Hoppa yfir valmynd
Fréttasafn  | 19.03.2020

Unnið að heiman

Margir vinna heima þessa dagana sem gengur eflaust misvel. Sér í lagi ef börn eru á heimilinu sem þarf að sinna. Hafðu eftirfarandi atriði í huga til þess að tryggja að allt gangi sem best.

Hver er stærsta áskorunin?

Stærsta áskorun þeirra starfsmanna, sem mæta ekki daglega á starfsstöð, er að halda uppi rútínu og venju. Auðvelt er fyrir þann sem er heima að hægja aðeins á eða fresta hlutum. Besta leiðin til þess að halda gleðinni er því rútínan. Fara að sofa og vakna á svipuðum tíma. Taka sér matarpásur og velja hollan mat umfram ruslfæði. Standa reglulega upp og teygja úr sér. Stjórnendur geta t.d. aðstoðað með því að setja á dagskrá daglegan stöðufund með vefmyndavél eða síma. Þannig er komin skýr byrjun á deginum, skýr samskiptaleið og skuldbinding með teyminu.

Vinnuaðstaða

Mikilvægt er að vinnuaðstaðan heima sé góð svo okkur líði sem best. Ekki vinna í sófanum eða rúminu heldur við almennilegt borð og á góðum stól. Ef þú ert ekki með skrifborð þá er stofuborðið eða eldhúsborðið góður kostur. Ekki hika við að færa borðið í rýmið sem þú vilt vinna í. Gott er að velja rými sem er lítið notað af öðru heimilisfólki. Þrátt fyrir að hægt sé að vinna á fartölvu þá hentar hún ekki endilega til lengri vinnu. Vertu því með góðan skjá, lyklaborð og mús sem þægilegt er að nota til lengri tíma. Netið þarf að vera gott og með góðu gagnamagni.

Hreyfing er nauðsynleg

Oft er ekki mikill félagsskapur í boði þegar vinna þarf heima. Nema auðvitað að fleiri á heimilinu séu heima við. Nauðsynlegt að taka frá tíma til þess að hreyfa sig, þó ekki sé nema að fara út í göngutúr. Fá sér ferskt loft og orku í kroppinn sem ýtir undir betra vinnuframlag þegar aftur heim er komið.

Ekki tapa þér í fréttunum

Stöðugt berast nýjar fréttir af COVID-19. Taktu þér endilega pásu frá þeim. Gott er að kíkja einu sinni yfir daginn á stöðu mála. Að lifa og hrærast í fréttum gerir fæstum gott nema að þú hafir atvinnu af því. Svo gæti verið góð hugmynd að taka einn og einn fréttalausan dag.

Haltu uppi öflugum samskiptaleiðum

Leyfðu tækninni að vinna með þér. Til eru margar öflugar samskiptaleiðir sem reynast vel. Til að byrja með getur tæknin verið flókin. Við erum öll að finna taktinn og þurfum að venjast nýjum aðstæðum og aðferðum. Sláðu oftar á þráðinn til vinnufélaganna en styttu samtölin í staðinn. Hafðu líka í huga að athuga hvernig öryggismálunum er háttað hjá samskiptamiðlinum ef upplýsingarnar eru viðkvæmar.

Stella 5 ára var að bóka þig á fund

Skólar eru lokaðir eða með minni þjónustustig og íþróttir barna hafa víða fallið niður. Börnin eru því heima og vilja sína athygli. Starfsfólk með börn og skyldur heima fyrir, eiga ekki auðvelt með að vera eins afkastamikið heima fyrir. Spjallaðu við samstarfsfólkið um hvernig og með hvaða hætti þau telja best að sinna starfi sínu. Jafnvægi og sveigjanleiki milli vinnu og einkalífs er hagur allra.

Mamma er í vinnunni núna

Það getur verið freistandi að leyfa börnunum að horfa meira á sjónvarp eða að nota snjalltæki sem barnapíur. En hvernig lítur það út ef að ástandið verður langvarandi? Börnin þurfa í raun tvennt sem mest á meðan þessu stendur: Athygli og rútína. Í stað þess að leita að rafrænum barnapíum, teiknaðu þá upp hvernig dagurinn getur litið út ef núverandi ástand varir lengi. Þú getur t.d. skipt deginum upp og gert stundaskrá fyrir alla á heimilinu. Þannig að allir hafi sín verkefni yfir daginn. Þá er auðveldara að bera virðingu fyrir tíma annarra. Sameiginlegur morgunmatur getur verið á dagskrá áður en allir fara í sín verkefni. Krakkarnir geta æft lestur á meðan foreldri vinnur. Eftir það geta allir farið saman í göngutúr og fengið ferskt loft áður en næsta verkefni er tekið fyrir.. Svona getur dagurinn gengið fyrir sig, koll af kolli. Þó að afraksturinn sé ekki sá sami og ef börnin væru í skóla og foreldrar á starfsstöð, þá eru afköstin orðin meiri og athyglin á börnin meira gefandi.

Munum að þetta er tímabundið ástand. Að fást við veiruna og afleiðingar hennar er verkefni sem við öll verðum að taka þátt í. Ef við erum öll almannavarnir þá ganga hlutirnir betur. Gleymum ekki að sumarið er handan við hornið.


,