Náttúruvá

Eldingar
Eldingar eru ekki tíðar hér á landi miðað við mörg nágrannalönd okkar. Hér verða þær aðallega samhliða þrumuveðri eða eldgosum. En þegar þær koma er full ástæða til að hafa varann á og fylgja varúðarleiðbeiningum.

Jarðskjálftar
Jarðskjálftar verða þegar jarðskorpan brotnar eða hrekkur til. Við höggið sem myndast breiðast jarðskjálftabylgjur út frá brotafletinum. Á vef Veðurstofu Íslands má sjá upplýsingar um jarðskjálfta sem verða á landinu. Flestir jarðskjálftar hérlendis eru það litlir að enginn verður var við þá nema skjálftamælar og því er áhugavert að sjá tíðni þeirra á korti Veðurstofunnar sem er uppfært á 5 mínútna fresti.

Flóð
Á hverju ári verða flóð hér á landi. Mismunandi er hvort um ræðir snjó-, sjávar- eða aurflóð. Mikilvægt er að hver og einn sé meðvitaður um um hætturnar á flóðum og leiti upplýsinga um möguleika á þeim eftir veðurfari sem verið hefur eða er spáð.

Eldgos
Mikilvægt er að við tökum fullt mark á viðvörunum sem settar eru fram í tengslum við eldgos þegar þau eru í gangi. Förum ekki inn á svæði sem eru lokuð og látum lögreglu vita ef við vitum um mannaferðir þar.
Þegar gos er í gangi er nauðsynlegt að við fylgjumst vel með fréttum og tökum mark á þeim ráðleggingum sem þar koma fram. Kynnum okkur hvort lokanir séu á vegum, hvort Almannavarnir hafi sent frá sér viðvaranir, hvort mengun sé til staðar og hver staða loftgæða sé.

Óveður
Veður hefur oft áhrif á plön fólks hér á landi. Flestir þekkja vel að vera sífellt að skoða veðurspá og færð og þurfa svo að breyta plönum þar sem ekki er öruggt að vera á ferðinni. Veðurstofan gefur út viðvaranir eftir litum út frá því hversu mikil áhrif veðrið getur haft. Mikilvægt er að taka mark á þeim og gera allt til að koma í veg fyrir tjón og slys.