Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 07.07.2023

VÍS og Netpartar stytta biðtíma eftir varahlutum með umhverfisvænu samstarfi

VÍS hefur hafið samstarf við Netparta, sem er umhverfisvæn endurvinnsla bifreiða, til þess auka framboð varahluta í bílaviðgerðum.

Frá vinstri: Björk Theódórsdóttir, forstöðumaður munatjóna hjá VÍS, Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta og Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS.

Mikil bið hefur verið eftir nýjum varahlutum undanfarna mánuði, sem er ekki einungis vandamál hér á landi heldur víða um heim. Með þessu vill VÍS stytta biðtíma fyrir viðskiptavini sína eftir varahlutum, en einnig leggja sitt af mörkum í þágu hringrásarhagkerfisins og minnka kolefnissporið í bílaviðgerðum. Eingöngu verða notaðir bílavarahlutir frá Netpörtum, sem eru jafngamlir eða yngri en viðgerðarbíllinn, og hafa hlotið viðeigandi meðhöndlun samkvæmt ISO umhverfis- og gæðavottun.

Samstarf VÍS og Netparta felst í kaupum á nýlegum tjónabílum til niðurrifs til þess að auka framboð af notuðum varahlutum. Netpartar hafa þegar fengið 45 bíla í niðurrif sem gefa af sér um 10.000 varahluti. Notaðir varahlutir hafa verið nýttir við bílaviðgerðir til margra ára hér á landi, en undanfarin 30 ár hefur VÍS selt um 1.000 tjónaða bíla á ári þar sem bílarnir eru ýmist lagfærðir eða bútaðir í sundur til þess að gefa varahlutum framhaldslíf.

Með þessu samstarfi er ætlunin að fara að dæmi tryggingafélaga á Norðurlöndunum sem hafa einblínt á að auka og mæla notkun notaðra varahluta í þágu hringrásarhagkerfisins og minna kolefnisspors og ekki síst styttri biðtíma eftir hlutum. Áætluð notkun notaðra varahluta hér á landi í bílaviðgerðum er um 2% á meðan hlutfallið er um 15% í Svíþjóð. Eitt af sjálfbærnimarkmiðum VÍS er að auka notkun hlutfall notaðra varahluta í bílaviðgerðum.

Spurningar og svör um samstarf VÍS og Netparta

Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS:

„Við erum svakalega stolt af þessu samstarfi, en í Svíþjóð til að mynda hefur samstarf tryggingafélaga og partasala lengi verið þekkt. Framboð varahluta hér á landi hefur verið ábótavant sem hefur þýtt lengri biðtíma í bílaviðgerðum hjá viðskiptavinum okkar. Með þessu samstarfi erum við að bæta þjónustu og stytta biðtíma, en á sama tíma að hugsa vel um umhverfið okkar. Við erum stolt af því að hafa farið þessa leið, en við vonum að sjálfsögðu að hin tryggingafélögin fylgi okkar góða fordæmi. Aðalheiður og hennar fólk hjá Netpörtum hafa verið að gera frábæra hluti og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“

Aðalheiður Jacobsen, eigandi og framkvæmdastjóri Netparta:

„Notkun á notuðum varahlutum á Íslandi hefur verið sláandi lítil miðað við það sem við sjáum frá Svíþjóð. Með því að efla gagnsæi og traust um notaða varahluti sem og auka framboðið á þeim verður bæði sjálfsagðara og einfaldara að velja þann kost umfram nýjan. Við erum hæstánægð með samstarfið við VÍS, en það styður við sjálfbærni og eykur hlutfall notaðra varahluta í viðgerðum, sem er mjög jákvætt. Sífellt erfiðara er að fá varahluti til landsins og það er betra fyrir umhverfið að nýta þær auðlindir sem við höfum aðgang að hér heima. Í þessu skyni höfum við líka opnað vefverslun með notaða varahluti til að bæta aðgengi og afgreiðslu þeirra. Þetta ýtir undir að þeir séu raunverulegur valkostur þegar kemur að bílaviðgerðum.”

Um Netparta

Netpartar ehf. er umhverfisvæn endurvinnsla bifreiða og verslun með notaða varahluti. Í starfi Netparta felst öll almenn þjónusta við umhverfisvænt niðurrif og förgun ökutækja ásamt flokkun og sölu notaðra varahluta. Fyrirtækið vinnur að því að hámarka umhverfisvæna endurvinnslu og endurnýtingu sem stuðlar að minni sóun, betra umhverfi og loftslagi. Núna er hægt að endurvinna um 85% af bifreið, en markmiðið er að ná viðmiði Evrópusambandsins sem er 95%. Netpartar er leiðandi í umhverfisvænni endurvinnslu á bifreiðum og hefur hlotið umhverfis- og gæðavottun (ISO 14001 og 9001). Þá hlutu Netpartar verðlaun Samtaka atvinnulífsins fyrir framtak ársins í umhverfismálum árið 2020, en eitt af markmiðum Netparta er að efla vitund og traust um notkun notaðra varahluta í bílaviðgerðum. Netpartar var stofnað árið 2009 og er staðsett rétt fyrir utan Selfoss. Eigandi og framkvæmdastjóri Netparta er Aðalheiður Jacobsen, en hjá fyrirtækinu starfa átta manns.