Eldri borgarar
Með hækkandi aldri verða margar líkamlegar breytingar hjá einstaklingum. Heyrn, sjón, viðbragð og stöðugleiki breytist sem getur haft áhrif á aksturshæfi. Þetta má meðal annars sjá á tjónaorsökum en þær breytast með aldrinum. Tjón þar sem bakkað er á verða tíðari ásamt tjónum þar sem vinstri beygjur eru teknar.
Eldri borgarar þurfa að vera meðvitaðir um þá þætti í umferðinni sem þeim finnst erfiðara að takast á við en áður og taka tillit til þeirra.

Birta skiptir máli
Með hækkandi aldri þarf meiri lýsingu. Oft er miðað við að um tvítugt dugi 20 W pera til að sjá nægjanlega skýrt. Um sjötugt þurfi 70 W peru. Myrkur, lélegt skyggni eins og þoka og skafrenningur og ljósaskipti eru aðstæður sem eldri borgarar sjá ver í heldur en þeir yngri. Æskilegt er að taka tillit til þessa í akstri. Jafnframt getur of mikil birta haft áhrif en við þær aðstæður gagnast sólgleraugu best.
Hraði erfiðari við að eiga
Viðbragð verður hægara með aldrinum. Hröð umferð er því oft erfiðari þeim sem eldri eru. Þá getur verið gott að draga úr hraða eigin bíls og fara um svæði þar sem umferð er minni og hægari en er t.d. á stofnbrautum.
Erfitt að átta sig á merkingum
Merkingar í umferðinni breytast með tíð og tíma. Oft getur verið erfitt að átta sig á nýjum merkingum og mörgum reynist erfitt að sjá þær. Að þekkja leiðina sem fara á, hjálpar oft til við þessar aðstæður.
Margbreytileg umferðarmannvirki
Ný umferðarmannvirki, eins og slaufur, geta verið flókin og erfitt að átta sig á þeim. Gott er að nýta sér frekar aðrar leiðir, sem eru einfaldari og viðkomandi þekkir betur.
Mikilvægt að nota gangbrautir
Mjög mikilvægt er að vera meðvitaður um að fara yfir götur á öruggan hátt. Nýta sér gangbrautir og gefa sér góðan tíma til að fara yfir götuna þ.e. að vera viss um að langt sé næsta bíl.
Hafa lyfin áhrif á aksturshæfni?
Eldri borgarar taka oft ýmis lyf. Mikilvægt er að kynna sér hvort þau hafi áhrif á aksturshæfni.