Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Á hjóli

Alltaf er gott og heilbrigt að skilja bílinn eftir og fara um gangandi eða nýta sér t.d. reiðhjól, hlaupahjól, bretti eða hvað annað sem í boði er.

Mikilvægt er að nota hjálm og stilla hann rétt.

Hjól­reiðar

Reiðhjól er góður og heil­brigður ferðamáti. Örugg­ast er að hjól­reiðamenn noti stíga þar sem þeir eru til staðar en al­var­leg­ustu hjól­reiðaslys­in verða þar sem vél­knú­in öku­tæki koma til sög­unn­ar.

Hjálm­ur

Sam­kvæmt er­lendri slysa­töl­fræði eru 75% bana­slysa hjá hjól­reiðafólki vegna höfuðáverka. Hjálm­ur er því mik­il­væg­ur hjól­reiðafólki, sama á hvaða aldri þeir eru. Reiðhjóla­hjálm­ur veit­ir vörn og dreg­ur úr lík­um á al­var­leg­um höfuðáverk­um við slys. Rann­sókn­ir sýna að hjálm­ur minnk­ar lík­ur á höfuðáverk­um um 69%. Ef skoðaðir eru al­var­leg­ir höfuðáverk­ar, þá er talið að hjálm­ur geti komið í veg fyr­ir 79% þeirra. Til að hjálm­ur veiti fulla vörn þarf hann að vera heill, af réttri stærð og sitja rétt á höfði viðkom­andi. Eyrað sé í miðju V form­inu og einn til tveir fing­ur kom­ist und­ir höku­bandið. Ef hjálmur er brotinn eða laskaður af einhverjum hluta skal skipta honum út fyrir nýjan og heilan hjálm.

Hjólið má ekki klikka

Meiri­hluti þeirra sem fara um á hjól­i nota þau aðallega þegar færð er góð en ekki í snjó og hálku. Þeir sem hjóla all­an árs­ins hring fer hins­veg­ar fjölg­andi og eru góð vetrardekk nauðsynleg við þær aðstæður. Huga þarf að ástandi hjóls­ins eins og annarra far­ar­tækja og má þar nefna brems­ur, keðju­hlíf, gír­a og dekk. Eins skiptir gerð hjóls máli allt eftir því hvernig hjólreiðar á að stunda.

Hjólað um fjöll og firnindi

Það eru margir búnir að átta sig á því hvað mikið frelsi felst í því að nota hjól sem ferðamáta. Hægt að fara t.d. um hálendið og upp á fjöll svo fremri sem stígar eða troðningar eru til staðar en aldrei má hjóla á ósnortnu landi og skilja eftir sig för. Innanbæjar eru stígar málið þar sem þeir eru en ef hjólað er á götunni er gríðarlega mikilvægt að huga vel að sýnileika sínum og halda sig hægra megin á götunni.

Sýni­leiki hjól­reiðamanna

Mik­il­vægt er að hjól­reiðamenn velji fatnað sem er áber­andi í um­ferðinni eða noti vesti í skær­um lit til að tryggja að þeir séu sýni­leg­ir í um­ferðinni. Hjólið sjálft á síðan að hafa gul glitaugu á dekkj­um, hvítt glitauga að fram­an og rautt að aft­an. Þegar farið er að skyggja þarf síðan að bæta við ljósum, bæði að fram­an og aft­an. 

Hjóla­bretti

Nokkr­ar teg­und­ir eru til af hjóla­brett­um og dekkj­um sem eru und­ir þeim. Allt eft­ir því til hvers á að nota þau eins og reil, fun­box, ramp, Freestyle eða hraða. Mik­il­vægt er að velja bretti sem hæf­ir því sem nota á það í og þeim sem á að nota það m.t.t. ald­urs, þroska og getu.

Nokk­ur ör­yggis­atriði:

  • Nota hjálm og stilla hann rétt.
  • Nota hlífar á hné, úlnlið og olnboga.
  • Fara reglulega yfir dekk og legur og þrífa. Skipa út ef orðið er lélegt eða miseytt.
  • Skipta út sandpappírsplötu ef er orðin slitin.
  • Nota stama skó.
  • Vera á svæðum fjarri akandi umferð. 
  • Læra að detta. Beygja sig niður og rúlla frekar en að bera hendur fyrir sig. 

Hlaupa­hjól án rafmagns

Börn byrja oft snemma að nota hlaupa­hjól. Þá kom­ast þau hraðar yfir og verða ekki eins fljótt þreytt. Af og til verða slys þar sem börn fá högg á kvið eða and­lit þar sem þau detta á hand­fangið. Mik­il­vægt er því að huga að ör­yggis­atriðum. 

Nokk­ur ör­yggis­atriði :

  • Nota hjálm og stilla hann rétt.
  • Nota hlífar á hné, úlnlið og olnboga.
  • Hafa handfangið stillt í olnbogahæð. Ef það er hærra eða lægra eru meiri líkur á að dottið sé á það.
  • Stór og mjúk dekk auka stöðugleika og minnka líkur á því að misfellur eða litlir steinar hafi áhrif á hann.
  • Ekki vera þar sem sandur er. Hann getur skemmt legur og eykur líkur á að dottið sé. 

Rafmagnshlaupahjól

Sam­kvæmt um­ferðarlög­um er ekk­ert ald­urstak­mark á raf­magns­hlaupa­hjól­um. Þó er mjög mik­il­vægt að fara eft­ir viðmiðum og leiðbein­ing­um frá fram­leiðanda. Þar get­ur ald­urstak­mark verið mis­mun­andi eft­ir há­marks­hraða hjóls, t.d. átta ár ef há­marks­hraði er 12 km/​klst. 14, 16 eða 18 ára ef há­marks­hraði 25 km/​klst. eða ald­urstak­mark út frá hæð not­anda. Ekki er víst að all­ir for­eldr­ar átti sig á þess­um viðmiðum þar sem sjá má krakk­ar allt niður í átta ára, á hjól­um með há­marks­hraða 25 km/​klst og jafnvel á hjólum sem búið er að stilla þannig að þau komast mun hraðar.

Há­marks­hraði hlaupa­hjóla

Há­marks­hraði raf­magns­hlaupa­hjóla er mis­mun­andi eft­ir teg­und­um en há­marks­hraði get­ur verið frá sex km/​klst. Hér á landi er leyfi­legt að vera á hjóli sem kemst allt að 25 km/​klst. en ef hjólið fer hraðar verður það að vera skrán­ing­ar­skylt, á núm­eri, tryggt, með stefnu­ljós og þess hátt­ar. Mik­il­vægt er að for­eldr­ar séu meðvitaðir um að til eru öpp þar sem hægt er að hækka há­marks­hraða um­fram 25 km/​klst. eða fjarlægja innsigli sem eykur hraðann. Aldrei má gleym­ast að eft­ir því sem hraðar er farið, þeim mun meiri hætta er á að al­var­leg­um áverk­um ef slys verður. Trygg­ing­ar bæta ekki á slys þar sem hraði var meiri en 25 km/​klst.

Mik­il­vægt að hafa fulla at­hygli

Á raf­magns­hlaupa­hjóli á að vera á stíg­um og gang­stétt­um en ekki göt­unni. Þar ber að víkja fyr­ir gang­andi, halda sig hægra meg­in og láta vita af sér með léttri hring­ingu á bjöllu. Gera þarf ráð fyr­ir því að aðrir í um­hverf­inu sjái mann ekki og geri ekki endi­lega það sem maður á von á. Í þeim aðstæðum er mik­il­vægt að hafa fulla at­hygli og vera á hæfi­leg­um hraða.

Not­um hjálm­inn

All­ir ættu að hafa hjálm á hjól­inu. Hjálm­urinn þarf að vera í lagi og rétt stillt­ur. Ann­ars veit­ir hann falska vörn.

Stýrið rétt stillt

Fram­leiðend­ur eru með leiðbein­ing­ar meðal ann­ars um um­gengni, still­ing­ar, hleðslu, ör­ygg­is­búnað, notk­un og viðhald. Mik­il­vægt er að fara yfir leiðbein­ing­ar áður en byrjað er að nota hjólið til þess að auka ör­yggi sitt og líf­tíma hjóls. Til að mynda má sjá mörg börn með stýri hlaupa­hjóls­ins alltof hátt stillt sem dreg­ur úr stjórn þeirra á hjól­inu og eyk­ur lík­ur á að stýrið fari í and­lit, háls og brjóst­kassa ef þau detta.

Er hjólið tryggt?

Þjófnaður og slys á raf­magns­hlaupa­hjóli er tryggt í gegn­um F plús 2, 3 og 4 svo frem­ur sem hjólið fari ekki hraðar en 25 km/​klst. Inn­búska­skó tek­ur síðan á tjón­um sem verða á hjól­inu sjálfu.

Línu­skaut­ar

Mik­il­vægt er að for­eldr­ar fylgi börn­um sín­um vel eft­ir meðan þau eru að ná færni á línu­skaut­um. Þau þurfa að vera kom­in með gott jafn­vægi og ná að stoppa áður en sleppt er af þeim hend­inni.

Nokk­ur ör­yggis­atriði:

  • Nota hjálm og stilla hann rétt.
  • Nota hlífar á hné, úlnlið og olnboga
  • Bleyta og sandur á stígum getur aukið líkur á að einstaklingur missir jafnvægi ásamt því að sandur getur farið illa með legur í hjólum.