Börn
Börn lenda oft í tilviljanakenndum óhöppum og slasa sig þegar þau reyna á hæfni sína. Hlutverk fullorðinna er að tryggja að umhverfi barnanna sé öruggt. Margt er hægt að gera til að vernda barnið og skulu allar þær forvarnir vera í takt við aldur og umhverfi barnsins.
Gagnlegt er að fara yfir heimilið með gátlista til að átta sig á því eftir hverju á að horfa og hvar hætturnar geta verið.
Almennar upplýsingar
- Byrjið strax í upphafi að nota beisli á barnið í vagni, matarstólnum og innkaupakerru.
- Ekki er mælt með að birgja alveg opið á barnavagninum, t.d. með teppi eða fatnaði, þar sem það getur skert loftgæði barnsins.
- Notið ávallt flugnanet á vagn og kerru barnsins. Bæði til að koma í veg fyrir flugnabit og til að fyrirbyggja að kettir fari ofan í vagninn.
- Ef húsdýr eru á heimilinu leyfið þeim ekki að vera ofan í barninu fyrstu mánuðina. Kennið síðan barninu að umgangast dýrið þegar það hefur aldur til.
- Fjarlægið reimar úr fatnaði og tryggið að tölur og annað slíkt sé vel fest.
- Ef börn eru úti í sól notið sterka sólarvörn sérstaklega ætlaða börnum. Best er að hafa ung börn á skuggsælum stað.
- Læsið hættuleg efni eða muni í skápum með barnalæsingum sem barnið getur ekki opnað. Börn geta verið fljót að læra á barnalæsingar og því þarf að hafa varan á og skipta um barnalæsingar ef barnið hefur náð tökum á þeim.
Baðherbergi
- Sleppið aldrei taki af barni sem er á skiptiborði. Fyrir lítið barn er fall niður á gólf mjög hátt og höfuð þess þungt miðað við búkinn, þannig að líkur á því að barnið lendi á höfðinu eru töluverðar.
- Athugið hitastig vatns áður en barnið fer í bað. Húð ungra barna er 15% þynnri en húð fullorðinna og mun viðkvæmari fyrir hita.
- Notið stamar mottur í botn baðkers og sturtu til að minnka líkur á að barn renni til.
- Skiljið barn aldrei eftir eitt í baði. Ung börn geta drukknað í 2-5 sm djúpu vatni.
- Geymið snyrtivörur og hreinsiefni þar sem börn ná ekki til.
- Notið læsingu á klósettið meðal annars til að koma í veg fyrir að barn fari með hendur ofan í það eða hendi hlutum ofan í.
Eiturefni og lyf
Samkvæmt upplýsingum frá Eitrunarmiðstöð Landspítalans leita árlega um 2200 manns sér aðstoðar í heilbrigðiskerfinu vegna eitrana eða um sex á degi hverjum. Flestar eitranir barna verða inni á heimilum en hlutfall eitrana á heimili eru um tveir þriðju hjá fullorðnum.
- Skoðið umbúðir af eitur- og hreinsiefnum og geymið þau í samræmi við leiðbeiningar. Setjið eiturefnin aldrei í umbúðir undan einhverju öðru eins og gosflöskum.
- Geymið eiturefni, lyf og vítamín þar sem börn ná ekki í þau. Læstur skápur er eina örugga geymslan.
- Geymið hreinsiefni aldrei í vaskaskápnum, uppþvottavélaefni eru til að mynda sérstaklega hættuleg.
- Oft er farið óvarlega með ýmis efni sem gjarnan er litið á sem ,,skaðlítil“. Þetta á t.d. við um verkjatöflur, vítamín, sígarettur og grillvökva.
- Sumar plöntur geta verið eitraðar og því mikilvægt að kenna börnum að umgangast þær. Við kaup á nýjum plöntum á seljandi að geta gefið upplýsingar um slíkt. Upplýsingar um hvaða plöntur geta haft eituráhrif má m.a. finna á hjá Eitrunarmiðstöð Noregs.
- Kynnið ykkur viðbrögð við eitrunum á vef Eitrunarmiðstöðvarinnar eða taktu t.d. 2ja tíma vefnámskeið hjá Rauða krossinum.
- Ef eitrunarslys verður hringið í Neyðarlínuna 112.
Eldhús
- Byrjið strax í upphafi að nota beisli á barnið í matarstól.
- Festið matarstólinn við eldhúsborðið til að koma í veg fyrir að hann sporðreisist.
- Ef barnalæsing er ekki á rofum á eldavél notið þá hlífar yfir þá. Leitist við að nota innri hellurnar á eldavélinni. Jafnframt er gott að setja hlíf fyrir framan hellur til að koma í veg fyrir að barn nái í potta sem þar eru.
- Ef gler bakaraofns hitnar er hægt að setja öryggishlíf framan á glerið til að koma í veg fyrir bruna. Ef bakaraofn og eldavél eru eitt þarf að festa eldavélina við vegg til að fyrirbyggja að hún hvolfist yfir barn ef því tekst að stíga uppá opna ofnhurðina. Ef ekki er innbyggð barnalæsing á bakarofni er hægt að setja utanáliggjandi læsingu.
- Drekkið ekki heita vökva með barnið í fanginu því hætta er að vökvinn hellist yfir barnið og brenni það.
- Athugið hitastig matarins áður en gefið er barninu að borða.
- Geyma á oddhvassa hluti eins og hnífa og skæri á stað þar sem börn ná ekki til. Best er að nota barnalæsingar en þær koma í mörgum mismunandi gerðum svo allir geta fundið það sem hentar þeim.
- Mjög mikilvægt er að geyma öll hreinsiefni þar sem börn ná ekki til þeirra. Til dæmis eru uppþvottavélaefni og stíflueyðar þeim mjög hættuleg.
Stofa og opið rými
- Um leið og barnið fer að skríða um, standa upp og ganga meðfram húsgögnum aukast líkur á fallslysum til muna, en börnum hættast við slíkum slysum. Notið hlífar á oddhvöss horn þar til barnið er orðið stöðugt til gangs.
- Þegar ung börn eru á heimilinu er mikilvægt að nota öryggishlið bæði við efra og neðra stigaop. Síðan þarf að kenna börnunum að umgangast stigann.
- Notið öryggislæsingar á glugga ef þeir opnast meira en 8,9 sm.
- Notið öryggislok til að loka fyrir innstungur sem eru í hæð sem barnið nær til ef engin innbyggð öryggislæsing er í þeim.
Svefnherbergi
- Tryggið stöðugleika vöggu og kennið eldri börnum að umgangast hana. Auðvelt getur verið að hvolfa vöggu ef togað er í hana á hlið. Um leið og barn gerir sig líklegt til að snúa sér þarf að hætta að nota vöggu.
- Ráðlagt er að láta barnið sofa á bakinu. Það minnkar líkur á vöggudauða.
- Tryggið að rúmið sé stöðugt og botninn öruggur. Bil á milli rimla á að vera 6 sm og hæð frá botni minnst 60 sm ef það er í lægstu stöðu en 30 sm ef það er í hæstu stöðu. Stillið rúmið í lægstu stöðu þegar barnið er farið að snúa sér.
- Ferðarúm er góð lausn ef gist er á nýjum stað. Mikilvægt er að fara ávallt eftir leiðbeiningum við uppsetningu.
- Brýna þarf fyrir börnum að kojur eru ekki leiksvæði enda er fall úr efri koju nokkuð hátt. Öryggisbrík þarf að vera allan hringinn í rúminu og börn yngri en 6 ára eiga að sofa í neðri koju.
- Bil á milli stigaþrepa má ekki vera meira en 8,9 sm,
- Gæta þarf þess að börn setji ekki teppi eða annað efni yfir ljós eins og lampa því það skapar eldhættu.
- Notið leikföng sem miðuð eru við aldur barnsins og verið viss um að þau uppfylli lágmarks öryggiskröfur en CE merking segir til um það. Ef leikfang er orði laskað takið það úr umferð.
- Fjarlægið litla hluti sem eru minni en 3 sm úr umhverfi barnsins. Gott er að nota svokallaðan kokhólk til að athuga hvort hlutirnir séu of smáir.
Öryggisvörur
Margskonar vörur er hægt að fá til að auka öryggi á heimilum, sérstaklega með tilliti til öryggis barna. Þær má meðal annars fá í apótekum, barna-, byggingavöru- og vefverslunum.
Upplýsingar um allar helstu öryggisvörur til að tryggja öryggi barna á heimilum má finna í bækling frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Í bæklingnum eru jafnframt upplýsingar um viðbrögð við endurlífgun barna og ef aðskotahlutur er fastur í öndunarvegi.