Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 31.01.2018

Umhleypingar í veðri

Aðfaranótt föstudags má búast við töluverðum vatnselg í öllum þéttbýliskjörnum sunnan- og vestanlands með hættu á að vatn finni ekki réttar leiðir og berist inn í hús og skapi þar tjón sem eru yfirleitt ekki bótaskyld.

Annað kvöld brestur á með SA-stormi og hríðarveðri, einkum eftir kl. 21 um allt vestanvert landið. Um miðnætti hlánar svo og gerir um 5 stiga hita um nóttina, frá miðnætti til um kl. 08 um morguninn, þegar kólna fer aftur. Talsvert rignir á þessum tíma og þar sem nokkur snjór er til staðar, 5-10 cm, má búast við töluverðum vatnselg í öllum þéttbýliskjörnum sunnan- og vestanlands með hættu á að vatn finni ekki réttar leiðir og berist inn í hús og skapi þar tjón sem eru yfirleitt ekki bótaskyld.

Við hvetjum alla til að nota góða veðrið í dag til að hreinsa frá niðurföllum, taka snjó af svölum og búa til rásir fyrir vatnið svo það komist sína leið. Ekki tekur jörðin við því eins frosin og hún er.

Ekki verður eins mikill bloti fyrir norðan en búast má við að enn hálla verði þar fyrir gangandi þó mörgum finnist nóg um eins og staðan er í dag. Þá er gott að vera vel skóaður og með brodda.


,