Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 22.06.2020

Vegna jarðskjálfta á Norðurlandi

Jarðskjálftahrina hefur staðið yfir norðaustur af Siglufirði og ekki hægt að útiloka að enn stærri skjálftar verði næstu daga. Í ljósi þess viljum við koma til þín upplýsingum um tryggingar og hvað þú getir gert til að auka öryggi þitt við þessar aðstæður.

Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir tjón á öllum brunatryggðum fasteignum sem verða fyrir tjóni vegna jarðskjálfta. Hún bætir einnig tjón á innbúi ef brunatrygging er til staðar, eins og í öllum F plús fjölskyldutryggingum.

Stærsta þjónustuskrifstofan okkar er á netinu og er opin allan sólarhringinn. Þar er meðal annars hægt að sjá yfirlit yfir tryggingarnar. Við hvetjum þig til þess að fara vel yfir tryggingarnar þínar og athuga hvort þær endurspegli raunverulegt verðmæti þess sem þær eiga að tryggja.

Ef einhverjar spurningar vakna, þá erum við til staðar á netspjallinu. Einnig er hægt að senda okkur tölvupóst á vis@vis.is og hringja til okkar í síma 560-5000.

Til þess að auka öryggið á heimilinu er gott að hafa í huga:

  • Að festa skápa og hillur við vegg.
  • Hafa ekki þunga hluti ofarlega í hillu.
  • Festa sjónvörp við borð eða veggi.
  • Hafa rúm ekki undir gluggum nema öryggisfilma sé á rúðu.
  • Festa myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur.
  • Setja öryggislæsingar á skápa til að varna því að brothættir hlutir detti út úr þeim.
  • Fara vel yfir með fjölskyldunni hvar vatnsinntak hússins er og hvernig á að skrúfa fyrir.
  • Hafa búnað eins og sjúkragögn, langbylgju útvarp með rafhlöðum, vasaljós, teppi, vasahníf, upplýsingar um Neyðarlínuna 112 og aukalykla að bíl, sumarbústað eða öðrum stað sem fjölskyldna hefur aðgang að.
  • Kannaðu hvar næsta fjöldahjálparstöð er.

Farðu vel yfir rétt viðbrögð með fjölskyldunni:

  • Gott er að verja sig fyrir slysum með því að krjúpa, skýla og halda í. Gott getur verið að fara í horn á herbergi eða undir borð eða annað sem veitir skjól.
  • Ekki er mælt með því að hlaupa út, sérstaklega ef um einhverja vegalengd þarf að fara, þar sem erfitt er að fóta sig þegar allt er á hreyfingu.
  • Fara í skó til að verja fætur ef glerbrot eða annað er á gólfum.
  • Skrúfa fyrir vatnsinntak ef farið er að leka.
  • Skrúfa fyrir gaskútinn ef þú ert með gaseldavél.
  • Kveiktu á útvarpinu til að hlusta eftir upplýsingum og tilkynningum.
  • Ef íbúar meta hús óíbúðarhæft skaltu fara út í rólegheitum, taktu með þér það nauðsynlegasta og farðu í næstu fjöldahjálparstöð.
  • Möguleiki er á að símkerfi laskast og álag sé mikið. Því er gott að nota síma eingöngu í neyð.
  • Ef slys er á fólki skaltu hringja í 112.