Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 08.02.2023

Rafeyri hlýtur Forvarnaverðlaun VÍS

Öryggismál og forvarnir voru til umræðu á Forvarnaráðstefnu VÍS sem fram fór í Hörpu í dag. Yfirskriftin var ,,Hvernig mætum því óvænta — af öryggi.“ Ráðstefnan, sem var fyrst haldin árið 2010, hefur skipað sér sess sem einn fjölsóttasti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. Fjölmennt var á ráðstefnunni en á þriðja hundrað hlýddi á erindi sérfræðinga og stjórnenda sem deildu reynslu sinni af forvörnum og öryggismálum.

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, ásamt Hannesi Garðarssyni, skrifstofu-, öryggis- og gæðastjóra Rafeyris, Kristni Hreinssyni, framkvæmdastjóra Rafeyris og Guðmundi Ólafssyni, forstöðumanni fyrirtækjaviðskipta VÍS.

Forvarnaverðlaun VÍS voru einnig afhent í dag en verðlaunin hlýtur það fyrirtæki sem þykir skara fram úr í öryggismálum og er öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd. Verðlaunað er fyrir sterka öryggismenningu þar sem unnið er markvisst í að efla öryggisvitund og öryggishegðun. Að þessu sinni hlaut rafverktakinn Rafeyri forvarnaverðlaun VÍS.

Rík öryggismenning hjá Rafeyri

Stjórnendur Rafeyrar eru meðvitaðir um hvaða öryggismenning ríkir innan vinnustaðarins og hvaða áhrif þeir hafa á hana. Öryggisstjórnun innan fyrirtækisins á sér djúpar rætur og nær í gegnum alla starfsemina. Rík áhersla er lögð á að allt starfsfólk sé meðvitað um áhættuþætti í umhverfinu með öryggis-og forvarnarþjálfun. Starfsfólk er metið út frá kunnáttu og þekkingu. Það fær svo ákveðna einkunn í kerfi sem Rafeyri hefur þróað og aðlagað að starfseminni. Þannig er tryggt að réttur einstaklingur sé valinn í verkefnin, s.s. að hann sé með rétta kunnáttu og þekkingu.

Einnig hefur Rafeyri þróað app fyrir verkfærin sem heldur utan ástand þeirra. Með því er tryggt að öryggið sé í fyrirrúmi, þ.e. að öll verkfæri séu í góðu ásigkomulagi og endurnýjuð á réttum tíma. Tíðni vinnuslysa á starfsfólki Rafeyrar er með því lægsta sem sést hjá VÍS allt frá upphafi — en Rafeyri hefur verið í viðskiptum hjá VÍS í tæp 30 ár.

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS:

„Það er okkur mikill heiður að verðlauna viðskiptavini okkar sem skara fram úr í öryggismálum og eru öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd. Við viljum styðja viðskiptavini okkar við að skapa sterka og öfluga öryggismenningu. Því við vitum árangur í öryggismálum er ekki heppni — heldur ákvörðun.“