Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 28.11.2024

Iðgjald til Náttúruhamfaratrygginga Íslands hækkar frá 1. janúar 2025

Meðal þeirra gjalda sem innheimt eru samhliða brunatryggingaiðgjöldum hjá almennu vátryggafélögunum (Sjóvá, TM, Verði og VÍS) er lögbundið iðgjald sem rennur til Náttúruhamfaratryggingar Íslands (NTÍ).

NTÍ er opinber stofnun sem hefur það hlutverk að vátryggja húseignir og brunatryggt lausafé, þ.m.t. innbú gegn tjóni af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Iðgjaldið hefur í áratugi verið innheimt óháð áhættu, af eignum um allt land sem fast hlutfall af brunabótamati húseigna og vátryggingarfjárhæðum lausafjár.

Atburðirnir sem átt hafa sér stað á Reykjanesi á síðasta ári hafa haft veruleg áhrif á fjárhagslega getu NTÍ til þess að standa undir þeim vænta tjónskostnaði sem ætla má að geti orðið í framtíðinni af völdum náttúruhamfara. Með hagsmuni almennings og fyrirtækja að leiðarljósi er mikilvægt að tryggja að NTÍ geti staðið við lagalegar skuldbindingar sínar þegar stór áföll dynja á Íslandi af völdum náttúruhamfara sem valda tjóni á vátryggðum húseignum og lausafjármunum.

Af þeim sökum hefur Alþingi samþykkt breytingu á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, sem felur í sér heimild stofnunarinnar til þess að hækka tímbundið iðgjöld um 50%, en þó að hámarki til ársins 2035. Sú heimild verður nýtt og iðgjöld til NTÍ innheimt samhliða brunatryggingariðgjöldum með 50% álagi, frá og með 1. janúar 2025.

Sem dæmi um áhrif þessara breytinga, mun iðgjald til NTÍ af 80 milljón króna eign hækka úr kr. 20.000 á ári í kr. 30.000 á ári og iðgjald af innbústryggingu á 20 milljón króna innbúi mun hækka úr kr. 5.000 í kr. 7.500 á ári.

Tilkynning frá NTÍ vegna hækkunar iðgjalda.