Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 02.08.2023

Brynjar Þór nýr fjármálastjóri sameinaðs félags VÍS og Fossa

Brynjar Þór Hreinsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri sameinaðs félags VÍS og Fossa.

Brynjar Þór Hreinsson, fjármálastjóri sameinaðs félags VÍS og Fossa.

Brynjar hefur mikla reynslu af innlendum fjármálamarkaði en hann hefur frá árinu 2018 starfað sem forstöðumaður eignastýringar Stapa lífeyrissjóðs. Þar áður var hann forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslenskum verðbréfum og forstöðumaður eignastýringar hjá Straumi fjárfestingarbanka. Brynjar hefur auk þess fjölbreytta reynslu af störfum erlendis m.a. sem forstöðumaður á lánasviði Straums-Burðarás og verið búsettur í London þar sem hann var framkvæmdastjóri eignaumsýslu ALMC ásamt því að vera framkvæmdastjóri CB Holding, sem var um tíma stærsti eigandi West Ham United.

Brynjar Þór er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, próf í verðbréfaviðskiptum og BS-gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla.

Sameinað félag öflugt á fjármálamarkaði

Hluthafar VÍS samþykktu kaupin á Fossum 14. júní sl. en kaupin voru háð fyrirvörum sem nú hefur öllum verið aflétt fyrir utan fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands fyrir því að VÍS fari með virkan eignarhlut í Fossum fjárfestingarbanka hf. og Glym hf., og yfir 30% eignarhlut í T plús hf.

Brynjar Þór mun bera ábyrgð á fjármálum samstæðu ásamt því að taka virkan þátt í viðskiptaþróun sameinaðs félags. Brynjar mun jafnframt taka sæti í framkvæmdastjórn þess. Haraldur Þórðarson mun stýra rekstri samstæðunnar, Guðný Helga Herbertsdóttir tryggingarekstrinum, Steingrímur Arnar Finnsson fjárfestingarbankastarfseminni og Arnór Gunnarsson SIV eignastýringu.

Sameinað félag verður öflugt fyrirtæki á fjármálamarkaði með víðtækar starfsheimildir til fjármálaþjónustu. Sameinað félag byggir á 106 ára sögu, breiðum viðskiptamannagrunni, sterkum efnahagi og er með víðtæk tengsl við atvinnulíf og fjármálamarkaði. Þetta eru öflugir innviðir fyrir framúrskarandi þjónustu á sviði trygginga, fjárfestingarbanka, einkabanka, sjóða- og eignastýringar og annarrar sérhæfðrar fjármálaþjónustu.

Brynjar Þór Hreinsson, nýr fjármálastjóri sameinaðs félags VÍS og Fossa:

„Framundan eru spennandi tímar hjá VÍS í kjölfar stofnunar SIV eignastýringar og sameiningar við Fossa fjárfestingarbanka. Samstæða þessara öflugu félaga býður upp á fjölmörg tækifæri til vaxtar á trygginga- og fjármálamarkaði. Ég er stoltur að taka við starfi fjármálastjóra samstæðunnar og fullur tilhlökkunar að vinna með framúrskarandi starfsmönnum félaganna að áframhaldandi vegferð og sókn þeirra.”