Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Eldri borgarar

Með hækkandi aldri verða marg­ar lík­am­leg­ar breyt­ing­ar hjá einstaklingum. Heyrn, sjón, viðbragð og stöðug­leiki breyt­ist sem get­ur haft áhrif á akst­urs­hæfi. Þetta má meðal ann­ars sjá á tjóna­or­sök­um en þær breyt­ast með aldr­in­um. Tjón þar sem bakkað er á verða tíðari ásamt tjón­um þar sem vinstri beygj­ur eru tekn­ar.

Eldri borg­ar­ar þurfa að vera meðvitaðir um þá þætti í um­ferðinni sem þeim finnst erfiðara að tak­ast á við en áður og taka til­lit til þeirra. 

Birta skiptir máli

Með hækkandi aldri þarf meiri lýs­ingu. Oft er miðað við að um tví­tugt dug­i 20 W pera til að sjá nægj­an­lega skýrt. Um sjö­tugt þurfi 70 W peru. Myrk­ur, lé­legt skyggni eins og þoka og skafrenn­ing­ur og ljósa­skipti eru aðstæður sem eldri borg­ar­ar sjá ver í held­ur en þeir yngri. Æskilegt er að taka tillit til þessa í akstri. Jafn­framt get­ur of mik­il birta haft áhrif en við þær aðstæður gagn­ast sólgler­augu best.

Hraði erfiðari við að eiga

Viðbragð verður hæg­ara með aldr­in­um. Hröð um­ferð er því oft erfiðari þeim sem eldri eru. Þá getur verið gott að draga úr hraða eig­in bíls og fara um svæði þar sem um­ferð er minni og hæg­ari en er t.d. á stofn­braut­um.

Erfitt að átta sig á merkingum

Merk­ing­ar í um­ferðinni breyt­ast með tíð og tíma. Oft get­ur verið erfitt að átta sig á nýj­um merk­ing­um og mörg­um reyn­ist erfitt að sjá þær. Að þekkja leiðina sem fara á, hjálp­ar oft til við þess­ar aðstæður.

Margbreytileg um­ferðarmann­virki

Ný um­ferðarmann­virki, eins og slauf­ur, geta verið flók­in og erfitt að átta sig á þeim. Gott er að nýta sér frek­ar aðrar leiðir, sem eru ein­fald­ari og viðkom­andi þekk­ir bet­ur.

Mikilvægt að nota gangbrautir

Mjög mik­il­vægt er að vera meðvitaður um að fara yfir göt­ur á ör­ugg­an hátt. Nýta sér gang­braut­ir og gefa sér góðan tíma til að fara yfir göt­una þ.e. að vera viss um að langt sé næsta bíl.

Hafa lyfin áhrif á aksturshæfni?

Eldri borg­ar­ar taka oft ýmis lyf. Mik­il­vægt er að kynna sér hvort þau hafi áhrif á akst­urs­hæfni.