Flóð
Á hverju ári verða flóð hér á landi. Mismunandi er hvort um ræðir snjó-, sjávar- eða aurflóð. Mikilvægt er að hver og einn sé meðvitaður um um hætturnar á flóðum og leiti upplýsinga um möguleika á þeim eftir veðurfari sem verið hefur eða er spáð.

Snjóflóð
Veðurstofa Íslands fylgist með snjóflóðahættu í byggð. Á heimasíðu Veðurstofunnar má sjá upplýsingar um snjóflóðahættu og snjóflóðahættumat. Mikilvægt er að hver og einn kynni sér hvort hann sé á snjóflóðasvæði eða ekki. Ef lögreglustjóri gefur út fyrirmæli um rýmingu ber öllum að fara eftir þeim.
Heimilið
Ef ekki er hægt að yfirgefa hættusvæði er best að halda sig innandyra, þeim megin sem snýr frá fjallshlíðinni. Loka öllum hurðum, líka millihurðum og setja hlera fyrir glugga.
Viðbrögð ef lent er í snjóflóði
- Reyna að halda sér upp úr flóðinu með því að taka sundtök. Ef það er ekki hægt halda þá fyrir vit sín.
- Þegar snjóflóð stöðvast skal hreyfa sig eftir fremsta megni til að búa til rými fyrir öndun.
- Ekki kalla eftir hjálp fyrr en heyrist í björgunarfólki.
- Trú á hjálp eykur lífslíkur.
Sjávarflóð
Í miklum stormi eða stórviðri er mikilvægt fyrir þá sem búa við sjávarsíðuna að fylgjast með sjávarhæð til að geta brugðist við ef þörf krefur. Veðurstofa Íslands birtir viðvaranir um slíkar aðstæður á vef sínum.
- Huga þarf sérstaklega að bátum við bryggju og öllu lausafé á og við bryggjuna.
- Í húsnæði sem er nálægt sjó er gott að setjið tappa í öll niðurföll og hlera fyrir glugga sem snúa út að sjó.
Aurflóð og skriður
Í miklu vatnsveðri getur verið hætta á aurflóðum og skriðum úr bröttum hlíðum. Ef ekki er hægt að yfirgefa hættusvæði er best að halda sig innandyra og halda sig þeim megin sem snýr frá fjallshlíðinni. Loka öllum hurðum, líka millihurðum og setja hlera fyrir glugga.