Hoppa yfir valmynd
Forvarnir

Ferðalag í bíl

Að ferðast um landið er fyrir mörgum hápunktur sumarsins: að njóta samverunnar með fjölskyldunni og upplifa Ísland í sinni bestu mynd. Svo þú komist örugglega um landið þá erum við með góð ráð.

Raða farangri vel

Vissir þú að þyngd 10 kg tösku getur verið allt að 250 kg við árekstur á 50 km hraða?

Farangur ætti ekki vera laus í bílnum því ef skyndileg hreyfing á bílnum, eins og snögghemlun, skarpar beygjur eða í versta falli árekstur eða velta, verður þá getur þungur farangur valdið miklum skaða. Að raða þétt, festa farangurinn og nota þar til gerða farangurshlíf minnkar líkur á að hann fari á hreyfingu.

Koma sér örugglega fyrir

Það ættu allir að vita hversu lífsnauðsynleg bílbelti eru. Samt sem áður kemur fyrir að fólk losi um þau, sérstaklega á löngum ferðalögum, sem við mælum auðvitað gegn. Tryggja þarf  að börn séu í réttum öryggisbúnaði miðað við aldur og tékka ætti reglulega á því að allir séu  örugglega í belti og með beltið yfir öxlina.

Höfuðpúði kemur í veg fyrir eða minnkar líkur á slysum á hálsi og baki, sérstaklega við aftanákeyrslu. Svo hann geri sitt gagn þarf að stilla hann rétt. Púðinn og höfuðið skal vera með sama efsta punkt og ekki lengra en tveir til þrír sentimetrar á milli púða og höfuðs.

Sleppa takinu af símanum.

Það getur verið afar freistandi að taka upp símann þegar tilkynningar koma. Ef þú spilar tónlist eða hlaðvarp í gegnum símann þá er gott að setja það í gang áður en lagt er að stað. Til að koma í veg fyrir að freistast til að taka hann upp í akstri er hægt að setja hann á akstursstillingu (Driving Focus / Driving Mode) eða biðja farþega um að vera með símann.

Taka sér góðan tíma og njóta ferðalagsins

Njóttu þess að ferðast um Ísland og taktu þér góðan tíma á leiðinni. Þú sparar ekki margar mínútur með hraðakstri og það ekki þess virði að stressa sig yfir því í umferðinni.

VÍS ráð

Dekkin
Bílrúður
Ljósin
Dýrin
Eftirvagnar
Innbrot