Nýtt skipurit og framkvæmdastjórn
Undanfarin misseri hefur rík áhersla verið á sókn hjá félaginu. Markmiðið er að veita framúrskarandi þjónustu ásamt því að tryggja arðsemi félagsins.
Skipuriti félagsins hefur nú verið breytt til þess að styðja enn betur við þá vegferð.
- Sala og þjónusta: Þjónusta, sala, markaðsmál og upplifanir, einstaklings- og fyrirtækjaviðskipti, stofnstýring og verðlagning tilheyra nú sviðinu sala og þjónusta. Sókn og sala, verðlagning og þjónusta eru nú á sama sviði. Markmið sviðsins er að tryggja framúrskarandi þjónustu og að viðskiptavinir VÍS séu með rétta og viðeigandi vernd.
- Tryggingar og tjón: Tjónadeildir, vöruþróun og viðskiptaumsjón tilheyra nú nýju sviði sem nefnist tryggingar og tjón. Markmið sviðsins er að þróa tryggingar með þarfir viðskiptavina að leiðarljósi og að vera traust bakland í óvissu lífsins, þannig að viðskiptavinir sem verða fyrir tjóni, fái sem bestu þjónustu við úrlausn sinna mála.
- Fjármál og tækni: Fjármál, stafrænar lausnir og upplýsingaöryggi tilheyra sviðinu fjármál og tækni. Þar sem viðræður standa yfir um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka er beðið með ráðningu á framkvæmdastjóra sviðsins. Reynir Jóhannsson, forstöðumaður fjármála, og Ingólfur Þorsteinsson, forstöðumaður stafrænna lausna, stýra daglegum rekstri deildanna.
- Viðskiptagreind: Þá verður einnig lögð áhersla á nýtingu gagna í ákvarðanatöku og að auka skilvirkni í starfsemi félagsins. Forstöðumaður viðskiptagreindar mun því taka sæti í framkvæmdastjórn.
Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn félagsins:
- Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu og þjónustu. Ingibjörg Ásdís var áður forstöðumaður markaðsmála og upplifana hjá VÍS en hún hóf störf hjá félaginu árið 2021. Áður starfaði hún meðal annars hjá Icelandair sem forstöðumaður þjónustu og notendaupplifana og sem svæðisstjóri flugfélagsins á Íslandi. Ingibjörg er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BS-gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla.
- Sindri Sigurjónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri trygginga og tjóna. Sindri starfar nú sem framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Expectus þar sem hann starfar við ráðgjöf og stefnumótun hjá mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins. Sindri er með meistaragráðu (M.Sc.) í aðgerðargreiningu frá London School of Economics og með BS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.
- Jón Árni Traustason, forstöðumaður viðskiptagreindar, mun taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Jón Árni hóf störf hjá VÍS árið 2018 en hann starfaði meðal annars áður hjá Skeljungi sem forstöðumaður upplýsingatækni og viðskiptagreindar. Jón Árni er með meistaragráðu (M.Sc) í fjármálastærðfræði frá háskólanum í Uppsala í Svíþjóð og BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands.
Auk fyrrgreindra sitja í framkvæmdastjórn Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri, og Anna Rós Ívarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs og menningar.
Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS:
„VÍS hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum. Nú tökum við næsta skref á þeirri vegferð þar sem við stóraukum áherslu á framúrskarandi þjónustu og sókn félagsins á landinu öllu. Það eru öflugir liðsmenn sem skipa nýja framkvæmdastjórn sem ég er fullviss um að eigi eftir að leiða félagið áfram til árangurs. Ég vil þakka öflugu starfsfólki VÍS fyrir frábært starf á óvenjulegum tímum og ég hlakka til komandi tíma.”