Vetrarsport
Til að stuðla að heilbrigði er regluleg hreyfing nauðsynleg og er úr nægu að velja. Vinsældir vetrarsports er sífellt að aukast og partur af tilverunni hjá mörgum yfir vetrartímann er að skella sér á svigskíði, gönguskíði og skauta.

Skautar
Eingöngu er hægt að skauta á vötnum og tjörnum þegar frostakaflar hafa verið í einhverja daga á veturna. Í Reykjavík og á Akureyri er aftur á móti hægt að skauta nær allan ársins hring á skautasvellum sem eru innan dyra.
Búnaður
Skautar, hlýr fatnaður, hjálmur og vettlingar eru nauðsynlegur búnaður á skautum. Gott er að nota hné-, olnboga- og úlnliðshlífar sérstaklega fyrir byrjendur. Forðast skal að vera með langa trefla og hangandi reimar vegna hættu á að krækja þær í eitthvað. Gott er að velja skauta sem halda vel við ökkla og mikilvægt að reima þá þétt að fæti.
Skautað úti
Um 10 sm þykkur ís verður að vera til að óhætt sé að skauta án þess að eiga hættu á að ísinn gefi sig. Ávallt verður að muna að ís getur verið misþykkur og því þarf að skoða hann á fleiri en einum stað.
Ef fallið er ofan í vök þarf að gæta þess að þeir sem eru að bjarga komi ekki of nærri vökinni þar sem hætta er á að ísinn gefi sig undan þeim. Best er að leggjast flatur niður á ísinn til að dreifa þunganum og hendi trefli eða einhverju öðru til þess sem fallið hefur í vökina svo hægt sé að draga hann upp.
Snjóþotur
Velja þarf brekku þar sem engir steinar eða annað standa upp úr snjónum og nægt rými er til að stöðva fyrir neðan brekkuna. Ekki má renna sér þar sem bílaumferð er.
Búnaður
Snjóþota eða annað til að renna sér á, hlýr fatnaður, hjálmur og vettlingar eru nauðsynlegur búnaður. Forðast skal að vera með langa trefla og hangandi reimar vegna hættu á að krækja þær í eitthvað.
Skíði og snjóbretti
Skíðaiðkun hefur aukist mikið síðustu ár hér á landi. Skíðasvæði landsins eru 11 og getur verið mjög mismunandi út frá veðri og aðstæðum hvert þeirra er opið á veturna.
Skíðahjálmur
Ekki er skylda að nota skíðahjálm á skíðasvæðum hér á landi eins og er víða erlendis. Höfuðmeiðsl eru í meira en 50% tilfella aðalskýring dauðsfalla og alvarlegra slysa sem leiða til varanlegrar fötlunar á skíðasvæðum. Hjálmurinn ver mikilvægasta líffæri hvers og eins og rannsóknir sýna að hann hefur ótvírætt forvarnargildi. Notkun rétt stillts skíðahjálms minnkar líkur á höfuðáverka um allt að 45%. Allir ættu því að nota skíðahjálm, fullorðnir sem og börn. Jafnframt veitir hjálmurinn góða vörn gegn kulda.
Bakbrynja
Högg á hrygg og bak verða oft mikil þegar dottið er á skíðum. Bakbrynja ver bakið fyrir höggum og getur komið í veg fyrir alvarlega bakáverka og ávallt eru fleiri og fleiri sem nota brynju sem fastan búnað þegar farið er á skíði. Brynjur er hægt að fá í flestum verslunum sem selja skíðabúnað og verð þeirra ekki mikið miðað við kostnað þess að hljóta alvarlegan bakáverka.
Skór
Gott er að vera í skíða- og brettaskóm sem halda vel við ökkla þar sem slíkir skór minnka líkur á áverka á ökklann. Til að minnka líkur á áverka á hné er gott að temja sér að læsa þeim ekki heldur halda þeim ávallt mjúkum. Jafnframt er mikilvægt að gera sér grein fyrir annmörkum sínum og læra að detta rétt sem er út á hlið en ekki beint aftur eða fram og bera ekki fyrir sig hendi heldur að bera fyrir sig olnbogann
Rétt hegðun í skíðabrekkum
Til að koma í veg fyrir slys í skíðabrekkum er mikilvægt að temja sér rétta hegðun. Alþjóðaskíðasambandið hefur gefið út eftirfarandi reglur um hegðun og framkomu skíðamanna.
- Tillitsemi. Skíða- eða snjóbrettamaður skal hegða sér á þann hátt að hann stofni ekki öðrum í hættu, valdi óþægindum eða skaða.
- Stjórn á hraða. Skíða- eða snjóbrettamaður skal ávallt hafa fullt vald á hraðanum. Hann skal ekki fara hraðar en geta hans leyfir og aðstæður hverju sinni, svo sem veður, færi og fjöldi í brekkunum.
- Að velja sér leið. Sá sem kemur niður brekku eða aftan að öðrum skíða-eða snjóbrettamönnum skal velja sér leið þannig að hann stofni ekki þeim sem fyrir framan eru í hættu.
- Framúrtaka. Fara má framúr eða framhjá öðrum skíða- eða snjóbrettamanni fyrir ofan hann eða neðan, hægra eða vinstra megin, að því tilskildu að sá sem farið er framúr eða framhjá hafi allt það svigrúm sem hann þarf.
- Að fara inn í eða vera á merktri braut. Sá sem fer inn í merkta braut eða leggur aftur af stað eftir að hafa stansað eða sveigt upp á við skal líta vel í kringum sig og ganga úr skugga um að hann stofni hvorki sjálfum sér né öðrum í hættu.
- Stöðvað í brekku. Skíða- eða snjóbrettamaður skal ekki stansa þar sem braut er þröng eða útsýni takmarkað nema brýna nauðsyn beri til. Ef hann fellur skal hann færa sig úr brautinni eins fljótt og hann getur.
- Gengið upp eða niður brekku. Skíða- eða snjóbrettamenn sem fara fótgangandi upp eða niður brekku skulu ganga í jaðrinum á merktum brautum.
- Leiðbeiningar á skiltum. Skíða- eða snjóbrettamenn skulu fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum á skiltum sem hafa verið sett upp í brekkunum.
- Aðstoð. Ef slys ber að höndum skulu allir veita þá aðstoð sem þeir geta.
- Að gefa sig fram eftir slys. Allir skíða- eða snjóbrettamenn sem verða vitni að eða lenda í slysi skulu gefa sig fram, án tillits til þess hvort þeir bera ábyrgð á slysinu eða ekki.