Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Eldri borgarar

75% slysa eldri borg­ara eru heima- og frí­tíma­slys og verða þrjú af hverj­um fjór­um þeirra inni á heim­il­um, sam­kvæmt töl­um frá Land­læknisembætt­inu. Fall er al­geng­asta ástæða slys­anna.

Hreyf­ing

Með hækk­andi aldri verða breyt­ing­ar á lík­am­an­um þar sem meðal ann­ars snerpa, styrk­ur, stöðug­leiki og sjón breyt­ast. Mik­il­vægt er að sporna við þess­um breyt­ing­um eft­ir bestu getu. Rann­sókn­ir sýna að það er aldrei of seint að hefja reglu­lega hreyf­ingu. Hún er öll­um mik­il­væg og ekki hvað síst eldri borg­ur­um. Lík­am­an­um er eðli­legt að hreyfa sig en við kyrr­stöðu minnk­ar blóðflæði  og vöðvar og liðamót stirðna. Hreyf­ing bæt­ir þannig styrk, þol, jafn­vægi, ör­yggi og vellíðan bæði and­lega og lík­am­lega.

Mataræði

Fjöl­breytt mataræði og neysla D víta­míns og kalks eyk­ur beinþéttn­ina sem er mik­il­vægt til að minnka lík­ur á bein­brot­um. Reyk­ing­ar hafa nei­kvæð áhrif á beinþéttni en hreyf­ing hef­ur aft­ur á móti já­kvæð áhrif á hana.

Lyf

Marg­ir sem komn­ir eru á efri ár þurfa að taka inn lyf og oft fleiri en eitt. Mik­il­vægt er að láta yf­ir­fara þau reglu­lega og leita sér aðstoðar til dæm­is ef svima eða óstöðug­leika verður vart.

Slysa­hætt­ur

Eldri borgarar hljóta oft meiri áverka en þeir yngri meðal ann­ars vegna mun meiri hættu á að bein­brotna. Til sam­an­b­urðar eru tvö af hverj­um hundrað börn­um sem koma á slysa­deild lögð inn en 18 af hverj­um hundrað eldri borg­ur­um. Þeir geta jafn­framt átt erfitt með að ná fyrri hreyfi­færni og styrk eft­ir slys. For­varn­ir eru því mjög mik­il­væg­ar til að koma í veg fyr­ir slys­in og auka þannig lífs­gæði eldri borg­ara.

Í bæk­lingn­um Örugg efri ár má sjá ýt­ar­lega um­fjöll­un um  hvernig má fyr­ir­byggja slys­in. Gátlista um ör­yggi eldri borg­ara heima er síðan gott og ein­falt að nota til að sjá eft­ir hverju á að horfa á heim­ili hvers og eins eldri ­borg­ara til að gera það ör­ugg­ara. Hér að neðan má sjá algeng atriði í hverju rými sem gott er að horfa eftir.

Bað
 • Hitastýrð blöndunartæki.
 • Stamar mottur í bað og sturtu til að minnka líkur á falli.
 • Handfang við klósett, sturtu og baðkar til að styðjast við og minnka líkur á falli.
 • Ef motta er á gólfi nota hálkuvörn undir hana og taka hana úr notkun ef hún er farin að vinda upp á sig.
Eld­hús
 • Geyma þá hluti sem eru notaðir mest í góðri vinnuhæð.
 • Láta rafmagnssnúrur ekki lafa fram af borðum.
 • Forðast að ganga um með heita vökva, til að mynda kaffikönnu og potta.
 • Geyma lyf og hreinsiefni þar sem börn ná ekki til.
 • Hafa eldhússtóla og borð stöðug.
 • Hafa lýsingu góða og passa að styrkleiki pera sé aldrei meiri en perustæði er gefið upp fyrir.
Stig­ar
 • Hafa lýsingu góða og rofa efst og neðst við stigaop.
 • Handrið til að styðja sig við.
 • Ef tröppur eru hálar setja hálkustrimla fremst á þær.
 • Aðgreina neðstu tröppuna með litaborða til að minna á að um síðustu tröppu er að ræða, en algengt er að fólk detti þar.
Stofa
 • Hafa sófa og stóla sem auðvelt er að standa upp úr.
 • Hafa gangveg auðan til að minnka líkur á að dottið sé um hluti þar.
 • Sleppa þröskuldum ef hægt er.
 • Vera viss um að styrkleiki pera sé réttur miðað við perustæði, til dæmis í lömpum.
 • Láta rafmagnssnúrur ekki liggja í gangvegi og setja ekki of mörg tæki í samband við hvert fjöltengi.
 • Nota rafmagnskerti frekar en hefðbundin kerti.
 • Ef motta er á gólfi nota hálkuvörn undir hana og taka mottuna úr notkun ef hún er farin að vinda upp á sig.
Svefn­her­bergi
 • Hafa síma við rúmið þegar gengið er til hvílu þar sem hætta getur verið á svima ef farið er snöggt á fætur.
 • Hafa rúm frekar há þar sem þá er þægilegra að standa upp úr þeim.
 • Ef lausar mottur eru á gólfi nota hálkuvörn undir þær og taka úr notkun ef þær eru farnar að vinda upp á sig.
 • Með hærri aldri þarf lýsing að vera meiri þar sem breyting verður á sjón. Almennt er hægt að miða við að tvítugum einstaklingi dugi 20 watta lýsing en 70 ára einstaklingur þarf 70 watta lýsingu.
 • Hafa gangveg auðan til að minnka líkur á að dottið sé um hluti þar.
 • Sleppa þröskuldum ef hægt er.
 • Gott er að hafa næturljós þar sem náttblinda eykst gjarnan með aldrinum.
 • Velja skófatnað sem er stöðugur og situr vel á fæti.