Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 20.03.2020

Mikil hláka framundan

Mikilvægt er að tryggja að vatn hafi greiða leið þegar snjórinn fer að bráðna á sunnudaginn. „Á morgun, laugardag, á að snjóa vestanlands með hægum vindi“ segir Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni. Um miðjan dag á sunnudag nálgast svo önnur lægð og fylgir henni hláka.

Nýfallni snjórinn á klakanum bráðnar fljótt og áköf rigning um tíma mun valda talsverðum vatnavexti, sérstaklega suðvestan- og vestanlands „ segir hann jafnframt Við mælum því með að huga að niðurföllum, ekki síst á svölum og í kjöllurum. Mikilvægt er að moka snjó af svölum og frá húsveggjum, þar sem hægt er.

Mikill snjór, svo sem fyrir vestan og norðan, sýgur í sig vatn og þyngist því töluvert. Þetta gæti valdið vanda á húsþökum og þakkantar geta gefið sig. Bílar geta skemmst ef hengjur falla á þá og hætta getur skapast ef snjór fellur á einstaklinga. Vekja ætti athygli barna á hættunni, að þau séu ekki að leik undir snjóhengjunum. Gott væri að losa um snjóhengjur án þess þó að setja sig í hættu.