Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 04.05.2021

Viðsnúningur í afkomu félagsins

VÍS birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs 29. apríl sl.

Helgi Bjarnason forstjóri VÍS

Helstu niðurstöður fyrsta ársfjórðungs

  • Hagnaður tímabilsins eftir skatta var 1.904 milljónir kr. samanborið við tap upp á 1.963 milljónir kr. á sama tímabili 2020
  • Afkoma af vátryggingarekstri tímabilsins var neikvæð um 405 milljónir kr. samanborið við 1.410 milljóna kr. neikvæða afkomu á sama tíma í fyrra
  • Samsett hlutfall fjórðungsins var 108% en var 126,5% á sama tíma í fyrra
  • Iðgjöld tímabilsins voru 5.520 milljónir kr. í samanburði við 5.558 milljónir kr. á 1F 2020
  • Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru 2.484 milljónir kr. en voru neikvæðar um 162 milljónir kr. á sama tímabili 2020

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Árið 2021 fór vel af stað í fjárfestingunum ─ en árangurinn í fjórðungnum er sá annar besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur ársfjórðungsins námu 2,5 milljörðum króna eða 5,8% nafnávöxtun yfir tímabilið. Gott gengi skráðra hlutabréfa skýra stærstan hluta góðrar afkomu en hlutabréfasafn félagsins hækkaði um 17,6%.  Fjárfestingaeignir í lok fjórðungsins voru 42 milljarðar króna. Ég er stoltur af góðri afkomu á fjórðungnum ─ en arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli er langt umfram markmið félagsins.

Hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2021 var 1,9 milljarður króna sem er viðsnúningur um tæpa fjóra milljarða borið saman við fyrsta ársfjórðung síðasta árs.

Almennt og yfirleitt eru fyrstu þrír mánuðir ársins í tryggingarekstri tjónaþungir ─ en gott tíðarfar og jákvæð áhrif faraldursins settu sitt mark á fjórðunginn. Þó hafa einstaka tjónsatburðir neikvæð áhrif á fjórðunginn sem gerir það að verkum að samsett hlutfall fjórðungsins er 108%. Á sama tímabili í fyrra var samsetta hlutfallið 126,5% ─ sem skýrðist þá að mestu leyti af styrkingu tjónaskuldar.

Mikilvægar vörður í vegferð félagsins

Við héldum áfram þeirri mikilvægu vinnu að marka skýra sýn og stefnu með stjórnendum félagsins. Við fórum yfir nýjar áherslur og markmið. Við vitum hvert við ætlum og hvernig ─ sem er mikilvægt leiðarljós til framtíðar.

Við höldum áfram að þróa stafrænu ferlana sem við höfum nú þegar kynnt til sögunnar ─ og auka það hlutfall sem fer í sjálfvirka afgreiðslu. Allt er þetta gert til þess að einfalda viðskiptavinum okkar lífið. Við vitum hvað tíminn er dýrmætur. Í upphafi árs kynntum við stolt til sögunnar Ökuvísi sem er byltingarkennd nýjung á íslenskum tryggingamarkaði. Appinu hefur verið vel tekið og var vinsælasta appið á Íslandi þegar það kom út. Við erum nú á hraðri leið í átt að framtíðarsýninni að vera stafrænt þjónustufyrirtæki ─ og Ökuvísir er mikilvæg varða á þeirri leið.

Við höfum sagt það áður en við ætlum að breyta því hvernig tryggingar virka. Það þýðir að við hugsum tryggingarnar upp á nýtt og höfum hugrekki til þess að breyta. Næsta varða á stafrænu vegferðinni okkar er breyta kaupferli líf- og sjúkdómatrygginga. Verkefnið er hafið og munum sem fyrr leita til viðskiptavina við þróun og hönnun á þessari nýju lausn. Við hlökkum til að segja nánar frá því.“

Nánari upplýsingar um uppgjör fyrsta ársfjórðungs má finna hér.


,