Flugeldar
Flugeldar eru ekki hættulausir og um hver áramót verða slys af völdum þeirra og brunar þar algengastir. Flestir slasast á höndum en augnáverkum hefur fækkað undanfarin ár, sem þakka má m.a. notkun hlífðargleraugna. Algengasta orsök flugeldaslysa er vangá og/eða vankunnátta, þar sem ekki er farið eftir leiðbeiningum. Flestir slasast um áramótin sjálf en alvarlegustu slysin verða oft dagana á undan eða fyrstu dagana á nýju ári og þá helst hjá unglingsstrákum sem eru að fikta með flugelda, taka þá í sundur og safna púðri saman. Búa til sínar eigin sprengjur og breyta með því eiginleikum flugeldanna.
Almennar leiðbeiningar
- Passa þarf börnin vel, þau þekkja ekki hætturnar eins vel og fullorðnir.
- Börn eiga ekki að umgangast flugelda og fylgihluti nema undir eftirliti fullorðinna.
- 12 ára og yngri mega ekki kaupa neinar flugeldavörur og mjög takmarkað er hvað 12 til 16 ára mega kaupa. Eldri hópurinn má kaupa vörur sem ekki eru nein aldurstakmörk á, t.d. þær sem ætlaðar eru til notkunar innanhúss og nota má allan ársins hring.
- Flugeldavörur eru ekki leikföng og ekki má nota þær í hrekki. Slys hafa hlotist af slíku t.d. varanlegur heyrnarskaði.
- Ekki má vera með flugeldavörur á brennu. Jafn saklaus hlutur og blys, getur valdið slysi þar vegna þess hve margt er um manninn.
- Áfengi og flugeldar fara aldrei saman. Margir virða þetta ekki og hafa einkum karlmenn á besta aldri slasað sig af þessum sökum.
- Flugelda á að geyma á þurrum stað, þar sem börn ná ekki til. Ekki er mælt með að geyma þá milli ára.
- Lesið vel allar leiðbeiningar sem fylgja flugeldum áður en skotið er upp.
- Hlífðargleraugu eiga allir að nota, sama hvort þeir eru að skjóta upp eða bara að horfa á.
- Hendur þeirra sem skjóta upp eða eru með handblys eru best varðar með skinn- eða ullarhönskum.
- Þegar skotið er upp á að geyma flugeldana fjarri þeim stað sem skotið er upp á.
- Aldrei geyma flugeldavörur í vasa, ekki einu sinni eldspýturnar. Nokkur brunaslys hafa orðið undanfarin ár af völdum rokeldspýtustokks í vasa.
- Skjótið upp á opnu svæði í a.m.k. 20 m fjarlægð frá húsum, bílum og fólki og látið þá sem fylgjast með standa vindmegin við skotstað.
- Aldrei má kveikja í flugeldum sem haldið er á, það má eingöngu með sérmerkt handblys.
- Rakettur verða að vera á traustri undirstöðu þegar þeim er skotið upp.
- Stöðug undirstaða er nauðsynleg fyrir standblys og skotkökur og þau þurfa mikið rými.
- Aldrei má halla sér yfir vöru þegar kveikt er í. Tendra skal á kveiknum með útréttri hendi og víkja strax frá.
- Ef flugeldur springur ekki skal ekki nálgast hann í nokkrar mínútur þar sem hætta er á að hann rjúki allt í einu upp. Ekki reyna að kveikja aftur í heldur hellið vatni yfir hann.
- Brunasár á að kæla strax með 15-17°C vatni.
Fikt með flugeldavörur
Fikt með flugelda er alltof algengt. Að baki hverjum flugeld liggja ítarlegar prófanir og rannsóknir sem tryggja að hann sé sem öruggastur. Ef eiginleikunum er breytt er engan veginn hægt að vita hvernig flugeldurinn springur, hversu hratt það gerist eða hver krafturinn verður. Enda verða áverkar í andliti og á höndum iðulega þegar sprengiefnið springur áður en viðkomandi tekst að koma sér í örugga fjarlægð frá skotstað. Mikilvægt er að foreldrar séu meðvitaðir um hvað börn þeirra eru að gera á þessum árstíma og leyfi þeim ekki að meðhöndla flugelda og fylgihluti án eftirlits. Í myndbandinu Ekkert fikt er höfðað til þessa hóps.
Dýr og flugeldar
Mikilvægt er að huga að dýrum í kringum áramótin þar sem þau hræðast oft hljóðin og ljósin sem koma frá flugeldunum. Í bæklingnum Gleymum ekki...bestu vinunum er að finna mörg góð ráð fyrir dýraeigendur fyrir áramótin.
Hiti sjóðandi vatns er 100°C en þegar flugeldum er skotið upp gefa þeir frá sér hita á bilinu 800 til 1200°C. Leiðbeiningarnar á flugeldum taka mið af þessari hættu og ef ekki er farið eftir þeim aukast líkur á slysum til muna.