Skólar að hefjast
Nú eru skólarnir að byrja og ungt fólk í umferðinni. Tími sem ökumenn þurfa að vera á tánum. Vera meðvitaðir um að það geta verið nýliðar á ferðinni, einstaklingar sem eru ekki endilega með hugann við umferðina og geta tekið óvæntar og ófyrirséðar ákvarðanir.

Við hvetjum foreldra líka til að ræða við börn sín um öryggi þeirra á leiðinni í skólann. Það er ýmislegt sem gott er að fara yfir og ferðamátinn getur verið mismunandi. Hvort sem börnin ferðast á hjóli, vespu, hlaupahjóli, labbandi eða í bíl.
Nokkur atriði sem gott er að fara yfir:
- Hjálmur notaður og hann rétt stilltur.
- Gengið frá hjóli/hlaupahjóli/vespu á öruggan hátt.
- Sýnileiki tryggður með endurskini og/eða ljósum.
- Öruggasta leiðin í skólann valin með áherslu á þverun gatna.
- Vera viss um að aðrir vegfarendur viti af þeim þegar farið er yfir götu.
- Réttur öryggisbúnaður í bílnum miðað við aldur.
- Að heyrnartól taki ekki athyglina frá umferðinni.
- Að alltaf eigi að fara eftir umferðarreglum, en ekki bara þegar hentar.