Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 20.05.2019

Hjálmanotkun áfram nokkuð góð

Síðustu ár hefur VÍS gert könnun á notkun hjálma hjá hjólreiðafólki í Reykjavík í tengslum við Hjólað í vinnuna. Á dögunum var slík könnun gerð og var 90% hjólreiðafólks með hjálm á höfði. Síðustu fimm ár hefur þetta hlutfall verið á bilinu 88% til 92%.

Fjöldi hjólreiðafólks í könnuninni var 725 og er það töluverð fjölgun frá því í fyrra er 407 fóru fram hjá talningafólki en það er nokkuð í takt við fjölgun þátttakenda á milli ára í Hjólað í vinnuna.

Sýnileikafatnaður hefur einnig verið skráður og var rúmlega þriðjungur hjólreiðafólks í slíkum fatnaði. Jákvætt er að sjá að hjólreiðafólk hugi að sýnileika þar sem mörg hjólreiðaslys verða þegar aðrir vegfarendur sjá hjólreiðamenn ekki í tæka tíð.

Þrátt fyrir að höfuðhögg séu ekki algengustu áverkarnir þá sýna erlendar rannsóknir að í alvarlegustu slysunum verða höfuðhögg og að notkun hjálma minnki líkur á þeim um allt að 79%. En til að svo megi vera verður hjálmurinn að vera í lagi, af réttri stærð og rétt stilltur. Almennt er líftími hjálma fimm ár frá framleiðsludegi og þrjú ár frá söludegi og verður hann að sitja beint ofan á höfði, eyrun að vera í miðju V-formi bandanna og einungis einn til tveir fingur eiga að komast undir hökubandið.