Hoppa yfir valmynd

Hvað brennur á þínu fyrirtæki?

Hilton Reykjavík Nordica 12. febrúar kl. 13-16

Forvarna­ráð­stefna VÍS 2020

Forvarnaráðstefna VÍSunderlineer haldin árlega og býður VÍS viðskiptavinum og sérfræðingum í forvörnum fyrirtækja til hennar. Fjallað er um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum. Vel valdir sérfræðingar og stjórnendur á þessu sviði deila reynslu sinni með ráðstefnugestum. Ráðstefnan var fyrst haldin árið 2010 og hefur skapað sér sess sem fjölsóttasti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. 

G.RUN hlaut Forvarna­verð­laun VÍS 2020

  • Forvarnaverðlaun VÍS voru afhent í 11 skipti á ráðstefnunni. Verðlaunin hlýtur það fyrirtæki sem þykir skara fram úr í öryggismálum og er öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd.
  • Að þessu sinni hlaut sjávarútvegsfyrirtækið G.RUN forvarnaverðlaunin. G.RUN er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í veiðum og vinnslu á bolfiski.
  • Í upphafi árs 2019 opnaði fyrirtækið nýja og vel útbúna fiskvinnslu þar sem öryggismálin voru sett í fyrsta sæti. Fiskvinnslan er ein sú tæknilegasta á landinu og er með eitt öflugasta brunavarnarkerfi sem völ er á. Að auki er fiskvinnslan útbúin tæknilegum öryggis- og forvarnabúnaði. Aðbúnaður og öryggi starfsmanna er til mikillar fyrirmyndar og endurspeglar umhyggju fyrir starfsfólkinu.
G.RUN hlaut Forvarnaverðlaun VÍS 2020

Garri fékk viður­kenn­ingu fyrir árangur í örygg­is­málum

  • Hjá Garra er mikil áskorun fólgin í því að fyrirtækið afhendir mikið magn vöru af lager á skömmum tíma.
  • Nýliða- og öryggisþjálfun er til fyrirmyndar og búið er að gera starfsumhverfi eins öruggt og best er á kosið. Umferðarreglur eru á lagergólfi, speglar á blindhornum og starfsfólk í sýnileikafatnaði.
  • Brunavarnir í húsinu eru eins og best verður kosið og húsið í heild snyrtilegt vegna þess að stjórnendur leggja ríka áherslu á góða umgengni.
Garri fékk viðurkenningu fyrir árangur í öryggismálum

McRent fékk viður­kenn­ingu fyrir árangur í örygg­is­málum

  • McRent er húsbílaleiga sem leigir bíla sína fyrst og fremst til erlendra ferðamanna. Það er mikil áskorun fólgin í því að fræða erlenda gesti um aðstæður á Íslandi, vegakerfi og veðurfar.
  • McRent er með skýra sýn á öryggismál og afhendir ekki viðskiptavinum lykla af bílnum fyrr en búið er að fara yfir hvert viðkomandi ætlar að fara, helstu mögulegar hættur sem geta orðið á leið hans þ.m.t. hættulega vindastaði.
  • Ökutæki McRent eru mjög snyrtileg og tryggt er með reglubundnu viðhaldi að þau séu eins örugg og kostur er.
McRent fékk viðurkenningu fyrir árangur í öryggismálum

Dagskrá

13:00

Setning Forvarnaráðstefnu VÍS

Helgi Bjarnason

Forstjóri VÍS

13:10

Heimsins öruggasti heimur

Bergur Ebbi

Rithöfundur

13:35

Hver ber ábyrgð á kulnun?

Elfa Þöll Grétarsdóttir

Sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala

13:55

Er öruggur vinnustaður trygging fyrir vellíðan á vinnustað?

Kristján Kristinsson

Öryggisstjóri hjá Landsvirkjun

14:15

Forvarnaverðlaun VÍS

Hafdís Hansdóttir

Framkvæmdastjóri þjónustu VÍS

14:30

Kaffihlé

14:50

Öruggir bílaleigubílar í óöruggum aðstæðum

Magnús S. Þorsteinsson

Forstjóri Blue Car Rental

15:15

Skrefi á undan ATVIKum

Gísli Nils Einarsson

Sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS

15:35

Erum við að virða leikreglur?

Jón Viðar Matthíasson

Slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

16:00

Ráðstefnulok

Fundarstjóri

Hildur Ingvarsdóttir

Skólameistari Tækniskólans

Heimsins örugg­asti heimur

Bergur Ebbi, rithöfundur og ljóðskáld

Í erindi sínu fjallar Bergur Ebbi um málefni fjórðu iðnbyltingarinnar, svo sem gervigreind, sjálfvirknivæðingu, framtíð starfa og breytt gildismat nýrra kynslóða. Hvernig verður best að hlúa að fólki í framtíðinni, bæði innan og utan vinnustaðar? Hvernig líður fólki í samfélagi þar sem sérhver frammistaða fær einkunn og umsögn? Bergur Ebbi setur tæknibreytingar í samhengi og tengir þær við aðra þætti í þjóðfélaginu og veltir upp hvort allar breytingar séu eftirsóknarverðar.

Bergur Ebbi er rithöfundur, ljóðskáld og ritgerðarsmiður, með fjölþættan bakgrunn úr heimi lista, viðskipta og blaðamennsku. Meðal umfjöllunarefna í verkum Bergs Ebba er tæknisaga og áhrif hennar á sjálfsmynd fólks, stjórnmál, valdajafnvægi, breytt heimsmynd, tíska og tíðarandi.

Heimsins öruggasti heimur

Hver ber ábyrgð á kulnun í starfi?

Elfa Þöll Grétarsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun hjá Landspítala

Rannsóknarniðurstöður rekja kulnun til þriggja orsakaþátta; a) eiginleika einstaklinga, b) tækninýjunga og c)starfsumhverfis (stjórnunarhættir, vinnustaðamenning, eðli starfs og álag).

Niðurstöður rannsókna sýna að af þessum þremur þáttum hafa eiginleikar starfsumhverfis mesta forspárgildið um tíðni kulnunar. Þrátt fyrir þessar niðurstöður er mesta áherslan í viðbrögðum gegn kulnun á vinnustað lögð á einstaklinginn. Í almennri umræðu eru einstaklingurinn, tækninýjungar og lífsgæðakapphlaup talin helstu orsakir kulnunar. Almennt er þáttur aðstæðna vanmetinn og því ekki ráðist á rót vandans.

Þessi nálgun hunsar möguleg sóknarfæri til forvarna, er samfélaginu dýr og leggur auk þess ábyrgðina á herðar þolanda í skaðlegu umhverfi.

Í erindinu verður fjallað áhrif umhverfis á vinnustöðum á heilsu og rök færð fyrir mikilvægi þess að greina aðstæður og að laga vinnustaðina, en ekki einstaklingana sem vinna þar.

Hver ber ábyrgð á kulnun í starfi?

Er öruggur vinnu­staður trygging fyrir vellíðan á vinnu­stað?

Kristján Kristinsson, öryggisstjóri hjá Landsvirkjun

Á liðnum áratug hefur mikið átak verið unnið hjá Landsvirkjun til að koma í veg fyrir slys og önnur óhöpp. Árangurinn hefur skilað sér, því slys eru mjög fátíð og alvarleg slys hafa ekki orðið í starfseminni í mörg ár.

Starfsfólk er mjög virkt í skráningum á ábendingum og atvikum í forvarnarskyni og það vinnur sem ein heild að því að viðhalda öflugri og þroskaðri öryggismenningu, þar sem markmiðið er slysalaus vinnustaður og vellíðan á vinnustað. Starfsánægja hjá Landsvirkjun hefur sjaldan mælst hærri og starfsfólk er mjög stolt af sínum vinnustað.

Á undanförnum árum hefur starfsfólk Landsvirkjunar unnið að mjög stórum framkvæmda- og viðhaldsverkefnum. Frá árinu 2014 hafa þrjár nýjar virkjanir verið gangsettar og stór viðhaldsverkefni hafa verið í eldri virkjunum. Þetta hefur valdið verulegu álagi á starfsfólk á sama tíma og miklar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað innan Landsvirkjunar, með tilheyrandi breytingum í vinnuumhverfi og stöðugum nýjungum í upplýsingatækni.

Þrátt fyrir mikla starfsánægju er töluverð aukning á langtíma fjarveru, oft í formi kulnunar eða af öðrum sálfélagslegum toga. Reynt hefur verið að greina ástæður þessarar aukningar og hvernig Landsvirkjun ætlar að bregðast við. Ljóst er að aukið álag á starfsfólk, í síbreytilegu starfsumhverfi, gerir miklar kröfur til fyrirtækja að halda vel utan um starfsfólk sitt og huga að forvörnum, sem í auknum mæli tengjast sálfélagslegum áhættuþáttum.

Er öruggur vinnustaður trygging fyrir vellíðan á vinnustað?

Öruggir bíla­leigu­bílar í óöruggum aðstæðum

Magnús S. Þorsteinsson, forstjóri Blue Car Rental

Að tryggja umferðaröryggi ferðamanna er krefjandi verkefni sem hvílir á herðum margra, þá sérstaklega bílaleigna. Þegar að óhöppin gerast er algengasta umfjöllunarefni að upplýsa þurfi ferðamenn betur.

Síðustu 10 ár hefur verið gríðarleg bylting í upplýsingagjöf til ferðamanna. Það er mikill hagur bílaleigna að tryggja öryggi viðskiptavina sinna og koma fróðleik og upplýsingum áleiðis til ferðamanna. En hver er besta leiðin til að koma þessum skilaboðum áleiðis og útskýra alvarleika málsins?

Þrátt fyrir vel upplýsta ferðamenn, öruggustu bíla landsins, ótæmandi gagnagrunn af góðu forvarnaefni og áróður við afhendingu eru slysin enn að gerast. Þau munu halda áfram að gerast á meðan að aðstæður eru óöruggar.

Öruggir bílaleigubílar í óöruggum aðstæðum

Skrefi á undan ATVIKum

Gísli Nils Einarsson, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS

Á hverju ári verða hér á landi um 5.600 vinnuslys og 2.000 slys á skólabörnum. Hvernig er hægt að vera skrefi á undan slysunum og koma í veg fyrir þau? Undanfarin ár hefur VÍS í samvinnu við fyrirtæki og sveitarfélög þróað skráningarkerfið ATVIK. Kerfið gefur yfirsýn á tíðni slysa og atvika. Slík yfirsýn stuðlar að því að hægt verði að grípa til forvarna til þess að koma í veg fyrir slys. Fjallað verður um reynslu notenda af kerfinu og hvaða nýjungar séu fram undan. Slysin gera nefnilega boð á undan sér og við getum hæglega verið skrefi á undan.

Skrefi á undan ATVIKum

Erum við að virða leik­reglur?

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

Lög og reglugerðir sem fjalla um hönnun, byggingu og rekstur mannvirkja eiga eitt sameiginlegt markmið en það er að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi. Því markmiði er m.a. náð með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit eiganda og opinberra aðila með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt á líftíma mannvirkisins.

Í lögunum er einnig fjallað um hver beri hvaða ábyrgð til að ná þessu markmiði. Ábyrgð okkar þ.e.a.s. eiganda mannvirkis, eldvarnaeftirlits slökkviliða sem opinbers aðila og tryggingafélaga er einnig mjög skýr og fellur að því að uppfylla sama markmið.

Spurningin er hvort við séum að virða leikreglurnar sem tengjast mannvirkjum frá hönnunarstigi til niðurrifs. Í raun er enginn skortur á góðum fyrirmælum og leiðsögn heldur kannski frekar á einbeittum vilji að fara eftir þeim og hættan að gleyma sér ekki í dagsins önn. Hvað segir reynslan okkur?

Erum við að virða leikreglur?