Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 23.07.2021

VÍS hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir Ökuvísi

Global Banking & Finance Review® verðlaunar VÍS fyrir framúrskarandi nýsköpun í þjónustu og vöruþróun

VÍS hlýtur erlend verðlaun fyrir eftirtektarverða nýsköpun í þjónustu og vöruþróun á meðal tryggingafélaga á Íslandi á árinu 2021 ─ en VÍS kynnti Ökuvísi til sögunnar fyrr á árinu. Ökuvísir er ökutækjatrygging þar sem hugmyndin er að umbuna fyrir góðan og öruggan akstur. Umfangsmikil vöruþróun átti sér stað á síðasta ári í samstarfi við viðskiptavini félagsins en markmiðið með Ökuvísi er að fækka bílslysum á Íslandi ─ samfélaginu til heilla.

Ökuvísir er byltingakennd nýjung hér á landi en viðskiptavinirnir stjórna ferðinni í fyllstu orðsins merkingu. Því betur og minna sem viðskiptavinir félagsins keyra, því minna borgar þeir. Viðskiptavinum er því umbunað fyrir góðan og lítinn akstur. Viðskiptavinirnir fá uppbyggilega endurgjöf í appinu eftir hverja ferð ─ og aksturseinkunnin byggir á eftirfarandi þáttum:

  • Hraða
  • Hröðun
  • Hraða í beygjum
  • Hemlun
  • Símanotkun undir stýri

Ökuvísir hefur fengið frábærar viðtökur hjá viðskiptavinum VÍS ─ en appið var það vinsælasta á Íslandi þegar það kom út.

Wanda Rich, ritstjóri Global Banking & Finance Review:
„Ökuvísir er ein frumlegasta nýjung á tryggingamarkaði sem ég hef orðið vitni að. Ökuvísir hefur alla burði til þess að umbylta hefðbundnum tryggingum. Ég hlakka því til að sjá fleiri byltingarkenndar nýjungar frá VÍS í framtíðinni.“

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:
„Við erum gríðarlega ánægð með hvernig til tókst með Ökuvísi og því er einkar ánægjulegt að fá viðurkenningu sem þessa. Framtíðarsýn félagsins er sú, að verða stafrænt þjónustufyrirtæki og Ökuvísir er mikilvæg varða á þeirri leið. Þessi viðurkenning hvetur okkur því áfram ─ og hvetur okkur líka til þess að halda áfram að breyta því hvernig tryggingar virka.” Um verðlaunin Frá árinu 2011, hefur Global Banking & Finance Review’s verðlaunað framúrskarandi fyrirtæki víðs vegar um heiminn. Nánari upplýsingar um verðlaunin má finna hér.