Öruggur bíll
Reynslan sýnir okkur að því miður verða mörg slys og tjón í umferðinni á hverjum degi. Mörg þessara slysa verða vegna atriða sem er tiltölulega auðvelt að laga. Hér á eftir eru nokkur þeirra. Það væri frábært ef við öll hefðum þau að leiðarljósi með það að markmiði að koma í veg fyrir þessi slys.

Dekkin verða að vera góð
Góð dekk gefa bílnum meiri stöðugleika og eru einn af mikilvægustu öryggisþáttum hans. Mismunandi reglur gilda um dekk eftir árstíðum. Á sumrin á mynstur dekkjanna að vera a.m.k. 1,6 mm að dýpt en að lágmarki 3 mm á veturna þ.e. frá 1. nóvember til 14. apríl. Þessi dýpt verður að vera til staðar í öllu mynstrinu en ekki bara hluta þess. Eins eiga dekk ekki að vera miseydd og verða öll fjögur að vera sömu gerðar ef þyngd bíls er 3.500 kg eða minna.
Loftþrýstingur þarf að vera réttur
Dekkin eru eini snertiflötur bílsins við veginn. Loftþrýstingur dekkja þarf að vera réttur til að þau virki sem best. Upplýsingar um hann er yfirleitt hægt að finna í hurðarfalsi bílstjóramegin eða í handbók. Réttur loftþrýstingur í dekkjum minnkar líka eldsneytiseyðslu bílsins.
Vetrarfærð er hættuleg á sumardekkjum
Þegar hitastig fer undir 7°C þá harðna sumarhjólbarðar, verða eins og plast og geta virkað eins og skautar. Réttir hjólbarðar eftir árstíð eru því gríðarlegt öryggisatriði. Hver og einn verður að velja hjólbarða eftir þeim aðstæðum sem bíllinn er notaður við: Grófkornadekk, loftbóludekk, negld dekk eða jafnvel heilsársdekk. Neglda hjólbarða og keðjur má hins vegar ekki nota á tímabilinu 15. apríl til og með 31. október, nema þess sé þörf vegna sérstakra akstursaðstæðna. Sekt við því er 20.000 kr. á dekk.
Sérðu örugglega hvert þú ert að fara?
Mikilvægt er að bílrúður séu ávallt hreinar, rúðublöð heil og nægur rúðuvökvi til staðar. Það segir sig sjálft að það dregur úr umferðaröryggi ef ekki sést vel út um rúður bílsins. Algengt er að bílstjórar blindist af sólinni, sérstaklega þegar hún er lágt á lofti og rúður skítugar. Á veturna tekur fólk stundum áhættuna og skafar ekki rúðurnar á bílnum nægjanlega vel. Það býður hættunni heim fyrir sjálfan ökumanninn og aðra í umferðinni.
Rúðan verður að vera heil og óskemmd
Sprungur í rúðu geta truflað ökumann en slíkar skemmdir verða til dæmis ef steinn kastast í rúðuna. Ef slík skemmd verður í sjónlínu ökumanns þarf að skipta um rúðuna en ef hún myndast annars staðar í rúðunni er hægt að gera við hana svo lengi sem hún er ekki stærri en 100 kr. peningur. Þá er hægt að setja þar til gerðan límmiða yfir skemmdina og láta gera við rúðuna og sleppa þannig við þann kostnað sem fylgir því að skipta alveg um rúðu. Hægt er að nálgast límmiðann á öllum skrifstofum VÍS eða fá hann sendan heim.
Ljósin
Kveikt verður að vera á dagljósabúnaði allan ársins hring, bæði að framan og aftan. Ef stilling dagljósabúnaðar er þannig að slökkt er á afturljósum þegar bjart er þarf að hafa ökuljósin kveikt á daginn. Á veturna þarf að gæta þess að hreinsa snjó af öllum ljósum. Nánari upplýsingar um ljósabúnað má sjá í fræðslumynd Samgöngustofu.
Höfuðpúði
Rétt stilltur höfuðpúði getur komið í veg fyrir háls- og bakáverka, sérstaklega við aftanákeyrslu. Púðinn er rétt stilltur þegar hvirfill höfuðs nemur við efri brún höfuðpúðans og bil á milli púða og höfuðs er ekki meira en tveir til þrír sentimetrar.
Farangur getur kastast til og valdið meira tjóni
Við árekstur á 50 km hraða getur þyngd hlutar tuttugu og fimmfaldast vegna þeirra krafta sem áreksturinn leysir úr læðingi. Taska sem er 10 kg að þyngd getur orðið 250 kg þegar hún kastast til við árekstur á þeim hraða. Þess vegna er svo mikilvægt að ganga þannig frá farangri í bíl að hann kastist ekki til ef eitthvað kemur upp á.
Dýr þurfa að vera jafn örugg og mannfólkið
Við viljum að bestu vinirnir séu jafn öruggir og við sjálf. Bílbelti fyrir hunda fást í nokkrum stærðum. Eins er hægt að vera með búr dýranna í bílnum og búrið þá fest niður með öryggisbelti búrsins eða á annan hátt. Síðan er hægt að vera með öryggisnet eða grind á milli aftursætis bílsins og farangursrýmis. Þessar vörur er m.a. að finna í búðum sem selja búnað fyrir gæludýr.
Eftirvagnar kalla á sérstaka aðgát
Eftirvagnar eru kærkomin viðbót á ferðalögum en geta valdið alvarlegum slysum ef ekki er rétt með þá farið. Í skráningarskírteini bílsins er að finna upplýsingar um hversu þungan eftirvagn bíllinn má draga. Ekki má draga þyngri eftirvagn en þar er tiltekið. Gæta þarf þess að talan á við heildarþyngd, með farangri þannig að ekki má hlaða hverju sem er í vagninn. Ef settur er búnaður í eftirvagninn þarf að gæta þess að setja hann í miðjuna en ekki allan fremst eða aftast. Það hefur áhrif á stöðugleika sér í lagi þegar ekið er niður brekkur. Ef vagninn byrgir baksýn ökumanns þarf að setja auka hliðarspegla á bílinn.
Öryggisvír mikilvægur
Ef hemla þarf snögglega getur bremsulaus eftirvagn valdið stórtjóni. Þeir vagnar sem eru 750 kg eða meira eiga að hafa eigin hemlabúnað. Ökumaður á bíl með ABS hemlum sem dregur vagn sem er ekki með þannig hemla, þarf að gæta þess að við nauðhemlun getur eftirvagninn jafnvel lagst fram með bílnum með tilheyrandi slysahættu. Mikilvægt er að tengja öryggisvír vagns við bílinn og það hefur sýnt sig að það borgar sig að festa hann í þar til gert auga en ekki einungis utan um krókinn þar sem dæmi eru um að krókur hefur dottið aftan úr bílum.
Innbrot
Alltaf er eitthvað um innbrot í bíla. Til að forðast þau þarf augljóslega að læsa bílnum en einnig er skynsamlegt að skilja aldrei eftir verðmæta hluti í honum. Hlutir eins og leiðsögutæki, sími, sólgleraugu og töskur freista þjófa. Loks má nefna að ef stolið er úr ólæstum eða opnum bíl er lítil sem engin von til þess að fá tjónið bætt.