Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 03.11.2023

Tjón af völdum jarðskjálfta og eldgosa

Hér er að finna gagnlegar upplýsingar um hvernig tryggingar taka á tjónum af völdum jarðskjálfta og eldgosa.

Jarðskjálftar í og við Reykjanes þann 3. nóvember 2023

Er húsið mitt tryggt ef það verður tjón af völdum eldgoss? 

Já, Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) bætir tjón á húseignum vegna eldgoss og jarðskjálfta en eignirnar þurfa að vera brunatryggðar hjá tryggingafélögunum. Brunabótamat segir til um hámarks tryggingarfjárhæð. Á vis.is er hægt að nálgast upplýsingar um tryggingarfjárhæð fasteignarinnar með því að skoða brunatrygginguna eða á fasteignaskrá Húsnæðis og mannvirkjastofnunar. Tjón er tilkynnt á síðu NTÍ.  

Hvað með innbúið? Er það tryggt? 

NTÍ bætir einnig tjón á innbúi og öðrum lausamunum ef heimilis- eða lausafjártrygging er til staðar. Ef þú ert með heimilistryggingu, F plús fjölskyldutryggingu eða lausafjártryggingu þá er innbúið brunatryggt og þar af leiðandi bætir NTÍ það. Þú getur séð upplýsingar um tryggingarfjárhæð innbúsins með því að skrá þig inn á vis.is og skoða heimilistrygginguna eða F plús trygginguna þína. 

Hvernig veit ég hvort ég sé rétt tryggður? 

Þú getur nálgast yfirlit yfir þínar tryggingar með því að skrá þig inn á vis.is  

Mikilvægt er að vera brunatryggður, en þá bætir NTÍ tjón á húseignum og innbúi vegna eldgoss og jarðskjálfta. Ef þú ert með heimilistryggingu, F plús fjölskyldutryggingu eða lausafjártryggingu þá er innbúið brunatryggt og tjónið bætt hjá NTÍ. 

Við erum til staðar í síma, netspjalli, tölvupósti og á skrifstofum okkar og við veitum ráðgjöf varðandi tryggingavernd. Ef þú ert óviss, þá geturðu alltaf hringt í okkur í síma 560-5000 eða sent okkur tölvupóst á vis@vis.is ert líka velkomin/n til okkar í kaffi og spjall. Við skulum fara yfir tryggingarnar með þér. 

Ég uppfærði tryggingarnar mínar nýlega. Eru þær ekki örugglega í gildi? 

Jú, þær eru í gildi. Samkvæmt tilkynningu frá NTÍ kemur fram að ekki er hægt að breyta tryggingunum sínum eða gera nýja tryggingasamninga um eignir á hættusvæðum eftir að búið er að lýsa yfir neyðarástandi almannavarna.  

Starfsfólk VÍS var í Grindavík miðvikudaginn 8. nóvember, fimmtudaginn 9. nóvember og föstudaginn 10. nóvember til þess að aðstoða Grindvíkinga að fara yfir tryggingarnar sínar. Neyðarstigi almannavarna var svo lýst yfir síðdegis föstudaginn 10. nóvember. 

Hvað með bílinn minn? 

Ökutæki sem skilin voru eftir við rýmingu í Grindavík þurfa að vera með brunatryggingu ökutækja, ekki er nóg að hafa kaskó, til þess að tjón fáist bætt frá NTÍ ef til eldgoss kemur. Ekki er hægt að gera breytingar á tryggingunum sínum, til dæmis að brunatryggja bílinn sinn, eftir að almannvarnir lýstu yfir neyðarstigi þann 10. nóvember síðastliðinn.   

Hvað með reksturinn minn? Gildir rekstrarstöðvunartrygging í þessum aðstæðum? 

Því miður fellur tjón af völdum eldgoss eða náttúruhamfara ekki undir rekstrarstöðvunartryggingu hvorki hjá VÍS eða NTÍ. 

Get ég fengið aðstoð við að meta tryggingarnar mínar? 

Alveg sjálfsagt, en líkt og kom fram í tilkynningu frá NTÍ þá er ekki hægt að breyta tryggingum eða kaupa nýjar, á þeim svæðum þar sem það er í gildi, eftir að búið er að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna, sem var gert síðdegis föstudaginn 10. nóvember. Sláðu endilega á þráðinn til okkar í síma 560-5000, kíktu á netspjallið eða sendu okkur tölvupóst á vis@vis.is. Svo ertu velkomin/n í kaffi til okkar.  

Við tökum vel á móti þér.