Verslunarmannahelgin verður með breyttu sniði í ár vegna Covid-19. Færri verða á ferðinni þar sem mörgum skipulögðum útihátíðum hefur verið aflýst og ber þar helst að nefna Þjóðhátíð í Eyjum. Margir koma samt saman til að njóta þessarar löngu helgar og gera eitthvað skemmtilegt, sama hvort það sé að fara í bústað, eitthvert að tjalda eða hvað það er sem hugurinn girnist. 

Við hvetjum alla til að ganga hægt um gleðinnar dyr, muna kurteisisbilið og þvo sér oft um hendurnar og spritta sig á almenningsstöðum vegna nýlegra Covid-19 smita.

Veðrið verður væntanlega ekki upp á marga fiska og geta eigendur eftirvagna, húsbíla og annarra stærri farartækja þurft að gera ráðstafanir vegna vindhviða. Allir vilja koma heilir heim og því þurfum við að sýna skynsemi í umferðinni. Nota öryggisbúnað og hafa hann rétt festan. Ökumenn að vera úthvíldir, án vímuefna og einblína á aksturinn. Virða hámarkshraða og sleppa framúrakstri þegar aðstæður eru varhugaverðar og sýna þolinmæði ef langar bílaraðir myndast.

Njótum þess að ferðast um landið og skiljum við það eins og þegar við komum að því, ef ekki betur.