Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Eftirvagnar

Á sumrin eru margir eftirvagnar í eftirdragi.

Hvað þarf að spá með bílinn?
 • Hversu þungan eftirvagn bíllinn má draga má sjá í skráningarskírteini.
 • Ökumaður hafi réttindi til að draga eftirvagninn. Þeir sem eru með bílpróf tekið eftir 15. ágúst 1997 hafa B réttindi en þá má heildarþyngd bíls og vagns ekki vera meiri en 3.500 kg.
 • Ekki hlaða eftirvagninn svo mikið að hann fari yfir hámarksþyngdina sem bíllinn má draga.
 • Setja dót sem er þungt fyrir miðju í vagninn en ekki allt aftast eða fremst. Þá eru meiri líkur á að vagninn rási sér í lagi þegar keyrt er niður brekkur.
 • Ef eftirvagn byrgir baksýn ökumanns setja upp myndavél eða hliðarspegla á bílinn.
 • Hámarkshraði bíls með skráðan eftirvagn er 90 km/klst.
En hvað með eftirvagninn?
 • Ganga vel frá tengibúnaði eftirvagns við bílinn.
 • Ef bremsuvír er til staðar festa hann við augað við hliðina á króknum annars setja öryggisvírinn þar.
 • Breidd hans má ekki vera meira en 30 sm út fyrir hvora hlið bifreiðar.
 • Láta skoða vagninn.
 • Vera viss um að ljósin séu öll í lagi.
 • Fara yfir hjólabúnað á vorin með því að tjakka vagninn upp taka á dekkinu.
 • Fara yfir dekk og loftþrýsting þeirra. Ekki er mælt með að nota eldri dekk en 10 ára.
 • Nota þjófavarnabúnað á vagninn svo ekki sé hægt að draga hann burt.
 • Eftirvagnar með heildarþyngd yfir 750 kg eiga að vera búnir hemlum.
 • Ef nauðhemlað er á bíl með ABS hemla sem dregur eftirvagn sem ekki er með þá hemla er hætta á að vagninn fari ekki sömu leið og bíllinn heldur getur eftirvagninn jafnvel lagst meðfram bílnum.
 • Þennan gátlista er gott að styðjast við þegar sumarið er undirbúið.
Eldvarnir
 • Eldvarnir eru nauðsynlegar í eftirvögnum sér í lagi þar sem fastar gaslagnir eru.
 • Slökkvitæki, eldvarnarteppi, reykskynjari og gasskynjari (ef hann er) þarf að vera til staðar. Allt er þetta búnaður sem þarf að yfirfara og tryggja að sé í lagi m.a. út frá líftíma.
 • Fylgjast reglulega með gaslögnum og tengingum í vagninum þar sem stöðug hreyfing er í akstri. Láta fagmann yfirfara lagnir og tengi á fimm ára fresti og skipta út eftir þörfum.
 • Staðsetja sig ekki of nærri næsta aðila á tjaldsvæðinu til að minnka líkur á að eldur berist á milli ef kviknar í.
Eftirvagnar og vindur
 • Eftirvagnar taka á sig mikinn vind og haga þarf akstri í samræmi við það.
 • Kynna sér veðurspá og vindafar áður en lagt er af stað.
 • Ef vindhviður fara í 15 til 25 m/s þá getur vindur haft mikil áhrif á akstur og mikilvægt að endurskoða ferðaplan.
 • Ef það er ekki mögulegt skal draga úr hraða. Ef hvessir enn frekar ber skilyrðislaust að stoppa og leggja upp í vindinn.
 • Vindafar má m.a. sjá á vegagerdin.is, vedur.is og blika.is.