Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Veiði

Skot- og stangveiði hef­ur í för með sér góða úti­vist, hreyf­ingu og teng­ingu við nátt­úr­una. Veiðin er þó ekki hættu­laus, sama hvort um ræðir meðhöndl­un á skot­vopn­inu sjálfu, veru út í vatni eða ferðamennsk­unni í kring­um sportið. All­ir þurfa því að huga að sínu ör­yggi og sinna sam­ferðamanna.

Öryggi og skot­vopn

 • Til að öðlast skotvopnaleyfi þarf að vera orðinn 20 ára og taka nám­skeið hjá Umhverfisstofnun.
 • Geymið byssuna aldrei hlaðna.
 • Geymið byssu og skot aðskilið í læstum skápum.
 • Hafið öryggið ávallt á þegar gengið er um með hlaðna byssu og afhlaðið hana þegar farið er yfir erfið svæði eins og klifra upp kletta.
 • Farið ekki í skotveiði einsömul nema að hafa gert sértækar ráðstafanir.
 • Notið áberandi fatnað í þeim tilfellum þar sem það fælir ekki bráðina.
 • Farið eftir al­menn­um ferðaregl­um.

Stangveiði

Sum­arið er tími stang­veiðimanna. Fjöldi skráðra og óskráðra veiðistaða á land­inu er ótelj­andi og fjöldi þeirra sem taka í stöng á hverju ári mik­ill. Því miður eru slys ekki óþekkt í þessu sporti. Allt frá smá­vægi­leg­um óhöpp­um upp í mjög al­var­lega slys, jafn­vel bana­slys. Til að veiðiferðin verði ánægju­leg og all­ir komi heil­ir heim er nauðsyn­legt að hafa ör­yggið að leiðarljósi.

Aðstæður

Gott er að gefa sér góðan tíma til að skoða aðstæður þegar komið er á áfangastað, bæði veiðistaðina sjálfa sem og um­hverfi þeirra. Dýpt, straum­ar og gerð botns er mik­il­vægt að horfa eft­ir ásamt því hvort ein­hverj­ar aðstæður eru með þeim hætti í kring að gott sé að fara þar með gát. Það get­ur verið ein­falt eins og grasi­vax­in brekka í rign­ingu eða hálir stein­ar.

Örygg­is­búnaður

Veiðimaður get­ur notað ýms­an búnað sem get­ur komið í veg fyr­ir slys. Má þar nefna:

 • Höfuðfat með barði sem getur komið í veg fyrir að öngull endi í höfðinu þegar verið er að kasta.
 • Gleraugu, með lokun til hliðanna, eru sérstaklega mikilvæg þar sem þau geta komið í veg fyrir að öngull endi í auga. Eins eykur polaroid gler sýnileika ofan í vatnið og getur minnkað líkur á viðkomandi sundli er horft er ofan í vatn í straumi.
 • Belti á vöðlum hafa bjargað lífi fólks. Ef einstaklingur í vöðlum án beltis dettur geta vöðlurnar fyllst af vatni og dregið viðkomandi niður. Eða virkað eins og blaðra og snúið viðkomandi við þannig að höfuð fari ofan í vatnið og fætur upp í loft. Bæði aðstæður sem erfitt getur verið að bjarga sér úr.
 • Vaðstafur hjálpar til að kanna botninn og auka stöðugleikann þegar verið er að vaða. Margir hafa þá sýn að best sé að vaða sem minnst þar sem það fæli fiskana svo mikið í burtu.
 • Flotvesti eru sérstaklega mikilvæg ef verið er að veiða út í straumþungum ám. Nokkrar tegundir eru til af þeim og eru þau mörg hver mjög nett og með vösum líkt og veiðivesti.
 • Flugnanet, sólarvörn og ennisljós er gott að hafa með í veiðitöskunni til að grípa í ef þarf. Mikill mývargur getur eyðilagt veiðina ef netið gleymist. Eins getur kvöldið og næsti dagur á eftir orðið erfiður ef sólarvörnin hefur gleymst í skápnum heima.
 • Góður fatnaður í mörgum lögum og vel vatns- og vindheld skel er nauðsynlegur.
 • Fullhlaðinn farsími ásamt auka hleðslu. Ef verið er að veiða uppi á hálendi er áttaviti, gps og flauta góður búnaður. Hann getur til að mynda verið þarfaþing ef þoka villir sýn. 

Hegðun

Gæta þarf vel að þeim sem eru í kring þegar kastað er. Öng­ull í kinn er ekki þægi­leg­ur. Sér­stak­lega þarf að gæta að köst­um þegar fluga er notuð í vindi. Vind­ur­inn get­ur leitt flug­una af þeirri leið sem henni er ætluð.

Í hita leiks­ins get­ur verið auðvelt að gleyma því að borða og drekka. Ekki gott að upp­götva það er öll orka tæm­ist skyndi­lega og þá á jafn­vel eft­ir að koma sér til baka í svefnstað. Best er að næra sig jafnt og þétt yfir dag­inn. Hafa heita drykki meðferðis, sér­stak­lega ef kalt er í veðri og orku­rík stykki til að halda uppi orku.