Sumarhús
Algengustu tjón í sumarhúsum eru vatnstjón. Algengt er að skemmdir verði miklar þar sem oft líður nokkur tími frá því að lekinn verður þar til hann uppgötvast. Eldsvoðar eru mun sjaldgæfari en vatnstjónin en albruni er því miður ekki óþekkt fyrirbæri þar sem eldsmatur er gífurlegur í sumarhúsum.
Forvarnir gegn þessum tveimur þáttum þurfa því að vera ofarlega á forgangslista sumarhúsaeigenda. Gott er að fara yfir sumarhúsið með eftirfarandi gátlista til hliðsjónar.

Eldvarnir í sumarhúsum
Mikill eldmatur er í flestum sumarhúsum. Brunavarnir eru því gríðarlega mikilvægar þar.
- Reykskynjarar eiga að vera í öllum rýmum og skipta þarf um rafhlöðu einu sinni á ári ef 9 volta rafhlaða er í þeim.
- Eldvarnarteppi á að vera á áberandi stað í eldhúsi samt ekki of nærri eldavél.
- Slökkvitæki á að vera við útgöngu. Ef sumarhúsið er ekki kynnt að vetri til þarf slökkvitækið að vera duftslökkvitæki. Annars annaðhvort duft eða léttvatnsslökkvitæki.
- Flóttaáætlun þarf að vera gerð og æfð. Tryggja þarf að flóttaleiðir séu tvær úr svefnlofti ef það er til staðar. Til að því sé náð þarf á mörgum stöðum að hafa brunastiga til staðar á svefnlofti.
- Skiljið logandi kerti ekki eftir eftirlitslaus.
Eldstæði
- Látið fagmann um uppsetningu og frágang.
- Tryggið aðstreymi fersks lofts til að stjórna megi bruna og koma í veg fyrir að súrefnisskortur setji fólk í hættu.
- Setjið kolsýrlingsskynjara í loft.
- Hreinsið eða látið hreinsa tækin reglulega. Miðið við að ef tækin eru notuð einu sinni á dag þarf að hreinsa þau einu sinni á ári.
Rafmagn
- Látið fagmann um frágang raflagna.
- Skiptið um brotnar klær og rafmagnstengla.
- Leggið fatnað ekki yfir rafmagnsofna.
- Takið raftæki úr sambandi þegar sumarhúsið er yfirgefið.
Gas
- Ef gas er notað í eldhúsi hafið gasskynjara neðst á sökkli eldhúsinnréttingar.
- Látið fagmann sjá um frágang og staðsetjið gaskútinn utandyra í þar til gerðum skáp. Ef þess er ekki kostur þá má hafa að hámarki einn 11 kg kút inni í sumarhúsi. Þá er öruggast að hafa gaskútinn t.d. úr trefjaefni þar sem það springur ekki eins og járnkútarnir heldur myndast gat á trefjaefnið og gasið lekur út.
- Staðsetjið gasgrill ekki of nærri húsi né rúðum. Rúður geta sprungið út frá hitanum.
- Látið gaskút ekki standa undir heitu grilli nema í þar til gerðum skáp grillsins.
Nánari upplýsingar má finna í efni Eldvarnabandalagsins.
Vatnsvarnir í sumarhúsum
Vatnstjón í sumarhúsum verða helst á veturna þegar frýs í leiðslum, þær springa og svo þegar þiðnar þá lekur vatnið um sumarhúsið. Þetta eru gjarnan alvarleg tjón þar sem lekinn uppgötvast oft ekki fyrr en í næstu heimsókn í bústaðinn og þá hefur vatnið skemmt mikið út frá sér.
Almennt
- Ef bústaðurinn er óupphitaður þarf að tappa af vatnslögnum og salerni. Jafnframt er gott að setja frostlög í vatnslása og vatnssalerni.
- Vatnsinntak á helst að vera í sér rými utan hússins til þess að koma í veg fyrir tjón á öllu húsinu ef lagnir gefa sig þar.
- Gríðarlega mikilvægt er að skrúfa fyrir inntak heita og kalda neysluvatnsins og tæma viðtengd tæki t.d. með því að skrúfa frá einum vatnskrana inn í húsi þar til hann hefur tæmt sig. Þetta er vinnuregla sem allir ættu að temja sér í hvert sinn sem sumarhús er yfirgefið, allt árið um kring.
- Ef sumarhús er kynnt á veturna, þá er mikilvægt að fá upplýsingar um það ef verður rafmagns- og/eða heitavatnslaust. Slíkar upplýsingar er m.a. hægt að fá í gegnum öryggiskerfi. Breytingar á rafmagni eða heitavatnsrennsli geta gert það að verkum að kólnað getur fljótt í húsi. Bilanir geta jafnframt orðið á kerfum í kjölfarið og vissara fyrir sumarhúsaeigendur að ganga úr skugga um að allt sé í lagi ef rafmagn hefur farið af eða orðið heitavatnslaust í einhvern tíma.
Hitaveita
- Best er að hafa vatnsinntak í sér rými utan hússins til þess að koma í veg fyrir tjón á öllu húsinu ef lagnir gefa sig.
- Hitaveitur eru viðkvæmastar fyrir truflunum þegar frost eru mikil og vindkæling. Þá eru hús fljót að kólna ef kerfi stöðvast og frostskemmdir geta orðið. Þegar hlýnar koma skemmdirnar í ljós en þá þiðnar í lögnum og ofnum og vatnið byrjar að streyma.
- Lokað hringrásarkerfi er góð lausn til að koma í veg fyrir frostskemmdir. Þá fer heita vatnið ekki beint inn á ofnakerfið heldu er vatn og frostlögur á kerfinu og vatn frá hitaveitu sér um að hita það upp. Hlutfall frostlagar þarf að vera um þriðjungur að rúmmáli. Hringrásin er knúin áfram með dælu sem dælir frostlagarblöndunni um varmaskiptin, þar sem upphitun hennar fer fram, svo um ofnana eða gólfhitakerfið og til baka.
- Með tímanum getur virkni lokaða kerfisins minnkað nokkuð vegna gerlagróðurs í frostlegi. Til að koma í veg fyrir slíkt er ráðlegt að setja íblöndunarefni í frostlagarblönduna til að minnka gerlavöxtinn eins og kostur er. Einnig er ráðlegt að skipta öðru hvoru alveg um frostlagarblöndu á kerfinu eftir upplýsingum framleiðanda.
Neysluvatn
Mikilvægt er að fá viðurkennda lagnahönnuði og iðnmeistara til að ganga frá vatnskerfi sumarhúsa sem og íbúðarhúsa m.a. til að koma í veg fyrir tjón. Algengustu tjónin sem verða út frá neysluvatni í sumarhúsum er þegar tengi við blöndunartæki og klósett gefa sig og þegar blöndunartækin sjálf fara að leka.
- Lokið alltaf fyrir aðstreymi neysluvatns að sumarhúsum þegar ekki er dvalið í þeim og tæmið jafnframt vatn af lögnunum.
- Einfaldasta aðferðin til að gera þetta er að koma fyrir þrívega loka í einöngruðum brunni á frostfríu dýpi, þ.e. 0,8 - 1,2 m. Þessum loka er svo stjórnað með skafti sem stungið er niður í brunninn. Þegar lokað er fyrir aðstreymi vatns í húsið, opnast aftæming af neysluvatnskerfinu. Þá þarf aðeins að fara inn í húsið og opna krana til að vatnið flæði til baka úr lagnakerfinu.
- Í sumarhúsum sem margir nota eins og þar sem útleiga er getur verið gott að nota þrívega mótorloka og segulloka til að hleypa lofti inn á kerfið að ofan þegar aftæmingin opnast. Lokinn er þannig gerður að straumur er á honum þegar vatnið er á, en fari rafmagnið, eða slökkt sé á straumi að lokanum, fer vatnið af, aftæmingin opnast og segulloki hleypir lofti inn á kerfið að ofan. Þessum búnaði er stýrt af rofa sem best er að staðsetja innan við útidyr hússins.
- Ein aðferð enn er að loka segullokum sem staðsettir eru í lagnarými hjá forhitara. Einn segulloki er á hvoru neysluvatnsinntaki sem lokast er straumur rofnar, og einn segulloki á hvorri aftæmingu sem opnast er straumur rofnar. Einnig eru segullokar efst á kerfunum við straumleysi og opnast þeir til að hleypa lofti inn á kerfið. Þess má geta að starfsmannafélag VÍS hefur haft slíkan búnað í notkun um nokkurra ára skeið í sínum húsum, en vegna þess að þar ganga margir um er lykillinn að húsinu notaður til að stinga í rofann sem setur vatnið á, en þegar lykillinn er tekinn úr, fer vatnið af aftur.
Innbrotavarnir í sumarhúsum
Innbrot í sumarhús verða af og til. Oft er tjónið sem verður við innbrotið sjálft meira heldur en hlutirnir sem teknir eru. Sérstaklega á það við ef eigandi sumarhússins veit ekki af innbrotinu fyrr en einhverjum dögum eftir að innbrotið á sér stað og húsið stendur e.t.v. opið í þann tíma. Mikilvægt er því að huga að innbrotsvörnum í hvert sinn sem húsið er yfirgefið.
- Lokið og krækið aftur öllum gluggum.
- Læsið öllum hurðum.
- Látið verðmæti ekki sjást utan frá.
- Biðjið nágranna um að líta til með húsinu þegar enginn er í því.
- Takið niður tegund, raðnúmer og myndið verðmæt raftæki.
- Gott er að hafa útilýsingu með hreyfiskynjara.
- Leitist við að hafa ekki hluti úti við bústaðinn sem hjálpa til við innbrot.
- Geymið ekki aukalykil í kringum húsið eins og í blómapotti eða undir mottu nema í þar til gerðum lyklaskáp.
- Geymið ekki sláttuvél eða önnur verðmæt áhöld úti við.
- Geymið reiðhjól innandyra eða læsið þeim tryggilega.
- Lokið ávallt gluggum og læsið ökutækinu fyrir utan sumarhúsið.
- Hafið verðmæti eins og síma, leiðsögutæki, töskur og golfsett ekki sýnileg í bílnum.
- Hafið aðalhlið að sumarhúsahverfi eða að bústað og læsið því til þess að torvelda óviðkomandi akstur að húsinu.
Heitir pottar í sumarhúsum
Mikilvægt er að huga vel að börnum þar sem eru heitir pottar, sundlaugar, vötn, ár, skurðir, brunnir og aðrar vatnshættur. Muna verður að ung börn geta drukknað í 2-5 sm djúpu vatni og að drukknun er oftast hljóðlát. Við sumarhús eru víða heitir pottar. Þeir eru ýmist kynntir með rafmagni eða heitu vatni. Mikilvægt er að huga að öryggismálum við heita potta sérstaklega út frá börnum og hitastigi vatns.
- Látið fagaðila yfirfara lagnir.
- Hafið hitastýrð blöndunartæki á pottinum.
- Athuga hitastig pottsins áður en farið er í hann.
- Hafið armkúta á ósyndum börnum og leyfið þeim ekki að taka þá af sér á meðan þau eru í pottinum.
- Skiljið börn aldrei eftir ein í pottinum.
- Setjið ávallt lok yfir pottinn að notkun lokinni og læsið því.