Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Andleg heilsa

Andleg heilsa er ekki síður mikilvæg en líkamleg. Hún er þó ekki sjálfgefin frekar en líkamleg heilsa. Til einföldunar má ef til vill segja að þeir sem geta stundað sína vinnu, verið virkir þjóðfélagsþegnar, séð um sig sjálfir, lagað sig að aðstæðum og verið virkir í félagslegum samskiptum séu andlega heilir.

Umhverfið

Umhverfið hefur áhrif á andlega líðan fólks. Dæmi um slíkt eru fjárhagsáhyggjur, sjúkdómar, ýmsar breytingar, óheilbrigt umhverfi, andlegt- og/eða líkamlegt ofbeldi. Mikilvægt er að vera meðvitaður um álagsþætti í umhverfi sínu og hafa áhrif á þá af fremsta megni.

Streita

Streita er oft stór áhrifaþáttur í daglegu lífi. Hún getur bæði verið jákvæð og neikvæð. Jákvæð þegar við fáum aukinn kraft til að bregðast t.d. við hættum og neikvæð þegar hún er langvarandi. Þá getur hún m.a. aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, blóðsegamyndun, háþrýstingi og skyndidauða. Með því að hafa stjórn á áreiti í umhverfi sínu, stunda heilbrigt líferni og vera yfirvegaður má minnka streituna til muna.

Áföll

Fæstir komast í gegnum lífið án áfalla, erfiðleika og sorgar. Hvernig við tökumst á við það er mjög persónubundið og fólki miserfitt. Ferlið hjá flestum sem upplifa sorg er þó svipað. Fyrst er lost sem getur varað frá örstuttu andartaki til nokkurra daga þar sem orkan fer í að afneita raunveruleikanum. Síðan tekur viðbragðsstig við þar sem horfst er í augu við raunveruleikann. Síðan byrjar úrvinnsla sem endar með skilningi. Sársauki er eðlilegur þáttur þessa ferlis en ef fólk festist á ákveðnu stigi er mikilvægt að leita sér aðstoðar.