Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Akstur

Um­ferðarregl­ur byggja á lög­um og reglu­gerðum, sem geta tekið breyt­ing­um. Í öku­námi eru lög­in og reglu­gerðirn­ar kennd­ar. Eft­ir það verður hver og einn að fylgj­ast með þeim breyt­ing­um sem verða.

Nú­gild­andi um­ferðarlög nr, 77/2019 tóku gildi þann 1. janúar 2020. Með um­ferðarlög­un­um eru ýms­ar reglu­gerðir og má finna þær tengd­ar um­ferðarlög­un­um. Jafn­framt er hægt að nálg­ast sam­an­tekt þeirra á vef Sam­göngu­stofu. Upp­lýs­ing­ar um öll um­ferðarmerki má sjá á vef Vega­gerðar­inn­ar.

Hraði

Há­marks­hraði er mis­mun­andi. Á mal­bikuðum þjóðveg­um er al­menn­ur um­ferðar­hraði 90 km./​klst., 80 km./​klst. á mal­ar­veg­um og 50 km./​klst. í þétt­býli. Önnur hraðamörk geta verið víða. Fylgj­ast þarf með há­marks­hraða á hverj­um stað og miða hann við aðstæður á hverj­um tíma.
Leiðbein­andi hraði er víða á þjóðveg­um lands­ins. Hann er þar sem veg­ir eru vara­sam­ir m.t.t. ör­ygg­is og þar sem slys hafa verið al­geng. Það eyk­ur ör­yggi að fara eft­ir leiðbein­ing­un­um.

Akst­ur und­ir áhrif­um áfeng­is og annarra vímu­efna

Ökumaður þarf að vera lík­am­lega og and­lega fær til að aka öku­tæki. Áfengi og vímu­efni hafa áhrif á þá færni. Akst­ur og notk­un þeirra fara aldrei sam­an. Hér á landi er miðað við að áfeng­is­magn í blóði megi ekki fara yfir 0,2 pró­mill. Mis­mun­andi er hversu lengi vín­andi er að hverfa úr blóði hvers og eins. Það fer m.a. eft­ir magni áfeng­is, lík­ams­bygg­ingu og heilsu viðkom­andi. Þumalputta­regl­an er að lifr­in umbreyt­ir því sem nem­ur ein­um drykk á klukku­stund. Nán­ari um­fjöll­un má sjá á fræðslu­mynd­bandi Sam­göngu­stofu.

Viður­lög við ölv­unar­akstri má finna í reglu­gerð nr. 1240/2019 Í sömu reglu­gerð er að finna aðrar sekt­ir og viður­lög vegna brota á um­ferðarlög­um. Eins er tryggingarfélögum skilt að endurkrefja einstakling um bætur ef hann hefur sýnt af sér vítavert gáleysi eða ásetning í slysi.

Bil á milli bíla

Aftaná­keyrsl­ur eru með al­geng­ustu um­ferðarslys­um og óhöpp­um hér á landi. Ástæður þeirra eru að öku­menn hafa of lítið bil á milli bíla og at­hygl­in á um­ferðinni er ekki nægj­an­lega mik­il. Góð þumalputta­regla er til að meta nægj­an­lega bil á milli bíla. Hún bygg­ir á því að miðað er við ákveðið kennileiti eins og ljósastaur, skilti eða annað álíka sem bíllinn á undan þér keyrir framhjá. Ef minna en þrjár sek­únd­ur líða áður en þú keyrir framhjá sama kennileiti er bilið á milli bíl­anna of lítið og ástæða til að lengja það.

Farsíma­notk­un

Hér á landi er öku­mönn­um óheim­ilt að tala í síma við akst­ur án hand­frjáls­ búnaðar. Ef öku­menn ákveða að tala í síma und­ir stýri með hand­frjáls­an búnað er mik­il­vægt að tengja búnaðinn áður en lagt er af stað. Nýj­ustu rann­sókn­ir sýna að notk­un hand­frjáls búnaðar eyk­ur ekki um­ferðarör­yggi. Sím­talið sjálft hef­ur trufl­andi áhrif á akst­ur­inn en ekki bara það að vera með aðra hönd á stýri til að halda á sím­an­um.

Það er ákvörðun öku­manna hvort þeir tali í sím­ann við akst­ur með hand­frjáls­an búnað eða sleppi því al­veg. Hringi frekar þegar bíll­inn hef­ur verið stöðvaður og stuðli þannig að auknu ör­yggi sínu. Aftur á móti ætti aldrei að lesa eða senda skilaboð um leið og ekið er eða sinna öðru í síma sem krefst þess að augun séu tekin af veginum. Á 90 km/klst. jafngildir að ekið sé blindandi yfir fótboltavöll ef horft er á símann í um 5 sekúndur sem er meðaltími þess sem ökumenn líta af veginum og á símann til að lesa eða senda skilaboð.

Bakka í stæði

Bakktjón eru sjaldnast alvarleg en ansi svekkjandi fyrir þá sem í þeim lenda. Með því að bakka í stæði má minnka líkur á þessum tjónum til muna. Þá er bakkað inn á öruggt svæði miðað við þegar bakkað er út úr stæði inn á svæði þar sem búast má við bílum og gangandi vegfarendum úr mörgum áttum.

Stefnu­ljós

Notk­un stefnu­ljósa eyk­ur ör­yggi, til­lit­semi og flæði í um­ferðinni. Þegar ökumaður sér, vegna notkunar stefnuljósa, að ann­ar ökumaður ætl­ar að beygja út af eða skipta um ak­rein eyk­ur það ör­yggið í um­ferðinni. Þá er jafn­framt hægt að hliðra til og hægja á með fyr­ir­vara.

Framúrakst­ur

Flest­ir veg­ir lands­ins utan þétt­býl­is eru ein- eða tví­breiðir. Framúrakst­ur er því al­geng­ur. Mik­il­vægt er að bíl­ar sem taka á framúr, auðveldi framúrakst­ur eft­ir því sem kost­ur er. Það get­ur verið með stefnu­merki, víkja aðeins til hliðar og hægja á sér.

Ein­breiðar brýr

Hægið ávallt á áður en komið er að ein­breiðri brú. Komi bíll á móti er regl­an sú að sá vík­ur sem er fjær brúnni.

Lausa­ganga búfjár

Lausa­ganga búfjár er leyfð víða um land. Öku­menn þurfa að vera meðvitaðir um á hvaða svæðum hún er leyfð og hafa var­ann á sér. Góð regla er að hægja á sér þar sem búfé er við veg. Gæta skal sér­stakr­ar varúðar ef búfé er sitt­hvor­um meg­in við veg­inn þar sem bú­ast má við að það hlaupi yfir hann.

Mal­ar­veg­ur

Há­marks­hraði á mal­ar­veg­um er 80 km./​klst. en miða skal hraðann ávallt við aðstæður og reynslu af akstri á mal­ar­vegi. Mik­il­vægt er að hægja ávallt á sér þegar farið er af mal­biki yfir á mal­ar­veg og þegar bílum er mætt.

Vetr­arakst­ur

Einn mik­il­væg­asti þátt­ur í vetr­arakstri er að huga að færð og veðri áður en lagt er af stað. Búa sig síðan und­ir þær aðstæður sem vænta má. Hætta svo við ef horf­ur eru þannig að bíll­inn, búnaður hans og reynsla öku­manns­ins er ekki nægj­an­lega góð. Ef farið er upp á há­lendið að vetri til, þarf að vanda und­ir­bún­ing mjög vel.

Upp­lýs­ing­ar um færð og veður má nálg­ast á eft­ir­far­andi stöðum:

Huga þarf að huga að og/eða hafa til staðar:

  • Hlaðinn farsíma.
  • Ástandi dekkja og hvort þurfi að tjöruhreinsa þau.
  • Fatnaði, skóbúnaði og teppum.
  • Skóflu og teygjuspotta.
  • Eldsneyti.

Há­lendisakst­ur

Há­lendi Íslands læt­ur eng­an ósnort­inn sem um það fer. Höld­um ásýnd lands­ins og ökum aldrei ut­an­vega. Fyr­ir óreynda er mik­il­vægt að fara fyrstu ferðirn­ar með reynd­um ein­stak­ling­um til að afla sér þekk­ing­ar og reynslu. Ekki er æski­legt að ferðast um há­lendið ein­bíla. Litla sem enga þjón­ustu er þar að fá og mik­il­vægt að hafa sam­ferðarfólk sér til aðstoðar.

Mjög ólíkt er að ferðast um há­lendið eft­ir því hvort er um vet­ur eða sum­ar. Á vor­in þarf að fylgj­ast með opn­um fjall­vega en Vega­gerðin gef­ur út upp­lýs­ing­ar um þær. Vetr­ar­ferðir þarf síðan oft á tíðum að und­ir­búa mun bet­ur en sum­ar­ferðirn­ar þar sem aðstæður geta verið mun erfiðari þá.

Ef fara á um há­lendið þarf að huga að:

  • Ferðaáætlun þar sem fram kemur hvert skal halda, hvaða leið á að velja bæði plan a og b, hverjir eru með í för og hvaða búnaður er til staðar. Skilja þarf ferðaáætlunina eftir hjá aðstandendum.
  • Ástandi bílsins og búnaði hans.
  • Fatnaði, skóbúnaði og teppum.
  • Fjarskipti, staðsetningartæki (GPS), áttaviti og kort.
  • Nesti og neyðarnesti.
  • Skyndihjálparþekkingu og sjúkragögnum.
  • Skóflu og teygjuspotta.
  • Eldsneyti.

Á heimasíðu Útivist­ar má sjá búnaðarlista fyr­ir há­lend­is­ferðir bæði að vetri sem sumri.

Akst­ur yfir ár:

Slys og tjón verða oft á há­lend­inu þegar ekið er yfir ár. Kynnið ykk­ur það svæði sem aka á um. Hvaða ár eru á því svæði og hversu öfl­uga jeppa þurfi til að aka yfir þær. Verið viss um að bíll­inn hafi þær trygg­ing­ar sem þarf fyr­ir akst­ur á há­lendi.

Vatns­magn í ám er oft van­metið. Vatns­magn er að jafnaði minna í jök­ulám að morgni dags held­ur en seinna um dag­inn. Góð regla er að aka ekki yfir ár ef þú treyst­ir þér ekki til að vaða ánna.

  • Akstur yfir ár er eingöngu fyrir öfluga fjórhjóladrifs jeppa.
  • Akið ekki yfir ár einbíla.
  • Veljið af kostgæfni hvar aka á yfir ánna. Að jafnaði er það efst á broti.
  • Til að vera viss um að óhætt sé að keyra yfir ánna, vaðið yfir hana í flotgalla/vöðlum og í línu. Ef þú treystir þér ekki til að vaða ánna skaltu ekki aka yfir hana.
  • Hafið bílinn í lága drifinu ef það er til staðar.
  • Akið með straumi en ekki upp á móti.
  • Akið rólega og ákveðið yfir. Verið í fyrsta gír og skiptið ekki um gír úti í ánni.

Vist­akst­ur

Vist­akst­ur er ákveðið akst­urslag þar sem til­gang­ur­inn er að spara orku, minnka meng­un og auka um­ferðarör­yggi. Með vist­akstri verða öku­menn meðvitaðri um akst­urslag sitt með eft­ir­far­andi ár­angri:

  • Minnkar útblástursmengun frá ökutækjum um 10-15%. 
  • Dregur úr eldsneytisnotkun.
  • Eykur öryggi í umferðinni um 30%.
  • Fækkar slysum og bjargar mannslífum.
  • Minnkar slit á vél og hjólbörðum.
  • Lækkar viðhaldskostnað.
  • Minnkar hemlaryk.
  • Skerpir athygli ökumanna.
  • Bætir umferðarflæði og styttir ferðatíma um 4-5%. Ökumaður á langkeyrslu sem ekur á 100 km hraða á klst., í stað 90, græðir aðeins 3 mínútur á 50 km vegarkafla. Sami ökumaður eykur eldsneytisbruna um 10%.
  • Dregur úr taugaspennu í umferðinni.