Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 18.01.2023

Mikilvægt að undirbúa sig fyrir hlákuna

Á föstudag er spáð miklum hlýindum og allt að 10°C, nokkuð hvössum vindi og rigningu á suður og vesturlandi. Við þessar aðstæður má búast við mikilli hláku og asahláku þar sem rignir.

Mjög sleipt verður á klakanum, vatnselgur víða og hætta á að vatn leki inn í hús, sér í lagi ef forvörnum er ekki sinnt.

Við hvetjum þig til að bregðast við eins og kostur er og hafa eftirfarandi í huga:

  • Moka frá niðurföllum og tryggja að vatn eigi greiða leið. Reykvíkingar geta séð staðsetningu niðurfalla á Borgarvefsjá og svo er líka oft hægt að sjá þau á myndum ja.is.
  • Moka snjó frá húsveggjum, af svölum og pöllum.
  • Tryggja að frárennsli frá þökum og þakrennum sé í lagi.
  • Ná niður grýlukertum og snjóhengjum af húsþökum þar sem hægt er, annars afmarka svæði fyrir neðan með keilum og borða.
  • Leggja bíl ekki við hús þar sem hætta er á að snjór komi niður af þaki né leyfa börnum að vera þar að leik.
  • Vera meðvituð um hvort snjóhengjur séu þar sem þú gengur.
  • Fara varlega sama hvort er gangandi, hjólandi eða keyrandi þar sem snjór og klaki er til staðar eins og á stígum, götum og bílastæðum.
  • Draga úr hraða bíls ef vatnsrásir eru á götum til að minnka líkur á að hann fljóti upp og vatn byrgi sýn.