Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Bílstólar

Einungis 1% barna komu í leikskólann án þess að vera í einhverjum öryggisbúnaði samkvæmt könn­un Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Samgöngustofu árið 2023. Sama könnun sýndi jafnframt 10% sex ára barna voru annað hvort í engum eða ófullnægjandi búnaði.

Öll börn sem ekki hafa náð 135 sm hæð eiga að vera í sér­stök­um ör­ygg­is­búnaði, um­fram bíl­belti, sem tek­ur mið af hæð og þyngd þess. Sekt fyrir að vera ekki með barn í sérstökum öryggisbúnaði er kr. 30.000 og sama upphæð er ef farþegi undir 15 ára aldri er ekki í öryggis- og verndarbúnaði. Í fræðslumyndbandi Samgöngustofu er farið yfir nokkra þætti barnabílstóla sem gott er að hafa í huga.

Af hverju bakvísandi?

Mælt er sérstaklega með bakvísandi barnabílstólum fyrir börn yngri en 3-4 ára. Sænskar rannsóknir hafa sýnt að í alvarlegum umferðaró­höppum þurfa börn ekki á aðhlynningu að halda í 90% tilfella ef þau eru í bakvísandi barnabílstól. Þetta sama hlutfall er um 60% fyrir börn í framvísandi barnabílstólum.

Barnið er betur varið með bakið í átt að akstursstefnu þar sem þyngd höfuðs þess er hlutfallslega mun meiri af líkamsþyngd en hjá fullorðnum. Höfuðið er um 6% af heildar líkamsþyngd fullorðinna, en 25% hjá 9 mánaða gömlum börnum. Norsk fræðslumynd sýnir muninn á öryggi framvísandi og bakvísandi barnabílstóla vel.

Viltu skipta yfir í stærri stól?

Algeng mistök sem foreldrar gera er að flýta sér að færa barnið yfir í stærri stól. Það er mjög mikilvægt að barnið þitt nái því viðmiði sem stærri stóll er gefinn upp fyrir áður en þú skiptir. Of stór stóll er oft ekki eins öruggur og sá sem enn passar. Þetta á oft við þegar farið er úr bílstól yfir í sessu með baki.

Er stóllinn of lítill?

Ef þér finnst að stóllinn sé of lítill fyrir barnið þrátt fyrir að leiðbeiningar segi annað þá er ágætis þumalputtaregla að efsti hluti eyrans sé ekki kominn upp fyrir bakið á stólnum. Hvort fætur séu komnir fram fyrir þýðir ekki að barnið sé orðið of stórt fyrir stólinn. Rannsóknir sýna að áverkar á fótum barna í bakvísandi stólum eru sjaldgæfir.

Ertu að fara kaupa þér stól?

Gefðu þér góðan tíma til að finna út hvaða stóll hentar barninu þínu. Stólinn þarf að passa þyngd, aldri og lengd barnsins og passa í bílinn. Margir framleiðendur barnabílstóla eru með svokallaðan „Fit finder“ þar sem hægt er að finna stól sem passar í bílinn þinn. Bakvísandi stólar tryggja best öryggi barns þíns fram að þriggja til fjögurra ára aldri.

Ungbarnastóll hentar yfirleitt barni upp í 13 kg eða 83 sm. Hægt er að kaupa ,,base" eða stólastöð undir ungbarnastólana. Með henni er mun auðveldara að festa stólinn og líkur á rangt festum stól verða mun minni. Mikilvægt að næsti stóll sé einnig bakvísandi en þeir duga gjarnan upp í 18 til 25 kg. Gott er að setja spegil á höfuðpúða bílsætisins svo barnið sjái til þess sem keyrir.

Er í lagi að velja notaðan barnabílstól?

Ef þú ætlar að velja notaðan barnabílstól er mikilvægt að þú þekkir sögu hans, hversu gamall hann er, hversu mikið hann hefur verið notaður og fá leiðbeiningar með stólnum. Í mörgum tilvikum er hægt að nálgast leiðbeiningar á vef framleiðanda. Skoðaðu bílbeltin því þau mega ekki vera slitin og spennan má ekki opnast án þess að ýtt sé á lásinn.

Hvað endast barnabílstólar lengi?

Algengur líftími ungbarnabílstóla er 5 ár en allt að 10 ár fyrir aðra stóla en það getur verið mismunandi eftir framleiðendum. Upplýsingar um hvenær stólinn var framleiddur má finna á stólnum sjálfum.

ISOFIX festingar

ISOFIX festingar eiga að vera í öllum bílum sem eru framleiddir eftir 2011 samkvæmt reglum EES. Þær má þó einnig finna í mörgum eldri bílum. Festingarnar má finna í aftursæti bíla, neðst milli baks og sætis eða neðst á baki sætis. ISOFIX festing tryggir að stóllinn sé sem öruggastur þar sem stólinn festist í grind bílsins. Lítil sem engin hætta er á að stóllinn sé rangt festur með ISOFIX eins og getur gerst þegar stóll er festur með öryggisbelti.

Hvernig á ég að festa stólinn?

Ef ISOFIX er ekki á stólnum getur verið mjög mismunandi eftir stólum hvernig á að festa hann. Það er því mikilvægt að þú farir eftir þeim leiðbeiningum sem eiga við stólinn þinn. Ekki láta leiðbeiningar annarra duga þar sem viðkomandi gæti hafa gleymt einhverju atriði. Athugaðu alltaf hvort stólinn sé stöðugur þegar búið er að festa barnið í hann.

Hvernig á ég að festa barnið í stólinn?

Stólbeltin eiga að sitja það þétt að barninu að þú getir einungis sett tvo til þrjá fingur á milli og þau mega ekki vera snúin. Beltin eiga að sitja rétt yfir öxl barnsins en til þess þurfa beltin að vera í réttu gati á baki stólsins, hvorki of neðarlega né ofarlega.

Hvar á stóllinn að vera í bílnum?

Börn yngri en 12 ára eru best varin í aftursæti. Öryggispúðar í framsæti eru hættulegir börnum sem ekki eru orðin 150 cm að hæða. Ekki gefa afslátt á öryggi og leyfa barninu að sitja stundum í framsætinu.

Hvenær má byrja að nota sessu?

Sessu má byrja að nota í fyrsta lagi þegar barnið er orðið 15 kg. Við mælum alltaf með því að þú veljir sessu með baki því hún veitir mun betri vernd en sessa án baks. Það er mikilvægt að þú setjir bílbeltið ávallt undir lykkjuna sem er á sessunni því annars er hætta á að hún renni undan barninu í árekstri. Á mörgum sessum sem eru með baki er hægt að stilla hæðina á bakinu. Þú þarft að færa hæð baksins til eftir því sem barnið vex. Efri brún eyrans má ekki fara upp fyrir stólbakið. Best er að nota sessu með baki að minnsta kosti þangað til barnið hefur náð 135 cm eða 36 kg, gjarnan um 10 ára aldur.

Hvernig tryggi ég öryggi barna í rútum og leigubílum?

Þú átt aldrei að draga úr öryggi barna þrátt fyrir að ferðast sé i rútum eða leigubílum. Athugaðu hvort aðilinn bjóði upp á öryggisbúnað annars tekur þú þinn eigin búnað með.

Hvað ef bílinn lendir í árekstri?

Öryggisbúnaður er ónýtur ef hann lendir í hörðum árekstri, bílveltu eða öðru umferðartjóni. Skemmdir geta verið á búnaðinum þrátt fyrir að þær séu ekki sjáanlegar. Engar prófunarstöðvar eru til hér á landi til að athuga hvort öryggisbúnaður sé í lagi eftir árekstur. Klipptu öryggisbeltin í sundur áður en þú hendir stólnum svo engin hætta sé á að einhver annar noti stólinn.

Staðlar og merkingar barnabílstóla

  • ECE R44.04 er merk­ing fyr­ir evr­ópska staðla barna­bíl­stóla. Síðustu tveir staf­irn­ir gefa til kynna að þetta er nýj­asta staðal­inn sem kom út 2006.  
  • UN R129 eða i-Size er öryggisviðurkenningin tók í gildi í júlí 2013. Árið 2017 var hún uppfærð í UN R129-02. Framtíðin verður að UN R129 staðalinn leysi ECE R44.04 af hólmi.  Allir i-Size stólar eru festir með ISOFIX og stærði barns tekur mið af hæð og aldri barns. UN R129 staðallinn er strangari en ECE R44.04 m.a. er gerðar kröfur um hliðarprófanir sem ekki eru í ECE R44.04.
  • FMVSS er staðall fyr­ir banda­rísk­an markað. ECE staðall­inn er strang­ari en FMVSS  og er bannað að flytja inn stóla sem upp­fylla ein­göngu FMVSS staðalinn.
  • CMVSS er staðall fyr­ir kanadískan markað. ECE staðall­inn er strang­ari en CMVSS  og var bannað að flytja inn stóla sem upp­fylla ein­göngu CMVSS staðalinn eft­ir 1. júlí 2013.
  • Plús Test er sænskur staðall sem gerir strangari kröfur um öryggi en i-Size staðalinn sér í lagi til að vernda höfuð og háls. 
  • SICT er hliðarvörn sem er stillanleg og þarf eingöngu að hafa á þeirri hlið sem snýr að bílhurðinni. 
  • XP öryggispúði til að nota undir 3ja punkta bílbelti bílsins og dregur allt að 30% meira úr högginu sem verður í árekstri heldur en beltið sjálft.
  • Pivot Link-Isofix festingar er sérstök hönnun á Isofix festingum til að gera höggið mýkra, þannig að minna álag verði á höfuð og háls við árekstur.