Heilsa
Andleg heilsa
Andleg heilsa er ekki síður mikilvæg en líkamleg. Hún er þó ekki sjálfgefin frekar en líkamleg heilsa. Til einföldunar má ef til vill segja að þeir sem geta stundað sína vinnu, verið virkir þjóðfélagsþegnar, séð um sig sjálfir, lagað sig að aðstæðum og verið virkir í félagslegum samskiptum séu andlega heilir.
Svefn og hvíld
Reglulegur svefn og hvíld er okkur lífsnauðsynleg. Þótt hægt sé að stofna til skammtímaskuldar í þessum efnum gengur það ekki til lengdar. Athyglin skerðist, lífsgæði versna, þolinmæði minnkar, slysahætta eykst og andleg líðan versnar svo eitthvað sé nefnt. En fólk þarf mismikinn svefn. Börn á grunnskólaaldri þurfa alla jafna átta til ellefu tíma svefn en fullorðnir sjö til níu klukkustundir og styttist gjarnan eftir því sem fólk eldist.
Svefninn getur verið misgóður og veltur m.a. á hugarástandi okkar. Hann skiptist í nokkur stig og á nóttunni flökkum við á milli þeirra. Svefninn er misdjúpur á hverju stigi og mismunandi hvort okkur dreymir, hversu djúpt við öndum, hversu mikil vöðvaspennan er og hversu auðvelt er að vekja okkur.
Mataræði
Hollt, fjölbreytt og gott mataræði er okkur öllum nauðsynlegt en þarfir okkar eru misjafnar og þurfa allir að haga mataræði eftir þeim þörfum. Heilbrigður matur stuðlar að vellíðan ásamt því að draga úr mörgum heilsukvillum og fyrirbyggir aðra.
Hreyfing
Hreyfing er öllum nauðsynleg og ætti enginn að vanmeta mikilvægi hennar. Hreyfing hjálpar til að stuðla að bæði andlegu og líkamlegu heilbrigði. Í bæklingi Landlæknisembættisins Ráðleggingar um hreyfingu eru greinargóðar upplýsingar um hreyfingu.
Vímuefni
Ákjósanlegast væri að notkun á tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum væri ekki til staðar. Þjóðfélagslegur kostnaður vegna vímuefna er gríðarlegur og afleiðingar ofnotkunar eru oft alvarlegar og þá ekki eingöngu fyrir þá sem neyta þeirra heldur einnig þeim sem standa neytendunum nærri. Góðar upplýsingar um notkun áfengis, kannabisefna, örvandi efna, ofskynjunarefna, sprautufíkn, stera, sveppi og fleira er að finna á heimasíðu SÁÁ.