Innbrot
Margt er hægt að gera til að fyrirbyggja innbrot. Oft á tíðum er andlega vanlíðan og óöryggið sem fylgir því að brotist er inn á heimilið mun verra en tjónið og munir sem hverfa í innbrotinu. Því er mikilvægt að hver og einn sé meðvitaður um þær forvarnir sem hann getur sinnt til að koma í veg fyrir innbrot hjá sér. Reynslan hefur sýnt að innbrot eru oft vel skipulögð. Þjófar eru oftast að leita eftir hlutum sem auðvelt er að koma í verð eins og myndavélum, fartölvum, símum, spjaldtölvum, flatskjáum, peningum og skartgripum.
Farið að heiman
- Mikilvægt er að undirbúa fríið með tilliti til innbrotavarna.
- Biðja einhvern um að slá garðinn/moka snjóinn eftir þörfum.
- Láta nágrannana vita um fríið og hvenær áætlað er að koma til baka.
- Biðja nágrannann um að taka póstinn.
- Biðja nágrannann um að hafa ljós logandi á mismunandi stöðum í íbúðinni eða hafa tímastilli á því.
- Ganga frá öllu dóti sem er úti inn í geymslu.
- Forðist að setja eitthvað um fríið inn á samskiptasíður.
- Hafa útiljós kveikt.
- Loka öllum gluggum og krækja aftur.
- Setja öryggiskerfið á.
- Vera viss um að allar útidyr séu læstar.
Gátlisti um undirbúning heimilisins fyrir fríið getur verið gott að styðjast við til að ekkert gleymist.
Innandyra
Heimilið er mikilvægasti staður fjölskyldunnar. Enginn er viðbúinn því að inni á heimilinu sé óboðinn gestur að vasast í eigum fjölskyldunnar. Gestur sem síðan hefur á brott með sér það sem hann telur að hægt sé að koma í verð. Mikilvægt er að vera meðvitaður um þessa hættu og fyrirbyggja hana eins og kostur er.
- Læsið alltaf öllum hurðum með traustum læsingum.
- Takið niður tegund, raðnúmer og myndið verðmæt raftæki. Myndið jafnframt önnur mikilvæg verðmæti eins og skartgripi og fleira. Það auðveldar lögreglu að hafa uppi á stolnum munum.
- Leitist við að hafa verðmæta muni eins og flatskjái og tölvur ekki þar sem þeir sjást utanfrá.
- Gott er að geyma verðmæti í þar til gerðum verðmætaskápum sem eru vegg- eða gólffestir. Ef þeir eru ekki til staðar er hægt að nota aðrar hirslur sem hægt er að læsa a.m.k. geymið verðmæti ekki á augljósum stað.
- Útvarp í gangi og kveikt ljós getur haft fælingarmátt.
- Öryggisfilmur í glugga auka öryggið.
- Kjallaragluggar eru algeng leið inn. Passið vel uppá að þar séu vandaðar gluggalæsingar og gluggum krækt aftur þegar þeim er lokað. Grindur fyrir kjallaraglugga geta komið í veg fyrir innbrot.
- Stór hluti innbrota er í gegn um svala- eða garðhurðir. Gættu þess að þar sé lýsing og þær vel læstar og með krækjum.
- Hleypið ekki inn óþekktum aðilum. Sérstaklega á þetta við í fjölbýlishúsum þegar verið er að hleypa einstaklingum inn í stigaganga. Líka er vert að benda á að dæmi eru um að einstaklingar hafa bankað uppá hjá fólki og boðið uppá einhverja þjónustu en markmið heimsóknarinnar verið að skoða aðstæður á viðkomandi heimili.
Nágrannavarsla
Tölur sýna að nágrannavarsla er öflug forvörn gegn innbrotum. Þar sem hún er til staðar eru íbúar meðvitaðri um mannaferðir í sínu nánasta umhverfi, hvernig þeir eigi að fyrirbyggja innbrot og skipta sér frekar af ef þeir sjá eitthvað óeðlilegt.
Markmið nágrannavörslu er ávallt að gera hvern og einn meðvitaðri um þá þætti sem snúa að innbrotum. Hvernig á að ganga frá heimilinu, bílnum, bílskúrnum, garðinum og öðru til að minnka líkur á innbroti.
Nágrannavarsla getur verið bæði óformleg og svo skipulögð. Ekkert eitt fyrirkomulag er á skipulagðri nágrannavörslu. Það fer m.a. eftir stærð og umfangi svæðisins. Í flestum tilfellum þar sem skipulögð nágrannavarsla er kemur einhver utanaðkomandi að henni. Sum sveitarfélög bjóða til að mynda uppá ákveðna þjónustu til að aðstoða íbúa sína við að koma henni á.
Utandyra
Aðstæður utandyra til innbrota eru mjög mismunandi. Léleg lýsing, skjólgóður gróður og lélegur frágangur auðveldar þjófum iðju sína. Bjóðum ekki hættunni heim heldur fyrirbyggjum innbrot eins og kostur er.
- Hafið góða lýsingu í kringum húsið. Gott er að hafa hreyfiskynjara á lýsingunni sér í lagi í sumarhúsum.
- Hafið ekki umbúðir utan af verðmætum tækjum við öskutunnu eða útidyr.
- Gætið þess að hafa ekki stiga, kassa eða annað úti við sem hægt er að nota til þess brjótast inn.
- Lausir steinar, hellur og aðrir þungir hlutir eru oft notaðir til þess að brjóta glugga. Fjarlægið slíkt úr garðinum.
- Geymið aldrei aukalykil í kringum húsið eins og í blómapotti eða undir mottu. Komið honum heldur fyrir hjá vinum.
- Ef flutt er í nýtt húsnæði eða útidyralykill týnist er mikilvægt að skipta um skrár.
- Gætið þess að taka sláttuvél og önnur verðmæt garðáhöld inn eftir notkun.
- Geymið reiðhjól innandyra eða læsið þeim tryggilega.
Bíllinn
Innbrot í bíla eru algeng. Auðvelt er að minnka líkur á þeim með því að hafa aldrei neitt til staðar í bílnum sem getur vakið áhuga þjófa. Oft og tíðum er tjónið sem verður á bílnum sjálfum við innbrotið meira heldur en verðmæti þess sem tekið er úr bílnum.
- Forðist að leggja bílnum á skuggsælum og fáförnum stað.
- Læsið alltaf ökutækinu og lokið gluggum.
- Hafið verðmæti eins og síma, leiðsögutæki, töskur og golfsett ekki sýnileg í bílnum.
- Tryggingar taka lítið sem ekkert á tjónum við innbrot þegar bíll er skilinn eftir ólæstur eða rúður opnar.