Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Svefn og hvíld

Reglu­leg­ur svefn og hvíld er okkur lífs­nauðsyn­leg. Þótt hægt sé að stofna til skamm­tíma­skuld­ar í þess­um efn­um geng­ur það ekki til lengd­ar. At­hygl­in skerðist, lífs­gæði versna, þol­in­mæði minnk­ar, slysa­hætta eykst og and­leg líðan versn­ar svo eitt­hvað sé nefnt. En fólk þarf mis­mik­inn svefn. Börn á grunn­skóla­aldri þurfa alla jafna átta til ell­efu tíma svefn en full­orðnir sjö til níu klukku­stund­ir og stytt­ist gjarn­an eft­ir því sem fólk eld­ist.

Svefn­inn get­ur verið mis­góður og velt­ur m.a. á hug­ar­ástandi okk­ar. Hann skipt­ist í nokk­ur stig og á nótt­unni flökk­um við á milli þeirra. Svefn­inn er mis­djúp­ur á hverju stigi og mis­mun­andi hvort okk­ur dreym­ir, hversu djúpt við önd­um, hversu mik­il vöðvaspenn­an er og hversu auðvelt er að vekja okk­ur.

Tíu góð ráð til að sofa betur

  1. Hafðu reglu á svefntímanum. Reyndu að fara alltaf á sama tíma að sofa á kvöldin og á fætur á morgnanna. Jafnvel þótt þú hafir sofnað seint eða sofið lítið nóttina áður.
  2. Hreyfðu þig markvisst. Regluleg hreyfing bætir svefninn. Þó skal forðast mikla hreyfingu skemur en þremur stundum fyrir háttatíma.
  3. Borðaðu holla og fjölbreytta fæðu og hafðu reglu á máltíðum. Hungur getur truflað svefninn. Því getur létt snarl á kvöldin verið skynsamlegt en þungar máltíðir rétt fyrir svefninn óskynsamlegar.
  4. Neyttu koffeins í hófi. Ef þú átt erfitt með svefn ættir þú hvorki að drekka kaffi eftir klukkan 14.00 á daginn né neyta annarra koffeindrykkja.
  5. Dragðu úr áfengisneyslu. Áfengisdrykkja á kvöldin veldur grynnri svefni og hættu á að vakna oft.
  6. Forðastu skjánotkun og sjónvarpsáhorf klukkustund fyrir svefninn. Ekki er æskilegt að horfa á sjónvarp eða vera í síma eða tölvu alveg fram að háttatíma. Mikilvægt er að koma sér upp rólegri kvöldrútínu og gera líkama og sál tilbúin fyrir svefninn.
  7. Ekki reyna að sofna. Ef þú átt erfitt með að sofna er ekki æskilegt að liggja í rúminu tímunum saman og reyna að sofna. Það gerir vandamálið einungis verra. Farðu frekar á fætur og taktu þér eitthvað rólegt fyrir hendur í skamma stund þar til þig syfjar á ný.
  8. Notaðu rúmið eingöngu fyrir svefn. Þetta hjálpar líkama og sál að tengja rúmið og svefnherbergið við syfju, ró og svefn.
  9. Deyfðu ljósin til að skapa róandi umhverfi. Myrkur stuðlar að framleiðslu melatóníns sem hjálpar okkur að sofna. Því er æskilegt að það sé dimmt í svefnherberginu og svalt loft.
  10. Forðastu að blunda yfir daginn. Það getur verið freistandi að halla sér í smá stund yfir daginn eftir erfiða nótt. En það er ekki ráðlegt þar sem blundur getur haft neikvæð áhrif á nætursvefninn.

Eru svefnvandamál til staðar?

Ef svefnvandamál eru viðvarandi skal leita aðstoðar fagfólks. Hjá fyr­ir­tæk­inu Betri svefn er hug­ræn at­ferl­is­meðferð notuð. Unnið að því að upp­ræta þann víta­hring sem þeir sem glíma við langvar­andi svefn­leysi eru komn­ir í. Það er gert með því að breyta at­ferli og hugs­un­um sem hafa nei­kvæð áhrif á svefn. Meðferðin fel­ur m.a. í sér fræðslu um svefn, ein­stak­lings­miðaða svefn­ráðgjöf, fræðslu um góðar svefn­venj­ur, slök­un og aðstoð við að hætta svefn­lyfja­notk­un. Meðferðin hjá þeim bæt­ir svefn hjá um 90% af þeim sem ganga í gegn­um hana og stór hluti þeirra sem nota svefn­lyf nær að hætta notk­un þeirra.

Sönn saga

Við fjölskyldan vorum að keyra heim með fellihýsið eftir að hafa eytt helginni í útilegu. Leiðin var ekki löng og ég hafði ekki farið seint að sofa. Börnin sátu í aftursætinu og ég var að ræða við konuna mína. Hún fer í símann og það næsta sem ég veit er að það er flautað og um leið hrópar konan mín upp. Ég hafði dottað og þegar ég opnaði augun þá blasti strætó við mér, beint fyrir framan okkur. Sem betur fer náði ég að sveigja aftur inn á mína akrein og forða okkur frá því að lenda framan á strætó á 90 km hraða. Það er alveg merkilegt hvernig maður þarf stundum að reyna hlutina fyrst áður en maður fer að hlusta á viðvörunarbjöllurnar sem klingja en ég hafði auðvitað alveg fundið hvað ég var þreyttur.