Hoppa yfir valmynd

Staðfesting ferðatryggingar

Í ákveðnum tilvikum þarftu að staðfesta við þriðja aðila að þú sért með ferðatryggingu. Það eru helst sjúkrastofnanir sem þú leitar til erlendis vegna alvarlegs slyss eða alvarlegra veikinda sem þurfa slíka staðfestingu. Sendiráð, ferðaþjónustuaðilar og aðrir sem skipuleggja hópferðir geta einnig óskað eftir því að fá ferðatryggingar þínar staðfestar áður en ferðalag hefst.

Ef þú lendir í alvarlegu slysi eða alvarlegum veikindum erlendis sér SOS International, sími +45 70 10 50 50  um að staðfesta trygginguna þína við sjúkrastofnun hvar sem þú ert í heiminum og greiðir fyrir þá þjónustu sem þér er veitt sé málið bótaskylt.

Það er misjafnt hversu víðtækar ferðatryggingar viðskiptavinir okkar kjósa að hafa. Sumir eru einungis með ferðatryggingar kreditkorts, aðrir einungis með ferðatryggingu F plús og svo aðrir sem kjósa að hafa ferðatryggingu kreditkorts auk ferðatryggingar F plús.

Helsti kosturinn við að vera bæði með ferðatryggingu kreditkorts og ferðatryggingu F plús er sá að ef til tjóns kemur færðu greitt úr báðum tryggingum ef um er að ræða umfangsmikið tjón. Ef ferðatrygging kreditkorts bætir ekki tjón að fullu getur þú sótt í ferðatryggingu F plús. Þú getur séð hvort þú ert með ferðatryggingu F plús með því að innskrá þig og skoða yfirlit trygginga þinna.

Ferðatrygging F plús

Staðfesting á ferðatryggingu F plús vegna alvarlegs slyss eða alvarlegra veikinda

 • Ef þú ert með ferðatryggingu F plús og lendir í alvarlegu slysi eða ófyrirséðum og alvarlegum veikindum á ferðalagi erlendis þarf sú sjúkrastofnun sem þú leitar til að fá ferðatrygginguna þína staðfesta. Sjúkrastofnunin hefur samband við SOS International, sími +45 70 10 50 50 sem sér um að staðfesta ferðatryggingu þína og greiðir fyrir þá þjónustu sem þér er veitt sé málið bótaskylt. Hjá SOS International er sólarhringsvakt þar sem sérþjálfað starfsfólk getur einnig aðstoðað þig við að útvega lækni, sjúkrahúsvist og heimflutning.
 • Ef starfsfólk sjúkrastofnana erlendis kallar eftir upplýsingum um hvernig eigi að staðfesta ferðatryggingu þína getur þú sýnt þeim Information for Medical Personnel. Sumum finnst gott að prenta þetta skjal út og taka með í ferðalagið. Ef þú innskráir þig á vis.is finnur þú einnig leiðbeiningar á ensku undir „Skjöl“ sem þú getur sýnt. Þar kemur fram kennitala tryggingartaka, skírteinisnúmer og gildistími tryggingarinnar.
 • Ef um minniháttar slys eða veikindi er að ræða er yfirleitt óþarfi að hafa samband við SOS International. Í slíkum tilvikum greiðir þú sjúkrakostnað og geymir reikningana. Þú getur látið öll gögn fylgja með þegar þú tilkynnir tjónið til okkar. Sýndu Evrópska sjúkratryggingarkortið ef þú leitar til læknis sem starfar innan opinbera sjúkratryggingakerfis EES. Sjá nánar um viðbrögð við ferðatjóni.

Almenn staðfesting á ferðatryggingu F plús

 • Stundum óska sendiráð eða ferðaþjónustuaðilar eftir staðfestingu ferðatryggingar áður en ferðalag hefst. Í slíkum tilvikum er farið fram á að fá nöfn og kennitölur þeirra sem eru með ferðatryggingu.
 • Til þess að nálgast þessar upplýsingar þarftu að innskrá þig og velja „Skjöl“. Hafðu samband við okkur ef nafn barns vantar á staðfestinguna.

Gildistími ferðatrygginga F plús

 • Gildistími ferðatrygginga F plús er 92 dagar. Þú getur framlengt gildistímann samkvæmt gjaldskrá í allt að eitt ár.
 • Mikilvægt er að þú óskir eftir framlengingu á ferðatryggingum þínum áður en upprunalegur gildistími rennur út.
 • Ef þú stefnir að því að dvelja erlendis umfram gildistíma ferðatrygginga F plús án þess að flytja lögheimili þitt mælum við með því að þú kynnir þér sjúkrakostnaðartryggingu erlendis. Hafðu samband ef þú vilt sækja um framlengingu á ferðatryggingum þínum eða skoða kaup á sjúkrakostnaðartryggingu erlendis.

Ferðatryggingar kreditkorts

Staðfesting á ferðatryggingum kreditkorts vegna alvarlegs slyss eða alvarlegra veikinda

 • Ef þú ert með ferðatryggingu kreditkorts og lendir í alvarlegu slysi eða ófyrirséðum og alvarlegum veikindum á ferðalagi erlendis þarf sú sjúkrastofnun sem þú leitar til að fá ferðatrygginguna þína staðfesta. Sjúkrastofnunin hefur samband við SOS International, sími +45 70 10 50 50 sem sér um að staðfesta ferðatrygginguna og greiðir fyrir þá þjónustu sem þér er veitt sé málið bótaskylt. Hjá SOS International er sólarhringsvakt þar sem sérþjálfað starfsfólk getur einnig aðstoðað þig við að útvega lækni, sjúkrahúsvist og heimflutning.
 • Ef starfsfólk sjúkrastofnana erlendis kallar eftir upplýsingum um hvernig eigi að staðfesta ferðatryggingu þína getur þú sýnt þeim Information for Medical Personnel. Sumum finnst gott að prenta þetta skjal út og taka með í ferðalagið.
 • Ef um minniháttar slys eða veikindi er að ræða er yfirleitt óþarfi að hafa samband við SOS International. Í slíkum tilvikum greiðir þú sjúkrakostnað og geymir reikningana. Þú getur látið öll gögn fylgja með þegar þú tilkynnir tjónið til okkar. Sýndu Evrópska sjúkratryggingarkortið ef þú leitar til læknis sem starfar innan opinbera sjúkratryggingakerfis EES. Sjá nánar um viðbrögð við ferðatjóni.

Almenn staðfesting á ferðatryggingum kreditkorts

 • Stundum óska sendiráð eða ferðaþjónustuaðilar eftir staðfestingu á ferðatryggingum áður en ferðalag hefst. Í slíkum tilvikum er farið fram á að fá nöfn og kennitölur þeirra sem eru með ferðatryggingu. Hafðu samband við okkur í síma 560 5000 ef þig vantar þannig staðfestingu.

Gildistími ferðatrygginga kreditkorts

 • Gildistími ferðatrygginga kreditkorts er 60 dagar eða 90 dagar og fer eftir tegund korts. Sjá yfirlit yfir kort Íslandsbanka og kort Sparisjóðsins.
 • Ekki er hægt að óska eftir framlengingu á ferðatryggingar kreditkorta.
 • Ef þú stefnir að því að dvelja erlendis umfram gildistíma ferðatrygginga kreditkorts án þess að flytja lögheimili þitt mælum við með því að þú kynnir þér sjúkrakostnaðartryggingu erlendis. Hafðu samband ef þú vilt skoða kaup á sjúkrakostnaðartryggingu erlendis.

SOS International

+45 70 10 50 50

,