Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 03.06.2021

„Takk fyrir að hjálpa okkur að hjálpa öðrum“

─ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, en viðskiptavinir VÍS hafa nú safnað rúmum fimmtán milljónum króna sem fara í góð málefni.

Aftast eru þeir Guðmundur Óskarsson, markaðsstjóri VÍS, og Sveinn G. Þórhallsson frá VÍS. Í miðju frá vinstri eru Hjördís Ýrr Skúladóttir, form. stjórnar MS félagsins, Sveinn Guðmundsson, form. Hjartaheilla og Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri MS félagsins. Fremst frá vinstri eru Valgerður Hermannsdóttir varaform. Hjartaheilla og svo Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Undanfarið ár hafa viðskiptavinir VÍS haft val um að styrkja góðgerðarfélög þegar þeir kaupa líf og sjúkdómatryggingar á netinu. Fyrir hverja milljón, sem viðskiptavinur valdi í tryggingarfjárhæð, fóru 1.000 krónur til góðgerðarfélags. Styrkurinn kemur alfarið frá VÍS. Valið stóð á milli þriggja góðgerðarfélaga: Krafts, Hjartaheilla og MS-félagsins. Á rúmu ári söfnuðust 15.390.757 krónur.

15 milljónir á rúmu ári

VÍS styður heimsmarkmið númer þrjú sem beinir kastljósinu sínu að heilsu og vellíðan. Sérstök áhersla er lögð á öflugar forvarnir í nánu samstarfi við viðskiptavinina. Þess vegna gátu viðskiptavinir VÍS styrkt þessi góðu málefni þegar þeir keyptu líf- og sjúkdómatryggingar á netinu. Frá því samstarfið við góðgerðarfélögin hófst, sem var í lok mars á síðasta ári, hafa rúmar fimmtán milljónir króna safnast. Upphæðin skiptist á eftirfarandi hátt: Kraftur fær 7.800.673 kr., Hjartaheill fær 4.996.184 kr. og MS félagið fær 2.593.900 kr.

Guðmundur Óskarsson, markaðsstjóri VÍS, var ánægður með móttökurnar hjá viðskiptavinum VÍS. ,,Við erum virkilega stolt og þakklát fyrir hversu vel viðskiptavinir okkar tóku þessu framtaki. Enginn býst við því að missa heilsuna en staðreyndin er sú að allir geta lent í því. Líf- og sjúkdómatryggingar eru því mikilvægar til þess að draga úr fjárhagslegum afleiðingum þess að veikjast alvarlega. Við erum viss um styrkurinn nýtast vel í því mikilvæga starfi sem góðgerðarfélögin sinna ─ og erum stolt af því að geta lagt okkar að mörkum, ekki síst í þegar þrengir að rekstrarumhverfi góðgerðarfélaganna í heimsfaraldrinum. Styrkurinn er því vonandi byr undir báða vængi hjá öllum félögunum.

Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, var ánægð með stuðninginn. „Það er frábært þegar fyrirtæki eins og VÍS sýnir samfélagslega ábyrgð í verki og lætur gott af sér leiða til mikilvægra málefna. Sérstaklega í ljósi þess að einstaklingar sem greinast með krabbamein, taugasjúkdóma og hjartasjúkdóma eiga oft erfiðara með að sjúkdómatryggja sig eftir á. Við erum einstaklega þakklát fyrir þetta rausnarlega framlag sem mun svo sannarlega nýtast í þágu ungs fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra. Takk fyrir að hjálpa okkur að hjálpa öðrum.”