mynd enda læra nýir öku­menn það sem fyr­ir þeim er haft. Brýna þarf fyr­ir öku­nem­an­um að nota alltaf bíl­beltið. Aka á lög­leg­um hraða og sýna öðrum veg­far­end­um til­lits­semi og virðingu í um­ferðinni. Ræða þarf ölv­un við akst­ur og hætt­una sem skap­ast af slíku at­hæfi.

Gefa þarf ein­fald­ar og skýr­ar fyr­ir­skip­an­ir á ró­leg­an og yf­ir­vegaðan hátt. Æsing­ur og skamm­ir bera ekki ár­ang­ur en gera öku­nem­ann þess í stað óör­ugg­an sem get­ur haft áhrif á akst­urs­hæfni. Eins geta farþegar verið truflandi fyrir ökunemann.

Höfum gaman

Vara­samt og óæski­legt er að viðra nei­kvæðar skoðanir á um­ferðar­mál­um, um­ferðarmann­virkj­um eða akst­urslagi ein­stakra öku­manna. Ef ágrein­ing­ur er með leiðbein­anda og öku­nema um ein­stök atriði er lúta að fræðslunni er rétt að hafa sam­band við öku­kenn­ar­ann til fá skorið úr deilu­mál­inu. Góð þekk­ing á um­ferðinni, um­ferðarregl­um og um­ferðarmerk­ing­um er for­senda þess að þjálf­un­in gangi vel. Illa upp­lýst­ur leiðbein­andi sem gef­ur rang­ar upp­lýs­ing­ar eða mis­vís­andi er verri en eng­inn. Eins er gott að ræða málin eftir hvern æf­inga­akst­urs­tíma þ.e. hvort eitt­hvað hafi farið úr­skeiðis og hvort eitthvað hefði bet­ur mátt fara.