
Kaskótrygging
Saman pössum við upp á bílinn þinn, hvort sem hann er tryggður með hefðbundinni kaskótryggingu eða kaskótryggingu Ökuvísis.
Hvernig virkar kaskótrygging?
- Þegar þú kaupir kaskótryggingu þá velur þú þína eigin áhættu. Það er sú upphæð sem þú greiðir ef þú lendir í tjóni. Við greiðum þann kostnað við tjónið sem er umfram upphæð eigin áhættu þinnar. Því hærri eigin áhættu sem þú velur þeim mun lægra verð greiðir þú fyrir trygginguna. Algengast er að viðskiptavinir okkar velji eigin áhættu á bilinu 90.000 - 140.000 kr.
- Eigin áhætta þín er sú sama í öllum kaskótjónum.
- Kaskótrygging gildir á Íslandi og á ferðalagi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Bretlandi og Sviss í allt að 92 daga frá brottfarardegi. Standi ferðalag lengur en í 92 daga er hægt að framlengja gildistímann gegn greiðslu.
Á yfirliti ökutækjatrygginga getur þú séð úr hvaða ökutækjatryggingum bótaskyld tjón eru bætt. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða í kaskó.

Tryggingin bætir
- Tjón á ökutækinu vegna skyndilegra, utanaðkomandi atvika sem ekki eru sérstaklega undanskilin í skilmála.
- Tjón vegna eldsvoða.
- Þjófnað og skemmdarverk á ökutækinu eða hlutum þess.
- Kostnað við björgun eða flutning á næsta viðgerðarverkstæði ef ökutækið verður óökuhæft vegna bótaskylds tjóns.
Tryggingin bætir ekki
- Tjón á undirvagni ef ekið er á landsvegum eða stofnvegum um hálendi og tjón sem má rekja til þessa.
- Tjón á yfirborði ökutækis vegna hefðbundins steinkasts af vegi. Með hefðbundnu steinkasti er átt við þann atburð þegar lausir steinar á vegi skjótast undan öðru ökutæki á hið tryggða ökutæki.
- Skemmdir á ökutækinu vegna þátttöku í aksturskeppni eða við æfingu í akstursíþrótt.
- Skemmdir á ökutækinu vegna gæludýra.
- Tjón á tengivögnum eða öðrum tækjum sem hafa verið tengd eða skeytt við ökutækið.
- Tjón vegna foks á lausum jarðefnum, t.d. sandi, möl eða mold.
- Ákomur á undirvagni, vél- og rafbúnaði, dekkjum eða felgum ökutækis sem rýra ekki notagildi.
Vinsamlegast athugaðu að upptalning hér að ofan er ekki tæmandi. Nánari upplýsingar er að finna í skilmálum tryggingarinnar.
Sé ósamræmi milli upptalningarinnar og skilmálanna þá gilda skilmálarnir.
Skilmálar, afslættir og aðrar upplýsingar
Tryggingaskilmálar eru samningur þinn við VÍS. Mikilvægt er að þú kynnir þér skilmálana vel og áttir þig á því hvað er bætt og hvað er ekki bætt, áður en tryggingin er tekin.
Í upplýsingaskjali er að finna stutta samantekt á helstu þáttum tryggingarinnar. Upplýsingaskjöl eru stöðluð skjöl sem öllum tryggingafélögum ber að birta og auðveldar þannig viðskiptavinum tryggingafélaganna að bera saman tryggingar og sjá hvað þær bæta og bæta ekki.