Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Öryggispúðar

Öryggispúðar eru frábær tæknibylting sem hafa bjargað mörgum. Við hönnun þeirra er gengið út frá því að sá sem situr fyrir framan öryggispúðann sé í bílbelti.

Öryggispúðar geta verið hættulegir með rangri notkun

Þessi öflugi búnaður getur hins vegar virkað þveröfugt ef ekki er farið eftir reglum um bílbeltanotkun og slasað óspenntar manneskjur þegar púðinn springur út.

Eins má barn sem ekki hefur náð 150 sm hæð aldrei sitja fyrir framan virkan loftpúða í framsæti, hvort sem barnið er í barnabílstól eða ekki. Þegar öryggispúðinn springur út getur hann slasað barnið alvarlega. Í sumum bílum er hægt að slökkva á loftpúðunum og þá er hægt að hafa barn í bakvísandi barnabílstól þar. Mikilvægt er að muna að börn eru almennt best varin í aftursæti bíls fram að 12 ára aldri.

Hliðarloftpúðar eða loftpúðagardínur geta verið við hliðarrúður bíla. Öruggt er fyrir barn að sitja við hlið þeirra, svo framarlega sem höfuð barnsins liggi ekki við rúðuna.