Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 06.06.2021

Gjöf til íslenskra sjómanna

Á sjómannadaginn var sjómönnum færð vegleg gjöf frá VÍS því atvikaskráningarkerfið ATVIK-sjómenn var formlega afhent Rannsóknarnefnd samgönguslysa til eignar og reksturs.

Fremst sitja þau Hafdís Hansdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu hjá VÍS, og Þorkell Ágústsson, rekstrarstjóri Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Fyrir aftan frá vinstri; Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í forvörnum og hugmyndasmiður að ATVIK-sjómenn, Halldór Ármannsson, formaður Siglingaráðs, og Eggert Ólafsson, lögfræðingur siglingamála hjá samgönguráðuneytinu.

Undanfarin fimm ár hefur VÍS hannað og þróað atvikaskráningarkerfið ATVIK-sjómenn með það að markmiði að fækka slysum á sjó. Þetta er gjöf frá VÍS til íslenskra sjómanna, samfélaginu til heilla. Afhendingin fór fram um borð í skólaskipinu Sæbjörgu hjá Slysavarnaskóla sjómanna.

Þrátt fyrir góðan árangur síðustu ára í fækkun banaslysa á sjó, þá er enn talsvert langt í land að fækka slysum hjá sjómönnum. Að meðaltali eru 170 sjóslys tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands á hverju einasta ári. Hins vegar er það áhyggjuefni að einungis 30% þessara slysa eru tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa ─ sem einmitt hefur það hlutverk að rannsaka slysin, greina þau og koma með tillögur að forvörnum. Jafnframt hefur skort að atvik og óhöpp sem leitt geta til alvarlegra slysa séu tilkynnt sem skildi. Með virkri skráningu þeirra gefst betri kostur á fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum áður en alvarleg slys hljótast af.

Hreyfiafl í öryggismálum sjómanna

Frá árinu 2017, hefur atvikaskráningarforritið ATVIK-sjómenn verið mikilvægur hluti af rafrænu forvarnarstarfi VÍS í öryggismálum sjómanna. VÍS hefur verið á öflugri stafrænni vegferð undanfarin ár og stafrænar forvarnir eru mikilvægur hluti af starfsemi félagsins ─ en viðskiptavinir VÍS eiga að lenda sjaldnar í tjóni. Tilgangurinn með ATVIK er að fækka slysum til sjós og stuðla þar með að öruggari vinnuumhverfi um borð í fiskiskipum. Síðan VÍS hóf öflugt forvarnarsamstarf með útgerðunum árið 2009, hefur það verið leiðarljós félagsins að vera hreyfiafl í öryggismálum sjómanna og hjálpa útgerðunum að fækka slysum. Á fjórða tug fiskiskipa og um 800 sjómenn nýta sér nú ATVIK til þess að fá betri yfirsýn yfir öryggismálin og mögulegar hættur. Þannig skapast tækifæri fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir. Hægt er að skrá atvik og taka myndir í öllum snjalltækjum hvort sem er símum eða spjaldtölvum, hvar sem er um borð í fiskiskipum. Notkun ATVIKs hefur leitt til fækkunar á slysum, t.d. fallslysum, eftir ábendingar um hættur eða í kjölfar slysa.

Bylting fyrir sjómenn

VÍS hefur ákveðið að gefa Rannsóknarnefnd samgönguslysa ATVIK-sjómenn til þess að leggja sitt á vogarskálarnar til að fækka slysum á sjó. ATVIK-sjómenn er í raun bylting í öryggismálum sjómanna þar sem hægt verður að tilkynna slysin beint til Rannsóknarnefndar samgönguslysa með rafrænum hætti. Því verður ekkert til fyrirstöðu hjá útgerðunum að öll atvik, óhöpp og slys séu tilkynnt til nefndarinnar. Til verður einn sameiginlegur gagnagrunnur sem auðveldar alla greiningarvinnu. Gagnvirkt mælaborð veitir svo yfirsýn yfir öll skráð atvik og slys ─ sem eiga eftir að nýtast strax til að greina áherslur í forvörnum. Þetta þýðir jafnframt að allar útgerðirnar hafa aðgang að ATVIK til þess að fá yfirsýn yfir öryggismál um borð í sínum skipum. ATVIK-sjómenn gjörbreytir öllum möguleikum, árangri og gæðum öryggisstjórnunar til sjós. Jón A Ingólfsson, rannsóknarstjóri sjósviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir þetta vera bylting fyrir íslenska sjómenn. „Þetta er mjög rausnarleg gjöf og mun gjörbreyta öryggismálum hjá útgerðunum. Betri yfirsýn yfir hættur eru algert lykilatriði svo hægt sé að koma í veg fyrir slys. Þetta eru því bylting fyrir íslenska sjómenn.“

Fækkum slysum á sjó

Gísli Níls Einarsson, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS og hugmyndasmiður að ATVIK-sjómenn, er stoltur af gjöfinni. „Ég fyllist mikilli bjartsýni og stolti yfir þessari gjöf til Rannsóknarnefndar samgönguslysa og Samgöngustofu. Nú erum við að taka risastórt skref í átt til framtíðar með stafrænum forvörnum á sjó. Við erum í rauninni að taka öryggismenningu sjómanna upp á næsta stig ─ og fækka slysum á sjó. Við hjá VÍS erum gríðarlega stolt af því að gera lagt okkar af mörkum í öryggismálum sjómanna til framtíðar.”

Rannsóknarnefnd samgönguslysa mun formlega taka yfir alla hýsingu, rekstur, þjónustu og þróun á ATVIK-sjómenn með haustinu. Samgöngustofa mun taka þátt í uppfærslu kerfisins, viðhaldi og kynningu. Deloitte mun taka þátt í þarfagreiningu kerfisins án endurgjalds.