Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 09.08.2023

Birgir Örn mun leiða mótun áhættustýringar í sameinuðu félagi VÍS og Fossa

Birgir Örn Arnarson hefur verið ráðinn til að stýra áhættustýringu VÍS og leiða mótun áhættustýringar í hinu sameinaða félagi VÍS og Fossa.

Birgir Örn Arnarson stýrir áhættustýringu VÍS og leiðir mótun áhættustýringar samstæðu.

Sameinað félag verður öflugt fyrirtæki á fjármálamarkaði með víðtækar starfsheimildir til fjármálaþjónustu og breiðan viðskiptamannagrunn. Með því að sameina öfluga innviði félaganna; eiginfjárstöðu VÍS og sterka tengingu Fossa við fjármálamarkaði, fjárfesta sem og fyrirtækja, verður til félag sem skilar auknu virði til hluthafa. Fyrst um sinn verður VÍS móðurfélag Fossa en stefnt er að því að tryggingarekstur, fjárfestingarbanki og eignastýring verði saman undir einu móðurfélagi.

Hjá VÍS mun Birgir bera ábyrgð á samhæfðri áhættustýringu sem er grunnurinn af ákvarðanatöku í fjárfestingum og rekstri félagsins. Samhliða ráðningu Birgis verður gerð sú skipulagsbreyting hjá félaginu, að starf tryggingastærðfræðings tilheyrir nú sviði áhættustýringar.

Birgir hefur víðtæka og mikla reynslu á sviði áhættustýringar. Hann hefur meðal annars gegnt stöðu framkvæmdastjóra áhættustýringar (e. Chief Risk Officer) í PayPal Europe og yfirmanns lausafjárgreiningar í PayPal samstæðunni. Birgir starfaði einnig sem yfirmaður markaðsáhættugreiningar (e. Head of Market Risk Analytics) á fjárfestingasviði alþjóðlega tryggingafélagsins Zurich.

Birgir er með doktorspróf í kennilegri og hagnýtri aflfræði frá háskólanum í Bandaríkjunum. Hann er jafnframt með próf í verðbréfaviðskiptum. Hann hefur störf 15. ágúst.

Birgir Örn Arnarson, nýr áhættustjóri VÍS:

„Ég hlakka til að taka þátt í spennandi vegferð félagsins en sameiningin við Fossa og stofnun SIV eignastýringar fela í sér fjölbreytt tækifæri. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum og taka þátt í því að móta samstæðuna til framtíðar.“

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS:

„Það er mikill liðsstyrkur í Birgi sem reynslumikill stjórnandi á sviði áhættustýringar. Reynsla hans og menntun eiga eftir að leika mikilvægt hlutverk hjá VÍS á komandi misserum, ekki síst í þróun og mótun áhættustýringar hjá hinu sameinaða félagi VÍS og Fossa. Ég fagna komu Birgis til okkar í VÍS og hlakka virkilega til samstarfsins.“