Sjáumst á leiðinni í skólann
Sigrún A. Þorsteinsdóttir sérfræðingur VÍS í forvörnum segir að árlega slasist um 120 grunnskólabörn í umferðinni.
Sigrún A. Þorsteinsdóttir sérfræðingur VÍS í forvörnum segir að í upphafi skólaárs sé mikilvægt að yfirfara sýnileika barna á leið í skóla. Bæði með endurskini og ljósum á hjóli og rafhlaupahjóli og þar þurfi auðvitað rétt stilltur hjálmur líka að vera til staðar. Hún hvetur viðskiptavini VÍS til að ná sér í ókeypis endurskinsmerki í VÍS appinu eða á næstu þjónustuskrifstofu.
Það getur oft myndast mikil umferð við skóla á morgnana, bæði bílaumferð og gangandi vegfarendur. Endurskinsmerki auka sýnileika í skammdeginu og draga úr hættu á að ekið sé á vegfarendur. „Eins sjáum við oft símann taka athygli bílstjóra sem er ekki gott og það á líka við um krakkana, þau eru oft í símanum á leiðinni í skólann og það tekur athygli þeirra frá umferðinni” segir Sigrún.
Öruggasta leiðin ekki alltaf stysta leiðin
Hvort sem að börn fara gangandi, hjólandi, á hlaupahjóli eða rafhlaupahjóli í skólann þá skiptir máli að velja öruggustu leiðina - og það er ekki endilega stysta leiðin. Sigrún segir að árlega slasist um 120 grunnskólabörn í umferðinni en við viljum engin slys og því eru forvarnir svo mikilvægar. „Það breytir svo miklu að við tökum spjallið við börnin okkar um þessi mál svo þau séu upplýst og viti hvar helstu hætturnar eru, t.d. þegar farið er yfir götur og bílastæði“ segir Sigrún.
Öryggi barna í bílum
„Ef farið er í bíl þá skiptir öllu að vera með réttan öryggisbúnað miðað við aldur. Börn eiga að nota bílstól a.m.k. þar til þau hafa náð 135 sm hæð en því miður er oft veittur afsláttur af því og krökkum leyft að vera eingöngu í bílbelti áður en þeirri hæð er náð. Eins finnst krökkum oft spennandi að sitja í framsæti en börn eru best varin í aftursæti fram að 12 ára aldri og þau mega alls ekki sitja fyrir framan virkan loftpúða í framsæti fyrr en þau hafa náð 150 sm hæð” segir Sigrún að lokum.