Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 23.10.2020

Uppgjör 3. ársfjórðungs 2020

Árangur í fjárfestingum var góður á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir áskoranir á eignamörkuðum vegna heimsfaraldursins.

Helgi Bjarnason er forstjóri VÍS.
Helstu niðurstöður þriðja ársfjórðungs 2020.
  • Hagnaður var 1.032 m.kr. samanborið við 394 m.kr. tap á 3F 2019
  • Iðgjöld voru 5.735 m.kr. samanborið við 6.085 m.kr. 3F 2019
  • Fjárfestingatekjur voru 1.110 m.kr.  en voru neikvæðar um 237 m.kr. á sama tímabili í fyrra
  • Arðsemi eigin fjár var jákvæð um 7,0% en var  neikvæð um 2,7% á sama tímabili 2019
  • Samsett hlutfall var 94,5% samanborið við 99,7% á sama tímabili 2019
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Árangur í fjárfestingum var  góður á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir áskoranir á eignamörkuðum vegna heimsfaraldursins. Fjárfestingatekjur  námu 1.110 m.kr. og nafnávöxtun var 2,9%. Afkomu af fjárfestingum má einkum rekja til ávöxtunar af skráðum hlutabréfum en hækkun skráðra hlutabréfa nam 7,2%. Einnig var afkoma af erlendum skuldabréfasjóðum góð í ársfjórðungnum.

Viðsnúningur var í vátryggingarekstri milli fjórðunga. Afkoma vátryggingarekstrarins í þriðja ársfjórðungi var jákvæð um  358 milljónir króna ─ samanborið við tap upp á 158 milljónir króna í öðrum ársfjórðungi 2020. Iðgjöld tímabilsins voru 5.735 milljónir króna samanborið við 6.085 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Helstu ástæður fyrir lækkun iðgjalda er samdráttur í ferðaþjónustu og  minni umsvif í erlendri endurtryggingastarfsemi. Samsett hlutfall fjórðungsins var 94,5%.

Stafrænir sigrar

Við unnum ýmsa stafræna sigra á ársfjórðungnum. Við settum nýja heimasíðu í loftið en þar var allt kapp lagt á að útskýra tryggingar á mannamáli og veita góð ráð um forvarnir ─ sem stuðla að því að viðskiptavinir okkar lendi sjaldnar í tjónum.

Þrátt fyrir að lítið sé um ferðalög í heimsfaraldrinum, þá höfum haldið áfram að þróa stafrænar lausnir í ferðatjónum. Afgreiðsla ferðatjóna er nú orðin sjálfvirk sem þýðir einfaldlega betri og hraðari þjónusta. Ef  viðskiptavinir okkar verða fyrir skakkaföllum á ferðalögum erlendis, þá býður lausnin upp á sjálfvirka úrlausn mála. Við erum því tilbúin að veita enn betri þjónustu um leið og landinn fer að ferðast á ný.

Við lokuðum þjónustuskrifstofunum aftur í þessari bylgju heimsfaraldursins og veittum þjónustu með öðrum leiðum. Þess má geta að stærsta þjónustuskrifstofan okkar er á netinu og er opin allan sólarhringinn. Hlutfall rafrænna tjónstilkynninga hefur aldrei verið hærra eða tæplega 60%. Rúmlega 90% af tilkynningum um tjón á innbúi eru nú tilkynnt rafrænt ─ og er rúmlega helmingur af þeim í sjálfvirkri afgreiðslu. Við erum stolt af því, enda erum við á stafrænni vegferð.

Jákvætt viðhorf gagnvart Ökuvísi

Samvinnan við viðskiptavini okkar um þróun á Ökuvísi hefur verið mjög lærdómsrík. Þetta er ný nálgun í tryggingum hér á landi og er mikilvægt að rödd viðskiptavina heyrist frá byrjun. Við höfum því fengið viðskiptavini að borðinu til þess að hjálpa okkur að þróa og móta Ökuvísi. Þessi endurgjöf skiptir miklu máli, því við ætlum okkur að bjóða upp á vöru og þjónustu sem mætir raunverulegri þörf viðskiptavina okkar. Verkefninu miðar vel áfram en einn af þeim þáttum sem við hugum sérstaklega vel að ─ er að við séum ávallt að vinna í samræmi við persónuverndarlög. Gert er ráð fyrir fyrstu útgáfu nýs apps fyrir lok þessa árs. Þess má einnig geta að Íslendingar eru almennt jákvæðir gagnvart Ökuvísi, samkvæmt nýrri könnun. Þessi niðurstaða gefur okkur byr undir báða vængi ─ og hvetur okkur áfram.

Við lítum svo á að þessir stafrænu sigrar séu mikilvægar vörður í að verða stafrænt þjónustufyrirtæki. Við erum með skýra sýn og skýr markmið. Þrátt fyrir óvissu í samfélaginu vegna heimsfaraldursins höldum við ótrauð áfram ─ og lítum bjartsýn til framtíðar.“

Horfur

Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir því að samsett hlutfall fyrir árið 2020 verði 105,5%, ávöxtun fjáreigna verði 8,2% og hagnaður fyrir skatta 390 milljónir. Afkomuspá til næstu 12 mánaða gerir ráð fyrir 96,8% samsettu hlutfalli, 5,6% ávöxtun fjáreigna og hagnaði fyrir skatta upp á rúmlega 2,3 milljarða.